Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 17:02:13 (1617)

2002-11-19 17:02:13# 128. lþ. 32.11 fundur 359. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (gjaldaheimildir) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[17:02]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri mér fulla grein fyrir því að Kaupfélag Eyfirðinga er inni í Kaldbak. Mér er ljóst að það á stóran hlut þar og að útgerðarfyrirtæki þess gekk inn í það púkk og m.a. fyrirtæki á Dalvík, Snæfell. Það er ekki það sem ég er að tala um. Ég er að tala um aðrar hliðarverkanir, t.d. að þessi breyting og þessi áherslubreyting hefur t.d. orðið til þess að út úr Mjólkursamlagi KEA er verið að draga nokkur hundruð millj. Ég tel það afar óheppilegt. Í fyrsta lagi tel ég að til lengri tíma litið sé það óheppilegt fyrir neytendur en líka afar óheppilegt fyrir bændur sem ég tel að eigi þetta samlag ásamt neytendum. Hið sama á við á kjötmarkaði og úrvinnslumarkaði. Þar hafa orðið óheppilegar hliðarráðstafanir vegna þessara kerfisbreytinga. Ég held að við séum ekki búin að bíta úr nálinni með það.

Ég gat ekki skilið orð hæstv. iðnrh. öðruvísi en að henni fyndist sjálfsagt að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn væru prímusmótorar í viðskiptalífinu (JB: Og skiptu á milli sín völdum.) --- já, skiptu á milli sín völdum og aðrir flokkar væru þar síður málsmetandi.