Kostnaður af heilsugæslu

Miðvikudaginn 20. nóvember 2002, kl. 14:49:29 (1668)

2002-11-20 14:49:29# 128. lþ. 34.6 fundur 329. mál: #A kostnaður af heilsugæslu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 128. lþ.

[14:49]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin en vil benda á að þessi deila um réttindi og kjör heilsugæslulækna hefur staðið í þrjár vikur. Á þessum þremur vikum er mér kunnugt um t.d. eina fjölskyldu sem hefur þurft að fara fjórar ferðir í Kópavog og til Reykjavíkur til þess að sækja heilsugæsluþjónustu. Kostnaður vegna þessa er ómældur og ekki síst kemur hann niður á þeim sem eru með börn sem þurfa á læknisþjónustu að halda eða öldruðum og öryrkjum sem eru kannski stærsti hópurinn sem þarf reglubundna þjónustu heilsugæslulæknis. Það er því alveg ljóst að stór hluti íbúanna á þessu svæði sem þarf á reglubundinni læknisaðstoð að halda hefur nú þegar borið verulegan kostnað vegna ástandsins.

Ég beini því nú til hæstv. ráðherra að hvort sem um er að ræða reglugerðarbreytingu eða annað taki hann tillit til þess að þarna hefur verið læknislaust í þrjár vikur núna og þó að einn heilsugæslulæknir hafi verið ráðinn til starfa leysir það ekki vandann. Það kom mjög skýrt fram á þessum borgarafundi sem hæstv. ráðherra mætti á í Reykjanesbæ að einn heilsugæslulæknir leysir ekki vandann. Það er skref í rétta átt en samt sem áður er vandinn til staðar og það sér ekki enn, því miður, fyrir endann á deilunni sem snýst fyrst og fremst um réttindi heilsugæslulækna. Í fyrirspurninni er ég eingöngu að ræða um réttindi þeirra sjúklinga sem hlut eiga að máli, um jafnan rétt þeirra til heilsugæsluþjónustu og að þeir þurfi ekki að greiða fyrir hana mun hærra verð en aðrir íbúar þessa lands. Ég beini því enn og aftur til hæstv. ráðherra að hann svari fyrirspurninni: Mun hann beita sér fyrir því að þessi aukakostnaður verði greiddur?