Sparisjóðir og bankaþjónusta

Miðvikudaginn 20. nóvember 2002, kl. 13:38:01 (1639)

2002-11-20 13:38:01# 128. lþ. 34.1 fundur 291. mál: #A sparisjóðir og bankaþjónusta# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 128. lþ.

[13:38]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Bankaþjónusta er hluti af almannaþjónustukerfinu. Aðgengi að slíkri þjónustu skiptir máli fyrir samkeppnishæfni, búsetu og atvinnurekstur. Það getur virst einfalt að loka bankaútibúi rekstrarlega séð en fyrir fólkið sem býr í nágrenninu og byggir búsetu sína á þeirri þjónustu getur það verið alvarlegt mál.

Þessa dagana er verið að selja báða ríkisbankana, Landsbankann og Búnaðarbankann, sem hafa verið þjónustustofnanir í eigu þjóðarinnar um áratuga skeið og verið liður í að byggja upp það búsetusamfélag og atvinnusamfélag sem við höfum búið við síðustu áratugina. Það hlýtur því að vera spurning þess fólks sem býr úti á landi, spurning til hæstv. viðskrh. sem ég leyfi mér að bera fram:

Hvernig hyggst ráðherra tryggja örugga og góða nærþjónustu í bankastarfsemi í dreifbýli sem þéttbýli eftir að ríkið hefur selt meiri hluta sinn bæði í Landsbanka og Búnaðarbanka? Það trúir því enginn að fyrirhyggjan sé svo lítil að þessar þjónustustofnanir séu seldar skilmálalaust.

Í öðru lagi, herra forseti, leyfi ég mér að spyrja hæstv. ráðherra: Mun ráðherra beita sér fyrir því að skylda Búnaðarbankann eða Landsbankann til að hafa skilgreint net útibúa vítt og breitt um landið með tiltekinni lágmarksþjónustu?

Og í þriðja lagi, herra forseti: Mun ráðherra beita sér fyrir því að láta kanna réttarstöðu þeirra sparisjóða sem fólu útibúum ríkisbankanna verkefni sín og eignir en sjá nú á bak þeim bótalaust við sölu ríkisbankanna? Við þekkjum það, herra forseti, að sparisjóðirnir, sem að vissu leyti er samstaða um að þeir sem eftir eru fái að njóta stöðu sinnar, runnu inn í næsta viðskiptabanka í þeirri trú að hann yrði áfram ríkisbanki.

Í síðasta lagi spyr ég, herra forseti: Mun ráðherra styðja baráttu þeirra sem nú vilja treysta aftur bankaþjónustu í heimabyggð og endurheimta sparisjóði sína ásamt þeim eignum og fjármálaumsvifum sem heimamenn fólu bankaútibúi í trausti þess að bankarnir yrðu áfram þjóðareign?