Heilsugæsla í Kópavogi

Miðvikudaginn 20. nóvember 2002, kl. 15:01:07 (1674)

2002-11-20 15:01:07# 128. lþ. 34.7 fundur 342. mál: #A heilsugæsla í Kópavogi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 128. lþ.

[15:01]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég endurtek að við stefnum að því að útboð stöðvarinnar fari af stað eins fljótt og auðið er og það er á lokastigi. Útboðið sem slíkt er þáttur í því að fjölga úrræðum í heilsugæslunni, fjölga rekstrarformum, gefa læknum tækifæri til að vinna undir öðrum formerkjum en vera ríkisstarfsmenn eins og oft hefur komið fram í þessari umræðu sem hefur verið um heimilislækningarnar.

Það er rétt að viðmiðunin um komur til læknis er um 1.500. Það er nú svona heldur í lægri mörkunum að vísu. En ég er þar með ekki að segja að skortur sé á læknum í Kópavogi, enda höfum við tekið það svæði í forgang um úrbætur. Fleiri bíða eftir úrbótum í þessum málum og uppbyggingu heilsugæslustöðva.

Auðvitað þurfum við að leysa deiluna við heimilislækna. Það er mjög bagalegt að sú deila skuli standa því þetta er mikilvæg þjónusta. Við þurfum nýliðun í þessari stétt. Ég hef trú á því og veit það reyndar að læknar vilja vinna í þessari grein lækninga. Ég er því vongóður um að okkur takist að leysa þessi mál þannig að við getum undirbyggt þessa nauðsynlegu þjónustu í Kópavogi og annars staðar.