Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 17:33:45 (1627)

2002-11-19 17:33:45# 128. lþ. 32.13 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., HBl
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[17:33]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Þau mál sem hér eru til umræðu eru gamalkunnug, hafa verið rædd á Alþingi svo áratugum skiptir, spurningin um hvernig hægt sé að lækka flutningskostnað út á land. Auðvitað hefur umræðan nokkuð farið eftir því hversu langt vegagerð hefur komist áleiðis til viðkomandi staða, hversu góðir vegir hafa verið, strandsiglingar og annað þar fram eftir götunum.

Mér þykir nokkuð merkilegt um þá till. til þál. sem hér liggur fyrir og ber yfirskriftina: Um vöruverð og rekstrar- og samkeppnisstöðu atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni, að þar er ekki minnst einu einasta orði á vegakerfið sem sýnir ljóslega að tillagan er ekki hugsuð til enda því að auðvitað skiptir það grundvallarmáli í sambandi við flutningskostnað og samgöngur almennt hvernig ástand veganna er.

Segja má til gamans að það kom Akureyringum mjög í opna skjöldu á sunnudaginn að ekki skyldi flogið eins og vant er. Menn eru farnir að ganga út frá því sem gefnu að þeir geti komist leiðar sinnar hvort sem er í flugi eða akandi þó komið sé fram í nóvember.

En kjarni málsins er vitaskuld sá að ekki er hægt að lækka flutningskostnað til frambúðar nema með betri vegum eða þá með því að kostnaður við flutningana sjálfa með öðrum hætti lækki. Flutningatækninni fleygir fram. Auðvitað hefur það verið svo síðustu áratugi að flutningatækninni hefur fleygt fram og vegir hafa batnað og af þeim sökum er flutningskostnaðurinn nú minna hlutfall af framleiðslukostnaði en áður var af því að þetta hvort tveggja hefur gerst. Auðvelt er að benda á fyrirtæki fyrir norðan sem óhugsandi væri að reka miðað við þá flutningsgetu sem var ef við förum 20--30 ár aftur í tímann. Þetta veit ég að hv. flutningsmaður skilur og veit ofurvel þó hann hafi ekki séð ástæðu til að gefa því gaum í þessari tillögu.

Ég segi þetta vegna þess að ég lít svo á að eina leiðin til að lækka flutningskostnað til Eyjafjarðarsvæðisins verulega er að leggja nýjan veg norðan jökla um Kaldadal og Mosfellsheiði til Reykjavíkur. Með þeim hætti er hægt að stytta leiðina um 25% og auðvitað mundi það þýða verulega lækkun á flutningskostnaði, kannski 20%, erfitt er að segja um það. Þetta mundi t.d. valda því að bílar gætu kannski komist fram og til baka sama daginn án þess að það rækist á hin nýju vökulög um bílstjóra og mundi þannig með margvíslegum hætti bæta samkeppnisstöðu iðnaðarins fyrir norðan. En það er einmitt það sem menn eru að tala um þegar þeir eru að tala um iðnaðinn fyrir norðan, um möguleika samkeppnisiðnaðar þar, þá eru þeir auðvitað að tala um spurninguna um það hvernig hægt sé að koma vörunni með góðu móti á markað. Þess vegna segi ég þegar verið er að fjalla sérstaklega um samkeppnisstöðu atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni, mér þykir mjög undarlegt að hv. þm. skuli ekki gera það að aðalefni ræðu sinnar hvernig við getum bætt vegina þannig að tryggt sé að um hagræðingu til frambúðar sé að ræða. Þetta veit hv. þm. Ef hv. þm. er kunnugur þá veit hann líka að ýmsir sem standa fyrir rekstri hafa áhuga fyrir því að þessu máli verði ýtt áfram vegna þess að þeir gera sér auðvitað betur grein fyrir því en allir aðrir hvað er í húfi.

