Heilsugæsla í Kópavogi

Miðvikudaginn 20. nóvember 2002, kl. 14:55:11 (1671)

2002-11-20 14:55:11# 128. lþ. 34.7 fundur 342. mál: #A heilsugæsla í Kópavogi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 128. lþ.

[14:55]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykn., Gunnar Birgisson, beinir til mín spurningum er varða heilsugæslu í Kópavogi. Spurt er: ,,Hve margir heilsugæslulæknar eru starfandi í Kópavogi?``

Því er til að svara að hjá heilsugæslunni í Fannborg starfa fimm fastráðnir læknar og auk þess starfar einn læknir tímabundið í 40% starfshlutfalli. Alls eru þetta því 5,4 stöðugildi lækna. Í heilsugæslunni í Hvammi starfa fimm fastráðnir heilsugæslulæknar, auk þess er þar einn læknir í afleysingastöðu og einn kandídat fram að áramótum. Alls eru það því sex stöðugildi lækna ásamt einum kandídat.

Eins og fram kom hefur verið tekið á leigu 900 fermetra húsnæði undir starfsemi nýrrar heilsugæslustöðvar í Kópavogi á Salavegi 2. Það var ákveðið að bjóða rekstur stöðvarinnar út og er undirbúningur útboðslýsingarinnar á lokastigi. Þjónustusvæði heilsugæslustöðvarinnar nær til Linda- og Salahverfis ásamt Vatnsendahverfum en um 4.200 manns búa á svæðinu í dag. Auk áðurnefndra hverfa er gert ráð fyrir að til heilsugæslustöðvarinnar leiti fólk sem búsett er í nágrannabyggðum hennar.

Þess er vænst að stöðin geti tekið til starfa í vor eða snemma sumars. Stærð húsnæðisins er miðuð við að þar geti starfað sex læknar en í upphafi verði þeir tveir til þrír. Auk lækna mundu hjúkrunarfræðingar og annað starfsfólk starfa við heilsugæslustöðina þannig að íbúum á fullbyggðu þjónustusvæði stöðvarinnar verði veitt fullnægjandi heilsugæsluþjónusta.

Hv. þm. spyr að síðustu hvort áform séu um að endurnýja núverandi heilsugæslustöð í Fannborg á næstunni. Því er til að svara að heilsugæslan hefur óskað eftir því að tekið verði á leigu nýtt húsnæði fyrir heilsugæslustöðina í Fannborg. Ljóst er að nauðsynlegt er að endurnýja húsnæði stöðvarinnar en það er að mörgu leyti ekki heppilegt fyrir starfsemina. Þetta mál er til umfjöllunar í ráðuneytinu þó að ákvarðanir hafi enn ekki verið teknar um hvort þessi leið verði farin og málið leyst þannig. Ýmsar hugmyndir hafa verið kynntar í ráðuneytinu og það virðist ekki skortur á góðu húsnæði á svæðinu.

Herra forseti. Mjög mikil uppbygging hefur átt sér stað undanfarin ár í heilsugæslunni í Kópavogi þar sem tvær nýjar og glæsilegar stöðvar hafa komið í gagnið á fáum árum. Þó er enn eftir að leysa húsnæðisvanda heilsugæslunnar í Fannborg og það hefur ekki verið ágreiningur um að ljúka sem fyrst framkvæmdum í Salahverfinu. Fannborg er því næsta viðfangsefni þar og ég treysti því að það mál leysist farsællega.