Erfðabreyttar lífverur

Miðvikudaginn 20. nóvember 2002, kl. 14:07:54 (1651)

2002-11-20 14:07:54# 128. lþ. 34.2 fundur 301. mál: #A erfðabreyttar lífverur# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 128. lþ.

[14:07]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég hygg að það sé rétt hjá hv. þm. að hér er um flókið mál að ræða. Samt mikilvægt að fjalla um það og fara yfir.

Það kom fram í fyrri ræðu hv. þm. að menn deildu um erfðabreyttar lífverur, hvort þær væru böl eða búbót. Ég hygg að það sé líka rétt. En mikilvægast er auðvitað að við höldum vöku okkar og sérstöðu og fylgjum eftir ýmsu því sem aðrir gera og ekkert síður að við náum að sýna frumkvæði á þessu sviði.

Ég vil þó segja við hv. þm. Þuríði Backman að við erum ekki alls staðar langt á eftir, hvorki í þessu efni né öðrum. Sums staðar eru Íslendingar eitthvað á eftir en annars staðar eru þeir langt á undan. Af hverju þarf alltaf að tíunda það þegar við erum langt á eftir? Við erum á mörgum sviðum öfundsverðir af okkar stöðu, bæði búfjárstofninum, hreinleika náttúrunnar og hvernig við höfum staðið að löggjöf og reglum.

Ég ætla hins vegar ekki að fara að tíunda það hér í lokaræðu minni. Ég þakka aftur á móti þessa umræðu. Ég tek undir með hv. þm. að það er mjög mikilvægt fyrir Alþingi Íslendinga að halda vöku sinni í þessu efni, fylgja eftir með löggjöf og fylgjast með að þeir sem með framkvæmdarvaldið fara á hverjum tíma fylgi alþjóðlegum samþykktum og séu leiðandi í umræðunni fyrir íslenska þjóð.