Ef við förum lengra ofan í þetta mál er sjálfsagt að rifja það upp að vegurinn eins og hann liggur núna, hringvegurinn, er víða ófullburða, þröngur og beinlínis hættulegur. Það vita allir þeir sem aka norður og mæta röð flutningabíla, löngum lestum, þurfa ýmist að mæta þeim eða kjósa að fara fram úr þeim vegna þess að flutningabílarnir aka ekki á sama hraða. Hvergi nokkurs staðar eru hætturnar meiri en á þessari leið, Akureyri--Reykjavík, hvergi leynast þær víðar og hvergi aka menn með meiri gát en einmitt á þessari leið. Þess vegna er það í senn öryggisatriði að hinn nýi vegur komi fyrir utan þá miklu hagræðingu sem því fylgir.

Ég vil, herra forseti, láta í ljós undrun mína aftur á því að hv. þm. skuli ekki gera það að aðalatriði í ræðu sinni hvernig hægt sé að tryggja samgöngurnar með þessum hætti. Hitt sem hann talar um, að skattleggja vörur mismunandi eftir því hvar menn búa á landinu, er gömul hugmynd. Ég man eftir því t.d. að gamlir þingmenn eins og Matthías Bjarnason, Sverrir Hermannsson og ýmsir aðrir sem hér voru á 8. áratugnum voru að velta þessu fyrir sér og fundu ekki lausn á málinu.

Ég hef setið í ríkisstjórn með þingmönnum Samfylkingarinnar. Ég man ekki eftir því að meðan þeir hv. þingmenn voru í ríkisstjórn hafi þeir haft áhuga á því að menn ættu að geiða tvenns konar virðisaukaskatt eftir því hvar þeir byggju á landinu. (Gripið fram í: Þeir gera það í dag.) Ég verð að segja, herra forseti, að það er óheppilegt að formaður Samfylkingarinnar skuli ekki geta verið við þessa umræðu. Ég vil óska eftir því að umræðunni verði frestað, það hefur verið gert áður, til þess að formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, geti lýst því yfir úr þessum ræðustól að hann vilji leggja það til og setja það sem skilyrði fyrir setu í næstu ríkisstjórn, ef hann á kost á því, að það skuli vera mismunandi hár virðisaukaskattur eftir því hvar menn búa á landinu þannig að menn finni að það er alvara á bak við þetta hjá hv. þm. þegar hann heldur því fram að flokkur hans vilji hafa mismunandi háan virðisaukaskatt, að það komi fram að full alvara sé á bak við það. Mér finnst það undarlegt ef Samfylkingin leggur svona mikið upp úr þessu. Hvers vegna eru þá ekki hér í þingsalnum þeir þingmenn Samfylkingarinnar sem eru talsmenn hennar í efnahags- og skattamálum? Þessi hv. þm. er að spyrja ráðherra? Af hverju hefur hann ekki sína menn hér til að staðfesta þetta? Það væri fróðlegt að fá að sjá þá. Það væri fróðlegt að heyra hvernig þeir flytja mál sitt og fróðlegt væri að vita hvernig þessi hv. þm. vill skilgreina það nákvæmlega, --- hann á eftir að tala hér --- eftir landsvæðum hvernig hann vill hafa mismunandi háan virðisaukaskatt eftir því hvar menn búa á landinu.

(Forseti (ÍGP): Forseti vill láta þess getið að verið er að kanna hvar hv. þm. Össur Skarphéðinsson er í augnablikinu. Hv. 3. þm. Norðurl. v. hefur bæði óskað að veita andsvar við ræðu hv. þm. og um störf þingsins (Gripið fram í: Nokkuð fleira?) sem er í raun og veru (Gripið fram í.) um fundarstjórn forseta því að undir liðnum um störf þingsins gerir maður athugasemd í upphafi þingfundar. Hv. þm. gerir því athugasemd við fundarstjórn forseta.)