Fjáraukalög 2002

Þriðjudaginn 26. nóvember 2002, kl. 14:05:04 (1700)

2002-11-26 14:05:04# 128. lþ. 36.1 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., Frsm. 2. minni hluta JB
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 128. lþ.

[14:05]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. 2. minni hluta fjárln. um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2002. Áður en ég vík beint að nál., herra forseti, er óhjákvæmilegt annað en víkja að ræðu og frammistöðu hv. formanns fjárln. þegar hann mælti fyrir brtt. meiri hluta fjárln., fulltrúa ríkisvaldsins, meiri hlutans á Alþingi, þar sem mælt var fyrir viðbót á fjáraukalögum upp á 3,2 milljarða kr. Ræða hv. formanns fjárln. og ítarlegar skýringar hans, ef skýringar skyldi kalla, tóku einungis um tvær mínútur eða, virðulegi forseti, hv. formaður fjárln. mælti fyrir 1,5 milljörðum á mínútu. Það voru 1,5 milljarðar á mínútu hjá hv. (Gripið fram í.) formanni fjárln. og ég tók eftir því, virðulegi forseti, að honum meira að segja svelgdist ekki einu sinni á. (Gripið fram í: Ertu ekki feginn?) (Gripið fram í: Fáir gert betur.) Það er svo sem gott að vera röggsamur þegar manni er trúað til þess.

Hv. formanni fjárln. er líka falið að stýra verki og vinnu fjárln. Til fjárln. koma mörg erindi sem lúta að fjáraukalögum. Farið er yfir fjáraukalagafrv. ríkisstjórnarinnar. Aðilar eru kallaðir til bæði frá ráðuneytum og einstökum stofnunum til þess að skýra þau mál sem þar eru borin fram og þau mál líka sem síðan ekki hljóta náð hjá meiri hluta fjárln. Því verður, herra forseti, ekki komist hjá því að nefna það að hv. formaður fjárln., Ólafur Örn Haraldsson, sýndi ekki starfi fjárln. og þeim mörgu aðilum sem komið hafa og rekið mál sín fyrir nefndinni, meiri virðingu en svo að geta þess að engu í framsögu sinni í hverju þessar breytingar væru fólgnar og hvaða rök lágu að baki þeim ákvörðunum sem þar eru lagðar til og sömuleiðis hvers vegna ýmis önnur erindi og brýn fengu ekki afgreiðslu.

Herra forseti. Ég tel að þessi frammistaða formanns fjárln. sé nefndinni og trúnaðarstarfi hans þar ekki til sóma, þ.e. að gera ekki grein fyrir erindunum betur. Hitt má vera að formaðurinn hafi valið að vera stuttorður því að auðvitað er fjárlagasýsla ríkisins fjarri því að vera í viðunandi lagi. Nú við 2. umr. fjáraukalaga erum við að leggja til hækkun upp á samtals 11 milljarða kr. sem að stærstum hluta fer til verkefna sem voru jú brýn, voru fyrirsjáanleg en hefðu undir öllu venjulegu vinnulagi og ábyrgð átt að vera á fjárlögum þessa árs, hefðu átt að koma inn á fjárlög ársins þegar við afgreiddum þau fyrir ári síðan. En þá var valið að fresta því. Öllum var ljóst að þarna þurfti að hækka ákveðna liði, herra forseti. En meiri hluti fjárln. og ríkisvaldið ákvað að fresta þeim og reyna heldur að draga þau í land í fjáraukalögum.

Herra forseti. Ég tel því að ég þurfi að fara svolítið ítarlega í þær breytingar sem hér er verið að leggja til á fjáraukalögum til þess að bæta nokkuð úr bágri framsögu hv. formanns fjárln.

Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2002 er lagt til að útgjöld ríkissjóðs verði aukin um tæpa 7,3 milljarða kr. Enn fremur hafa komið fram tillögur frá ríkisstjórn og meiri hluta fjárlaganefndar við 2. umræðu um að auka útgjöldin um rúma 3,2 milljarða kr. Samtals liggja því fyrir tillögur í fjáraukalögum um 10,5 milljarða kr.

