Stækkun friðlandsins í Þjórsárverum

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 17:55:08 (1636)

2002-11-19 17:55:08# 128. lþ. 32.15 fundur 30. mál: #A stækkun friðlandsins í Þjórsárverum# þál., Flm. KolH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[17:55]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Sú tillaga sem hér liggur fyrir til þingsályktunar fjallar um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum og hefur verið flutt áður af þeirri sem hér stendur. Mér er bæði ljúft og skylt að flytja þessa tillögu á Alþingi Íslendinga eina ferðina enn og sérstaklega ljúft núna þegar átökin um Þjórsárverin eru jafnmögnuð og raun ber vitni þessa dagana.

Innihald þáltill. er að Alþingi álykti að skora á ríkisstjórnina að beita sér fyrir því að mörkum friðlandsins í Þjórsárverum verði breytt og það stækkað þannig að sem mest af gróðurlendi svæðisins lendi innan friðlýsingarmarkanna. Einnig að áætlun verði gerð um friðun Þjórsár frá mörkum friðlandsins í Þjórsárverum til suðurs að Sultartangalóni.

Eins og alþjóð veit njóta Þjórsárver nú ákveðinnar verndar samkvæmt auglýsingu um friðland í Þjórsárverum sem birtist í Stjórnartíðindum 1987 og er nr. 507. Þessi friðlýsing er alls ekki þannig hugsuð að náttúrulegt vistkerfi Þjórsárvera falli allt innan friðlandsins, því fer fjarri. Á þeim tíma sem friðlýsingin var gerð stóðu þá þegar talsverðar deilur um Þjórsárverin og virkjanaglaðir einstaklingar, stjórnmálamenn þar á meðal, höfðu lýst yfir miklum áhuga á að setja niður uppistöðulón og það svo stórt á tímabili að hugmyndin var hreinlega í fyrstunni að sökkva verunum öllum.

Á þeim tíma sem friðlýsingin er gerð, í upphafi 1981, er þegar um ákveðna málamiðlun að ræða. Í friðlýsingarskilmálunum var tekið fram að Náttúruvernd ríkisins, þáverandi Náttúruverndarráð, mundi fyrir sitt leyti veita Landsvirkjun undanþágu frá friðlýsingunni til að gera uppistöðulón með stíflu við Norðlingaöldu í allt að 581 metra yfir sjávarmáli en þessi heimild er í friðlýsingunni skilyrt með mjög svo afgerandi hætti, herra forseti. Skilyrðingin er sú að rannsóknir sýni að lónmyndun á þessu svæði sé framkvæmanleg án þess að náttúruverndargildi veranna rýrni óhæfilega að mati Náttúruverndar ríkisins.

Nú standa mál þannig, herra forseti, að Landsvirkjun hefur látið meta umhverfisáhrif lóns við Norðlingaöldu. Hugmynd Landsvirkjunar var samkvæmt matsskýrslu sú að lónið ætti að fara í 575 metra yfir sjávarmál. Skipulagsstofnun felldi umdeildan úrskurð í ágúst sl. þar sem fram kemur að Skipulagsstofnun fallist á framkvæmdina þar sem lón yrði heimilað í allt að 578 metra yfir sjávarmál, þ.e. hærra yfir sjávarmáli en Landsvirkjun fór fram á í matsskýrslunni.

Þessi úrskurður Skipulagsstofnunar hefur verið afar umdeildur, herra forseti. Menn hafa jafnvel haft á orði að hann sé svo undarlegur að við liggi að dr. Jekyll og Mr. Hyde hafi skrifað hann. Allt meginmál úrskurðarins gengur út á að leiða fram rök og fram í dagsljósið öll þau óhæfilegu umhverfisáhrif sem af framkvæmdunum yrðu. Þeirra er getið og þau tíunduð í löngu máli. Jafnvel þó að ákveðnum þáttum sé þar sleppt, þá er engu að síður meginmál úrskurðarins þess eðlis að mikið er gert úr þeirri óhæfilegu röskun sem yrði á náttúrufari veranna. Síðan er eins og úrskurðarritari hafi umturnast þegar að niðurlagsorðunum kom. Þau eru með því móti að þau eru í hróplegu ósamræmi við allt meginmálið í sjálfum úrskurðinum. Þess vegna hefur úrskurðurinn orðið jafnumdeildur og raun ber vitni og ekki bara umdeildur því að hann liggur nú á borði hæstv. setts umhvrh., Jóns Kristjánssonar. Úrskurðurinn hefur fengið einar 11 kærur, ef ég man rétt, sem settur umhvrh. hefur nú til meðferðar.

