Eftirlit með iðn- og starfsnámi

Miðvikudaginn 20. nóvember 2002, kl. 14:09:59 (1652)

2002-11-20 14:09:59# 128. lþ. 34.3 fundur 335. mál: #A eftirlit með iðn- og starfsnámi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., KolH
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 128. lþ.

[14:09]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég flyt hér fyrirspurn frá hv. þm. Drífu Snædal sem setið hefur sem varamaður minn sl. tvær vikur. Ekki reyndist unnt að setja fyrirspurnina á dagskrá meðan hún sat á þingi þannig að nú fylgi ég fyrirspurninni úr hlaði fyrir hennar hönd.

Hv. þm. spyr hver sé stefna stefna menntmrh. varðandi einkarekna starfsnámsskóla og hvernig eftirliti með starfsemi þeirra sé háttað.

Í öðru lagi spyr hv. þm.: Hyggst ráðherra beita sér gegn því að meistarar nýti nema sem launalaust vinnuafl í þeim stéttum þar sem erfitt er að komast á námssamning og ef svo er, á hvern hátt verður það gert?

Það sem að baki þessum fyrirspurnum liggur, herra forseti, er að í einu fagi sérstaklega í iðngreinum, þ.e. í snyrtifræði, hefur borið á því að deild sem starfrækt er á því sviði sé langt frá því að anna eftirspurn eftir þessu námi. Sú deild er rekin við Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Það mun vera allt að tveggja ára biðlisti í þetta nám. Vegna þessara aðstæðna hafa sprottið upp einkareknir snyrtiskólar. Mér vitanlega eru þeir tveir nú um stundir, annar á öðru starfsári sínu og hinn að byrja sitt fyrsta ár.

Spurningin er um hvort þessir einkaskólar lúti sömu lögmálum og brautin sem starfrækt er við Fjölbrautaskólann í Breiðholti og hvort fylgst sé með því að kennslan sem nemendur í þessum einkaskólum fá sé sambærileg við það sem nemendur fá í hinum ríkisrekna skóla.

Eins er spurning hvort menntmrn. hafi gripið til einhverra aðgerða eða skoðað sérstaklega sl. vor þegar ljóst var að nemendur sem tóku sveinspróf frá öðrum af þessum einkaskólum áttu erfiðara með að ná prófi en raun bar vitni í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti.

Hér er um að ræða fjögurra anna nám og 12 mánaða starfsþjálfunartíma. Auðvitað er full þörf á því að eftirlits sé gætt með einkaskólunum til jafns við hið opinbera nám.

Síðari spurningin lýtur í raun og veru að vinnustaðanámi. Það er t.d. uppi í ljósmyndun að mjög fáir nemar komast á samninga. Nú er farið að bera á því að nemar sætti sig jafnvel við að að fá lítil sem engin laun ef meistarar eru tilbúnir að taka þá á einhvers konar samning. Spurningin er hvort menntmrn. hafi fylgst með þessari þróun og því hversu erfitt reynist fyrir nema í sumum greinum að komast á starfsnámssamninga.