Vert er að vekja athygli á því að í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, segir í 41. gr. að ekkert gjald megi greiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum. Í lögum um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, segir í 43. gr. að ef þörf krefji skuli í frumvarpi til fjáraukalaga leitað eftir heimildum til frekari fjárráðstafana en fjárlög ársins gera ráð fyrir. Engin skilyrðislaus skylda hvílir á ríkisstjórn að leggja fjáraukalagafrumvarp fyrir hvert reglulegt þing heldur fer það eftir nauðsyn á aukafjárveitingum hverju sinni. Í reynd er aukafjárveitinga þörf á hverju ári enda getur ýmislegt breyst í tekjuöflun eða útgjöldum ríkisins og stofnana þess á heilu ári. En hvenær er heimilt að greiða úr ríkissjóði án heimildar í fjárlögum? Um það er kveðið á í 44. gr. laga um fjárreiður ríkisins. Þar segir að valdi ófyrirséð atvik, kjarasamningar eða ný löggjöf, því að grípa þurfi til sérstakra fjárráðstafana sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum ársins skuli leitað heimilda fyrir þeim í frumvarpi til fjáraukalaga.

Megnið af þeim fjárútlátum sem fjáraukalagafrumvarpið kveður á og við fjöllum um hér í dag voru fyrirsjáanleg við gerð fjárlaga fyrir ári og þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs bentu á það við fjárlagaumræðuna. Þetta á við t.d. um fjárvöntun heilbrigðiskerfisins og öldrunarstofnananna, skuld Tækniskólans og fjárvöntun í framhaldsskólakerfinu. Allt þetta lá fyrir við afgreiðslu fjárlaga sl. árs í desember fyrir tæpu ári síðan.

Sum þeirra verkefna sem veitt er fjármagn til í þessu frumvarpi ættu jafnvel frekar heima í næstu fjárlögum ef þau eru réttlætanleg á annað borð. Sem dæmi má nefna tillögu um 18 millj. kr. til iðnaðarráðuneytisins vegna innleiðingar nýrra raforkulaga og breytts fyrirkomulags í raforkumálum af þeirra sökum. Ég vil vekja athygli virðulegs forseta á því að frv. um þessi raforkulög hefur ekki enn komið fram á haustþinginu hvað þá að það hafi verið samþykkt. En samt erum við að samþykkja á fjáraukalögum fjármagn til framkvæmda vegna þessara laga.

Í því frumvarpi til fjáraukalaga sem hér liggur fyrir er í langflestum tilvikum um að ræða útgjöld sem hafa þegar verið innt af hendi eða framkvæmdarvaldið hefur skuldbundið sig til að greiða. Það er því nánast formsatriði hjá Alþingi að afgreiða aukin útgjöld í fjáraukalögum. Það vinnulag að stofna til útgjalda fyrst og leita svo heimilda eftir á gengur þvert á anda laganna um fjárreiður ríkisins, enda oftast um að ræða útgjöld sem í raun á ekki að afgreiða í fjáraukalögum þar sem ekki er um að ræða ófyrirséð atvik, kjarasamninga eða nýja löggjöf sem hefur kostnað í för með sér eins og kveðið er á um í fjárreiðulögum.

Til þess að bæta úr þessu vinnulagi og tryggja að farið sé að lögum lagði undirritaður fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjárreiður ríkisins sem kveður á um að þegar svo ber undir skuli fjármálaráðherra leggja fram frumvarp til fjáraukalaga fyrir Alþingi. Það skuli gerast að vori og aftur að hausti. Þingið samþykkir lög fyrri hluta árs sem geta haft í för með sér fjárskuldbindingar innan sama árs sem þarf að taka afstöðu til. Ýmsar forsendur geta einnig breyst eins og dæmin sanna. Bregðast þarf við þeim. Það hlýtur því að liggja beint við að fjárlaganefnd taki þau mál til meðferðar og leggi fram fjáraukalagafrumvarp sem verði afgreitt fyrir þinglok að vori. Önnur fjáraukalög geta verið afgreidd í byrjun október og síðan koma lokafjárlög. Með þessum hætti, virðulegi forseti, getur Alþingi fylgt eftir ábyrgð sinni, stýrt útgjöldum og brugðist við breyttum forsendum. Þannig yrði einnig komið í veg fyrir að efnt sé til útgjalda án heimildar Alþingis nema í algjörum undantekningar- og neyðartilvikum eins og lög um fjárreiður ríkisins kveða á um.

