Sparisjóðir og bankaþjónusta

Miðvikudaginn 20. nóvember 2002, kl. 13:48:30 (1643)

2002-11-20 13:48:30# 128. lþ. 34.1 fundur 291. mál: #A sparisjóðir og bankaþjónusta# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 128. lþ.

[13:48]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Mér fannst mjög dapurlegt að hlusta á hæstv. viðskrh. vísa frá sér allri samfélagslegri ábyrgð á þjónustustarfsemi bankakerfisins hér á landi. Spurt var hvernig ráðherrann hygðist tryggja örugga og góða nærþjónustu í bankastarfsemi í dreifbýli eftir einkavæðingu bankakerfisins. Ráðherrann kvaðst enga slíka ábyrgð bera, það væri búið að markaðsvæða þessa þjónustustarfsemi og við ættum að haga okkur líkt og menn gera í útlöndum.

Spurt var hvort tryggja ætti þjónustunet á landsbyggðinni. Ráðherrann sagði: Ég mun ekki styðja slíkt. Og varðandi tilraunir til að efla bankaþjónustu í heimabyggð og endurheimta sparisjóði sína sagði ráðherrann: Ég mun ekki styðja baráttu þessa með einum eða neinum hætti. Þetta voru svörin.

En hvað var svona dapurlegt við þessi svör þar sem við þekkjum þau úr annarra manna munni? Við þekkjum þau úr munni peningafrjálshyggjunnar. Nú koma þau úr munni ráðherra Framsfl.