Fjáraukalög 2002

Þriðjudaginn 26. nóvember 2002, kl. 13:58:55 (1697)

2002-11-26 13:58:55# 128. lþ. 36.1 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., Frsm. 1. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 128. lþ.

[13:58]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Herra forseti. Ég lauk ekki alveg svörum mínum í fyrra andsvari við fyrirspurnum hv. þingmanns. Ég sagði að það væri augljóslega ansi margt í þessu fjárauakalagafrv. sem ætti hreinlega ekki heima í því og vildi leyfa mér, með leyfi forseta, að nefna örfá dæmi þar um til frekari útskýringar.

Hér er í fyrsta lagi þáttur sem snýr að æðstu stjórn ríkisins sem ég held að allt í lagi sé að benda örlítið á af þeirri einföldu ástæðu að þegar meiri hluti fjárln. afgreiddi fjárlagafrv. frá sér í fyrra, fyrir þetta ár, var m.a. dregið úr þeim fjárhæðum sem settar voru í byggingu Skálans hér við Alþingishúsið. Nú eru þessar upphæðir komnar aftur inn í fjáraukalagafrv. Það er alveg augljóst mál að þetta var ekki ófyrirséð. Það var einmitt fyrirséð þegar við afgreiddum fjárlög hér í fyrra hvað þetta mundi kosta. Þessar upphæðir eiga alls ekki heima í fjáraukalögum.

[14:00]

Það er hægt að halda áfram. Við getum farið til forsrn. og velt því fyrir okkur hvernig á því standi, (Forseti hringir.) því ekki höfum við fengið á því skýringar, herra forseti, að það er verið að greiða fjölmennu fylgdarliði forsætisráðherra ... (Forseti hringir.) Herra forseti. Má ég ekki svara hv. þm.?

(Forseti (HBl): Ég vil vekja athygli hv. þm. á 2. mgr. 56. gr. þingskapa:

,,Forseti getur leyft þingmönnum að veita stutt andsvar við einstökum ræðum strax og þær hafa verið fluttar. Skal þá sá er vill svara bera fram ósk um það við forseta. Andsvari má einungis beina að máli ræðumanns en ekki öðru andsvari. Hvert andsvar má ekki taka lengri tíma en tvær mínútur og skal ræðumanni heimilt að svara því á tveimur mínútum. ...``

Hér er talað um andsvör en ekki að menn taki upp ný efnisatriði sem ekki hafa áður komið til. Mig rekur ekki minni til að hv. þingmenn hafi áður reynt að nota andsvör til tvítals af þessu tagi. Ég vil biðja hv. þm. að veita andsvar við ræðu hv. þm.)

Herra forseti. Það er einmitt það sem ég er að gera. Ég er að leggja frekari áherslu á nokkur ákvæði í ræðu minni sem hv. þm. var að spyrja mig út úr. Ég er bara að fylla upp í þau svör sem ég var ekki búinn að ljúka í fyrra andsvari mínu. (Gripið fram í.) Ég tel því að ég sé algjörlega að svara og að svör mín falli algerlega að þingsköpum, herra forseti. Þess vegna vil ég halda áfram þar sem frá var horfið.

Ég var að nefna það að forsrn. er hér að sækja um fjármuni til þess að greiða uppihaldskostnað vegna fjölmenns fylgdarliðs forsætisráðherra Víetnams sem hingað kom í heimsókn. Ég spyr og velti því fyrir mér hvernig á því standi að ekki er hægt að gera áætlanir um þessar heimsóknir. Er það þannig að svo háttvirtir gestir vorir komi hingað bara ofan úr skýjunum án þess að nokkur maður viti af?

Eitt dæmi er til viðbótar, herra forseti, og ég mun enda á því. Það er fjárveiting til Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi sem verið er að sækja hér um vegna sýningar sem búið er að setja upp í Þjóðmenningarhúsi. Rétt er að vekja athygli á því að þetta ákvæði er í fjárlagafrv. næsta árs. En nú er talin ástæða til þess að færa þetta yfir í fjáraukalög af þeirri einföldu ástæðu að búið er að opna sýninguna. Ég spyr, herra forseti: Hvaða vinnubrögð eru þetta? Hvar eru ákvarðanir teknar og hvenær eru þær teknar? Hví eru þær ekki í samræmi við fjárlög viðkomandi árs?