[14:15]

Fjárlaganefnd er kunnugt um fjárhagsvanda margra stofnana sem þó fá ekki úrlausn sinna mála samkvæmt þessu frumvarpi. Sérstaklega má þar nefna marga framhaldsskóla sem sitja uppi með skuldir frá fyrri árum og eiga í miklum fjárhagserfiðleikum. Ljóst er að framkvæmdarvaldið hefur verið uppteknara við að einkavæða skólakerfið og fella rekstur framhaldsskólanna inn í miðstýrð reiknilíkön en að efla og þróa skólastarfið sjálft, ákvarða stöðu þess og markmið og þá menntun sem skólarnir eiga að veita. Skólastjórnendur og Félag framhaldsskólakennara hafa bent á grundvallarskekkjur í þeirri reiknireglu sem beitt er við skiptingu fjármagns á skólana og birtist í því að fjármagn er skert sérstaklega til skóla með verknáms- og starfsnámsbrautir og skóla sem reka heimavistir. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð bendir á að fjárhagsvanda einstakra framhaldsskóla verður að leysa þegar í stað.

Ríkisútvarpið hefur á undanförnum árum átt við mikinn fjárhagsvanda að stríða og má rekja þann vanda að talsverðum hluta til þess að stjórnarflokkarnir hafa þráast við að veita stofnuninni heimild til hækkunar afnotagjalda í takt við þróun verðlags og launa í landinu. Jafnframt hefur stofnuninni verið gert að taka á sig umtalsverðan kostnað vegna lífeyrisskuldbindinga auk þess sem kostnaður við rekstur Sinfóníuhljómsveitar Íslands hefur aukist mjög á síðustu árum.

Í upphafi þessa árs fékk Ríkisútvarpið loks heimild fyrir 7% hækkun afnotagjalda sem hefði dregið verulega úr viðvarandi taprekstri. Heimildin var þó dregin til baka aðeins mánuði síðar gegn loforði um að stofnuninni yrði bætt tapið og er það gert með 140 millj. kr. framlagi í þessu frumvarpi. Ljóst er að það dugir engan veginn til að leysa fjárhagsvanda Ríkisútvarpsins sem að óbreyttu mun leiða til þess að eigið fé stofnunarinnar verður uppurið innan örfárra ára. 2. minni hluti telur óhjákvæmilegt að taka á fjárhagsvanda Ríkisútvarpsins með markvissum hætti á næstu árum. Ríkisútvarpið er ein mikilvægasta menningarstofnun þjóðarinnar og er ekki sæmandi að kreppa svo að henni fjárhagslega að hún geti ekki sómasamlega gegnt hlutverki sínu. Vandi Ríkisútvarpsins er augljós, ástæður hans liggja fyrir, en stjórnarflokkana skortir vilja til að leysa vandann.

Virðulegi forseti. Nefna má fleiri dæmi, fleiri stofnanir sem fá ekki lausn sinna mála. Náttúrufræðistofnun Íslands er dæmi um stofnun sem hefur fengið aukin lögbundin verkefni án þess að komi til aukin fjárveiting. Má þar nefna rannsóknarvinnu vegna rammaáætlunar um vatnsaflsvirkjanir og framkvæmd náttúruverndaráætlunar. Í minnisblaði sem stofnunin sendi fjárlaganefnd kemur m.a. eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

,,Náttúrufræðistofnun Íslands á við fjárhagsvanda að glíma á þessu ári. Nú blasir við að heildarrekstrargjöld stofnunarinnar verði um 310 millj. kr. árið 2002 ... og tekjur ... um 290 millj. kr. ... Á árabilinu 1999--2001 var um 30 millj. kr. halla (uppsafnaður árin 1997/98) náð niður með ýmiss konar aðhalds- og hagræðingaraðgerðum og auknum sértekjum. Nú stefnir hins vegar í að stofnunin verði með 15--20 millj. kr. halla um næstu áramót verði ekki gripið til einhverra ráðstafana.

Framlag ríkissjóðs til Náttúrufræðistofnunar var nær óbreytt að raungildi á milli áranna 2001 og 2002 og ekki fékkst nein viðbót til að mæta margvíslegum uppsöfnuðum vanda vegna lögboðinna verkefna. Aðhaldi og ýmiss konar hagræðingu var beitt á árinu 2002 til að mæta þeirri kostnaðaraukningu sem óhjákvæmilega fylgdi verðlagshækkunum og kjarasamningum við starfsfólk sem höfðu í för með sér nokkra hækkun á launakostnaði.``

Í minnisblaðinu eru enn fremur raktar helstu ástæður fyrir þeim halla sem við blasir. Ljóst er að hvorki í þessu frumvarpi né í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2003 er tekið á þessum vanda Náttúrufræðistofnunar. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð telur þetta dæmi um léleg vinnubrögð af hálfu ríkisstjórnarinnar. Sífellt fleiri verkefnum er hlaðið á stofnunina án þess að fjárframlög komi á móti. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð telur þetta dæmigert fyrir þann litla áhuga sem ríkisstjórnin hefur á umhverfismálum.

