Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 17:30:24 (1625)

2002-11-19 17:30:24# 128. lþ. 32.13 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., Flm. KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[17:30]

Flm. (Kristján L. Möller) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að hæstv. iðn.- og viðskrh. fer ekki með skattamál, fer ekki með þungaskattinn. Því má draga þá ályktun að þetta sé allt fjmrh. að kenna. Það er líka rétt sem ráðherra sagði að þungaskattskerfið var kært af vörubílstjórum og afsláttarkerfið afnumið. Samkeppnislög sögðu það.

Einnig má snúa spurningunni við og spyrja hvort það sé ekki brot á samkeppnislögum að aðilar þurfi að greiða stigmagnandi þungaskatt og stigmagnandi virðisaukaskatt eftir því sem lengra er ekið með vörur frá höfuðborgarsvæðinu. Ég held að það sé svo.

Mér finnst það líka frekar hjákátlegt, herra forseti, að iðn.- og viðskrh. skýli sér á bak við það að byggðaáætlun hæstv. ráðherra hafi verið samþykkt í vor. Herra forseti. Hefur byggðaáætlun ekki verið í gildi í landinu? Tók hæstv. ráðherra ekki við þeirri byggðaáætlun sem var í gildi fram að þessu? Var kannski ekkert fjallað um það atriði sem ég og hæstv. ráðherra erum sannarlega sammála um að er eitt stærsta byggðamálið sem þarf að taka á sem allra fyrst? Var byggðaáætlun hæstv. forsrh. þá gagnslaust plagg sem ekki var hægt að fara eftir og taka á þessum málum? Mér finnst, herra forseti, frekar hjákátlegt að skýla sér á bak við það.

En ég ætla sannarlega að taka undir það og segja: Ef það er svo að verið er að vinna þetta núna og þetta verði ekki eins og kosningaplagg sem einhver önnur ríkisstjórn á að taka og framkvæma, þá er það sannarlega gott að svo sé. En mér finnst það frekar billega sloppið að ætla að skýla sér á bak við það að vera nýtekin við byggðamálum og byggðaáætlun sé bara samþykkt frá í vor. Þetta var áður. Þessi vandi hefur verið öllum kunnugur allan þennan tíma og ég minni á að það er ekki verið að flytja þetta mál af okkur þingmönnum jafnaðarmanna í Samfylkingunni í fyrsta skiptið. Þetta er í annað eða þriðja skiptið sem við flytjum þetta mál.