Fjáraukalög 2002

Þriðjudaginn 26. nóvember 2002, kl. 13:53:48 (1692)

2002-11-26 13:53:48# 128. lþ. 36.1 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 128. lþ.

[13:53]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir ítarlega og greinargóða ræðu þar sem hann gerði okkur grein fyrir því hver staða mála væri, og gerði það með allt öðrum hætti en framsögumaður meiri hlutans sem kom, að minni hyggju, fram við þingheim af algjörum dónaskap. Og ég vildi spyrja ...

(Forseti (HBl): Ég vil vekja athygli hv. þingmanns á að hann kvaddi sér hljóðs til að veita andsvar við ræðu hv. þm.)

Herra forseti. Undirritaður er að því, ef hann fær tækifæri til þess. Mig langaði þess vegna í beinu framhaldi til að spyrja hv. þm. Einar Má Sigurðarson hvort hann meti það svo --- hann gat þess í ræðu sinni að fjölmargt væri óafgreitt milli 2. og 3. umr. --- að skýringin geti verið sú að talsmenn meiri hlutans á hinu háa Alþingi hafi ekki tiltæk svör á þessari stundu og það sé jafnframt skýringin á því að engin ræða var haldin þegar gerð var hér grein fyrir ...

(Forseti (HBl): Ég vil minna hv. þingmann á að hann kvaddi sér hljóðs til að veita andsvar við ræðu hv. þingmanns, og ég hygg að hv. þingmaður þekki þingsköp.)

Það er nákvæmlega það sem undirritaður er að gera, fái hann til þess frið. Ég vil árétta spurningu mína til hv. þingmanns um hvort túlka beri ummæli hans á þann veg að svo margt sé óafgreitt milli 2. og 3. umr. að það skýri þögn meiri hlutans við þessa umræðu.

Ég hef lokið máli mínu, hæstv. forseti.