Könnun á læsi fullorðinna

Miðvikudaginn 20. nóvember 2002, kl. 14:25:02 (1657)

2002-11-20 14:25:02# 128. lþ. 34.4 fundur 362. mál: #A könnun á læsi fullorðinna# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 128. lþ.

[14:25]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Menntmrn. skipaði starfshóp þann 8. mars 2002. Verkefni starfshópsins var eftirfarandi:

1. Að benda á leiðir til þess að ná til fullorðins fólks sem á við lestrar- og skriftarörðugleika að etja.

2. Að gera áætlun um hvernig koma megi þessum aðilum til aðstoðar við að vinna bug á ólæsinu.

3. Að skilgreina hvaða aðilar það eru sem koma þurfa að þessu átaki.

4. Að meta kostnað við átak gegn ólæsi fullorðinna.

Starfshópur þessi skilaði skýrslu ásamt tillögum til ráðherra þann 31. október sl. og tillögurnar eru nú til athugunar innan ráðuneytisins.

Í raun og veru er þessi tilhögun mála byggð á þeirri sannfæringu að hér á landi sé mjög svipað ástatt og annars staðar, þ.e. að álíka stór hópur Íslendinga eigi við læsisvanda að etja. Það má gera ráð fyrir því, m.a. með tilliti til svonefndrar Pisa-könnunar þar sem læsi er skipt niður í sex mismunandi þrep ef ég man rétt, að 8% landsmanna, þ.e. rúmlega 15.000 Íslendingar á aldrinum 15--65 ára, eigi við mjög mikla eða umtalsverða lestrarörðugleika að stríða.

Í þessari skýrslu, sem nú er til athugunar innan ráðuneytisins, er gert ráð fyrir því að þetta eigi við um Íslendinga einnig og í skýrslunni er gert ráð fyrir því að lítil lestrarfærni hái nálægt 35.000 einstaklingum á aldrinum 15--65 ára.

Nokkuð alþjóðlegar niðurstöður eru í þeim rannsóknum sem eru lagðar til grundvallar í starfi þess starfshóps sem nýlega skilaði tillögum sínum sem, eins og ég tók fram áður, eru til athugunar í ráðuneytinu.