Kostnaður af heilsugæslu

Miðvikudaginn 20. nóvember 2002, kl. 14:44:35 (1666)

2002-11-20 14:44:35# 128. lþ. 34.6 fundur 329. mál: #A kostnaður af heilsugæslu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 128. lþ.

[14:44]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Í lögum um heilbrigðisþjónustu segir að allir landsmenn skuli eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita. Heilsugæslan er mikilvægasti hlekkur heilbrigðisþjónustunnar og gegnir fjölþættu hlutverki. Hvað sem líður öllu valfrelsi í heilbrigðisþjónustunni er ljóst að heilsugæslan er og verður sá hornsteinn sem gott heilbrigðiskerfi hvílir á. Það er sú persónulega nærþjónusta sem hver einstaklingur vill hafa og því var á sínum tíma lögð áhersla á að skipta landinu upp í heilsugæslusvæði til að tryggja þessa nærþjónustu.

Síðustu þrjár vikur hefur heilsugæslan á Suðurnesjum verið án starfandi lækna nema þá í bráðatilfellum. Á svæði sem telur um 16 þúsund íbúa segir sig sjálft að daglegar komur til læknis á heilsugæslustöð eru býsna margar. Það er því algerlega óviðunandi ástand að ekki sé fullnægjandi heilsugæsluþjónusta á svæðinu. Verst bitnar þetta auðvitað á þeim sjúklingum sem þurfa á reglubundinni læknishjálp að halda og búa við erfiða langvarandi sjúkdóma en einnig á barnafjölskyldum sem þurfa oft að leita til heilsugæslunnar. Íbúar á Reykjanesi þurfa nú að sækja þessa þjónustu langt frá heimabyggð sem veldur óþægindum en hefur einnig aukakostnað í för með sér, fyrir utan það sem skiptir ekki hvað minnstu máli að hið persónulega samband sem myndast milli heimaheilsugæslulæknis og sjúklings er ekki til staðar.

Helga Valdimarsdóttir, ein þeirra sem býr við langvarandi erfið veikindi, hefur mótmælt þessu ástandi með setuverkfalli á heilsugæslustöðinni sinni. Hún þarf að fara til læknis síns tvisvar til fjórum sinnum í mánuði. Hún hefur ítrekað rétt sinn á þjónustu í heimabyggð og bent á að sá aukakostnaður sem hlýst af því að sækja þjónustuna annað sé þungur baggi fyrir fjárhag öryrkja. Opinberir starfsmenn sem ferðast á eigin bíl vegna vinnu fá greiddar 53 kr. á hvern kílómetra. Ef miðað er við sömu greiðslur til þeirra sjúklinga sem sækja heilsugæslu frá Reykjanesi í Kópavog eða Reykjavík þá ætti að greiða þeim um 5 þús. kr. fyrir hverja ferð. Þetta er réttlát krafa þar sem íbúar þessa svæðis eru sviptir sjálfsagðri heilbrigðisþjónustu í heimabyggð vegna deilna sem þeir eiga enga aðild að. Það verður að taka sérstakt tillit til aðstæðna þessara íbúa, ekki síst þegar um er að ræða þá sem hafa lágar tekjur, þ.e. aldraðra og öryrkja en einnig barnafjölskyldna. Ég beini því eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. heilbr.- og trmrh.:

Mun ráðherra beita sér fyrir því að íbúar á heilsugæslusvæðum þar sem heimilislæknar eru eða verða ekki að störfum fái endurgreiddan þann aukakostnað, þar með talinn ferðakostnað, sem það hefur í för með sér að sækja þjónustuna annað? Ef ekki, hvernig hyggst ráðherra bæta þá mismunun sem íbúar þessara svæða búa við hvað varðar erfiðara aðgengi og aukinn kostnað þeirra sem þurfa á læknishjálp að halda?