[18:00]

Þetta var í stuttu máli, herra forseti, yfirlit yfir þær deilur og þann styrr sem stendur um Þjórsárverin í dag, árið 2002, 20 árum eftir friðlýsinguna. Og í þessu þingmáli, þessari till. til þál., er eðlilegt að spurt sé: Hvers virði er friðlýsing ef hún nægir ekki til að bægja frá virkjunarsinnum, Landsvirkjun eða stjórnvöldum, sem með flýtimeðferð vilja veita stóriðjufyrirtækjum ódýra raforku og rökstyðja mál sitt fyrst og fremst á þann hátt að Norðlingaölduveita sé svo hagkvæmur kostur, hún sé í raun og veru eini mögulegi kosturinn til þess að veita Norðuráli skjóta afgreiðslu, þ.e. innan þess tímafrests sem Norðurál setur? Rök þessi, herra forseti, eru að mínu mati hláleg því að friðlýsingin í Þjórsárverum hlýtur í hugum allra Íslendinga að skipta meira máli en eitthvert óðagot í Norðuráli og Landsvirkjun og kapphlaup eftir ódýrum virkjunarkosti.

Til þess að slá skjaldborg um verin, Þjórsárverin, sem eru ein dýrmætasta náttúruperla okkar Íslendinga er þetta mál hér flutt. Skjaldborgin yrði með þeim hætti að ekki einasta yrði staðfest sú friðlýsing sem nú ríkir á verunum heldur yrði gengið lengra og friðlýsingin stækkuð. Það yrði farið með friðlýsingarmörkin algerlega út að hinum náttúrulegu mörkum Þjórsárvera og þá nyti verndar allt hið eiginlega landsvæði sem má segja að út frá náttúrufræðilegum og landfræðilegum sjónarmiðum heyri Þjórsárverunum til. Þegar þessi umrædda friðlýsing var gerð, árið 1981, voru friðlýsingarmörkin eingöngu dregin sem beinar línur á milli ákveðinna landfræðilegra punkta. Vistfræðileg nálgun var alls ekki til staðar þannig að ég tel að núna, 20 árum síðar, ættu Íslendingar að sjá sóma sinn í að draga þessi friðlýsingarmörk upp á nýtt og láta þau þá fylgja hinum vistfræðilegu eiginleikum Þjórsárvera.

Herra forseti. Það eru ekki bara virkjunarsinnar í ríkisstjórninni því að satt að segja hefur það vakið furðu margra að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands hafa talað tveimur tungum í þessum málum. Í því sambandi má nefna ummæli Guðna Ágústssonar, hæstv. landbrh., ummæli Sivjar Friðleifsdóttur, hæstv. umhvrh., og ummæli Halldórs Ásgrímssonar, hæstv. utanrrh., sem öll hafa lýst yfir afgerandi stuðningi við náttúruverndarsjónarmiðin þegar Þjórsárver hafa verið annars vegar.

Mig langar að vitna hérna til orða Guðna Ágústssonar, hæstv. landbrh., sem í viðtali við Ríkisútvarpið þann 8. febrúar 2001 sagði eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Ég vil sjá að það sé ákveðið af pólitíkinni að sumir staðir eru staðir sem aldrei kemur til greina til dæmis að sökkva undir vatn. Ég nefni hér sem dæmi kannski Þjórsárverin, þau eru mér heilög. Ekki fermetri af þeim undir vatn.``

Herra forseti. Ég yrði ekki hissa þó að hæstv. landbrh. engdist af og til undir þeim umræðum sem eiga sér stað núna í fjölmiðlum þegar verið er að tala um þessar virkjunarframkvæmdir sem ganga guðlasti næst í hans huga þar sem Þjórsárverin eru heilög. Og ég spyr í þeirri von að hæstv. landbrh. heyri orð mín: Hvar er nú málflutningur hans til varnar Þjórsárverum? Það er beðið eftir því að þeir sem vilja af alvöru vernda þessi ver geri eitthvað róttækt og marktækt í þeim málum en haldi ekki áfram að vera í felum inni í skáp og styðja stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar með ráðum og dáð en láta svo eins og þeir séu heilagir náttúruverndarsinnar þegar þannig liggur á þeim.

Sömuleiðis hefur Siv Friðleifsdóttir látið hafa eftir sér ummæli um Þjórsárver. Hún sagði í fréttum Ríkisútvarpsins þann 3. febrúar árið 2001 eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Það er alveg ljóst að Þjórsárverin hafa gífurlegt náttúruverndargildi og það er ákveðið svæði í Þjórsárverum sem er friðað og ég tel að við eigum ekki að skerða hið friðaða svæði. Svæðið er aðalvarpstöð heiðargæsa og gífurlega frjósamt gróðurfarslega séð. Ég skoðaði það í sumar með fulltrúum Náttúruverndar ríkisins og Þjórsárveranefnd og ég tel að við eigum að halda hinu friðaða svæði óskertu og eigum ekki að minnka náttúruverndargildi þess með nokkrum hætti.``

