Fjáraukalög 2002

Þriðjudaginn 26. nóvember 2002, kl. 13:55:44 (1693)

2002-11-26 13:55:44# 128. lþ. 36.1 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., Frsm. 1. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 128. lþ.

[13:55]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Herra forseti. Mér er ljúft og skylt að svara andsvari hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar. Ég held að það sé augljóst mál að framsaga hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar, formanns fjárln., beri það að sjálfsögðu með sér að einhver er vandi meiri hlutans við þessa umræðu. Ég tel að hann sé margvíslegur. Hann er í fyrsta lagi sá að ekkert hefur áunnist í því að bæta vinnubrögðin við fjáraukalögin eins og ég benti á í ræðu minni. Í öðru lagi er gert upp á milli stofnana í þeirri leið sem meiri hlutinn velur í því að taka á uppsöfnuðum vanda. Ég get nefnt það sem dæmi að verið er að taka á uppsöfnuðum vanda Landspítala -- háskólasjúkrahúss á meðan Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri er látið algjörlega liggja á milli hluta. Það er ekki snert við margvíslegum vanda framhaldsskólanna þrátt fyrir að við blasi og fyrir liggi upplýsingar um þann vanda og því ekkert því til fyrirtöðu að taka á honum.

Mér sýnist það því vera augljóst mál, hv. þingmaður, að ansi margt bíður vinnu í fjárln. á milli 2. og 3. umr. Auðvitað er alveg spurning hvort það plagg sem hér liggur fyrir sé þingtækt og ég tel að framsaga formanns fjárln. hafi borið keim af þeirri staðreynd.