Ég tek undir þessi orð hæstv. umhvrh. Sivjar Friðleifsdóttur. Ég segi það líka að náttúruverndargildi veranna má ekki skerða. Það hefur sýnt sig í tilraunamati verkefnisstjórnar rammaáætlunarinnar að Þjórsárverin eru ein allra verðmætasta perlan sem við eigum á hálendi Íslands út frá náttúruverndarsjónarmiðum. Það er ekkert sem gæti réttlætt það, herra forseti, í mínum huga að þessari perlu yrði fórnað fyrir skammvinnan ávinning á stóriðjubáli stjórnvalda sem þau kynda undir af oddi og egg. Og ég lýsi yfir vantrausti og vantrú á ráðherra á borð við Siv Friðleifsdóttur hæstv. umhvrh. og Guðna Ágústsson hæstv. landbrh. sem tala eins og þau hafa gert opinberlega, lýsa yfir stuðningi á annað borðið meðan þau róa að því öllum árum að stóriðjustefnan nái fram að ganga á hitt borðið.

Varðandi náttúruverndargildi veranna, herra forseti, rakti ég það hér fyrr í máli mínu að Náttúruvernd ríkisins er sá lögformlegi aðili sem á að meta náttúruverndargildi veranna. Náttúruvernd ríkisins með Þjórsárveranefnd sem sinn ráðgjafa hefur sannarlega talað. Hún hefur sagt það svo óyggjandi sé í öllum umsögnum með þessu máli til Skipulagsstofnunar og til hæstv. starfandi umhvrh. núna að náttúruverndargildi veranna mundi rýrna óhæfilega yrði af þessari framkvæmd. Og þar sem Náttúruvernd ríkisins er leyfisveitandi samkvæmt náttúruverndarlögum á friðuðum svæðum er það Náttúruverndar ríkisins að segja já eða nei í þessum efnum. Náttúruvernd ríkisins hefur sagt nei. Skilyrðið fyrir virkjuninni fæst sem sagt ekki uppfyllt af því að Náttúruvernd ríkisins gefur ekki leyfi sitt.

Hvernig ætlar nú hæstv. ríkisstjórn Íslands að fara í kringum það? Flogið hefur fyrir, herra forseti, að ríkisstjórnin ætli sér að breyta friðlandsmörkunum. Það hefur heyrst að Landsvirkjun hafi óskað eftir því formlega við ríkisstjórnina eða ráðherra í ríkisstjórninni að friðlandsmörkunum verði breytt með ákvörðun ráðherra --- og hvað mundi það þýða? Jú, það mundi þýða að lónsstæðið yrði látið falla utan friðlýsingarlínu, línan yrði hreinlega færð til sem næmi lóninu. Og ég lýsi því yfir, herra forseti, að beiðni af þessu tagi af hálfu Landsvirkjunar er siðleysi en enn meira siðleysi yrði það ef einhver hæstv. ráðherra leyfði sér að leggja það til, að beiðni Landsvirkjunar, að friðlýsingarmörkin yrðu færð til á þann hátt að lónið yrði logið inn í verin. Ég skora á hæstv. ríkisstjórn Íslands að hugsa þetta mál frá grunni á nýjan leik. Ég skora á alla þá sem að þessu máli koma í hv. umhvn. að skoða það til hlítar, skoða það með opnum augum og fullri meðvitund og reka nú á brott þessa blindu sem stjórnarflokkar og þingmenn stjórnarflokkanna hafa verið haldnir varðandi Þjórsárverin.

Þjóðin hefur talað einu máli. Þann 4. nóvember sl. var haldinn baráttufundur í Austurbæjarbíói til varnar Þjórsárverum. Hvers vegna? Vegna þess að þjóðinni finnst Þjórsárver vera þjóðargersemi og þjóðin er tilbúin að slá skjaldborg um Þjórsárver. Þegar þingmenn stjórnarflokkanna fara að gera hosur sínar grænar fyrir kjósendum á næstu vikum og mánuðum er eins gott að þeir hafi svör á reiðum höndum varðandi Þjórsárver. Það er eins gott að þeir tali þá ekki tungum tveim, það er eins gott að þeir leggi lóð sitt á vogarskálarnar til að bjarga þessari þjóðargersemi frá eilífri glötun en það er ekki í neitt annað sem stefnir ef stóriðjustefnan og Landsvirkjun verða látin ráða örlögum veranna.

Herra forseti. Ég hef nú lokið því að mæla fyrir þessari þáltill. um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum í annað sinn, og satt að segja hefði ég óskað þess að fleiri þingmenn væru staddir í salnum heldur en raun ber vitni. Ég hef fulla löngun til að halda hér seinni ræðu, af nógu efni er að taka, en ef engin frekari umræða verður um þessa þáltill. óska ég eftir að í lok þessarar framsögu minnar verði tillögunni vísað til síðari umr. og hv. umhvn.