Fjárhagsvandi heilbrigðiskerfisins er mikill. Í lok árs 2001 var rekstur 22 heilbrigðisstofnana umfram fjárheimildir og var samanlagður vandi þeirra um 1,6 milljarðar kr. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings kemur enn fremur fram að rekstrarhalli Landspítala -- háskólasjúkrahúss hafi verið 858 millj. kr. en samkvæmt frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2002 og tillögum ríkisstjórnarinnar til fjárlaganefndar við 2. umr. fjáraukalaga nemur fjárhagsvandi hans um 2,3 milljörðum kr.

Herra forseti. Þessar upphæðir eru nú bættar hér í fjáraukalögum. En það vekur furðu í þeim vinnubrögðum að einungis skuli tekið á fjárhagsvanda Landspítala -- háskólasjúkrahúss. Ekki er t.d. tekið á fjárhagsvanda Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri og fjölmargra annarra sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana sem líka eru með verulegan halla frá fyrri árum og auk þess með erfiðan rekstur á þessu ári. Það hefði verið eðlilegt ef hv. formaður fjárln. hefði gert grein fyrir því í framsögu sinni hér hvers vegna meiri hlutinn valdi að taka einungis eina heilbrigðisstofnun út, Landspítala -- háskólasjúkrahús, og greiða þar úr uppsöfnuðum fjárhagsvanda þeirrar stofnunar en láta aðrar stofnanir gjörsamlega lönd og leið. Vera má, herra forseti, að ætlunin sé að taka þetta mál inn milli 2. og 3. umr. og að sjálfsögðu mun ég sem á sæti í fjárln. beita mér fyrir því að svo verði. En ég held, virðulegi forseti, að hv. formaður fjárln. verði að koma með skýringu á því hvers vegna verið sé við 2. umr. fjáraukalaga að mismuna með þessum hætti heilbrigðisstofnunum í landinu sem flestallar búa við fjárhagsvanda, mismikinn. En hver sem hann er, ef hann er fyrir hendi, þá er hann til trafala og veldur erfiðleikum fyrir rekstur og viðfangsefni þessara stofnana.

Það er nú svo, herra forseti, að hinar opinberu heilbrigðisstofnanir verða eðlilega að halda kostnaði innan fjárlagaramma síns. Þegar rekstrarkostnaður eykst er eina ráðið sem þær hafa að vísa verkefnunum út af heilsugæslustöðvunum og sjúkrahúsunum. Þar taka við sérfræðingar á einkareknum stofum sem geta sent reikninga sína nánast sjálfvirkt á Tryggingastofnun. Þannig byggist upp tvöfalt heilbrigðiskerfi um sömu grunnþættina sem gerir þróun heilbrigðiskerfisins handahófskennda og ómarkvissa og veldur því að kostnaðarhlutdeild sjúklinganna hækkar.

Af framangreindu má ljóst vera að bregðast þarf hart við og leiðrétta þarf stefnuna í þróun heilbrigðismála. Meðal brýnustu verkefna er að auka hjúkrun í heimahúsum og fjölga hjúkrunarrýmum og þjónustuúrræðum til að hjúkrunarsjúklingar þurfi ekki að liggja inni á dýrum bráðasjúkrahúsum. Snúa þarf einkavæðingunni í heilbrigðisþjónustunni til baka, gera mörk opinberrar heilbrigðisþjónustu skýr og fylgja markaðri stefnu út í hörgul. Það má ekki gerast hér að rekið verði tvöfalt heilbrigðiskerfi, annars vegar fyrir ríka en hins vegar fyrir fátæka.

Ef litið er á stöðu byggðamála í þessari umræðu til fjáraukalaga verður að lýsa vonbrigðum með hana. Það er ætlan ríkisstjórnarinnar að 200 millj. kr. framlag vegna þátttöku í eignarhaldsfélögum á landsbyggðinni verði millifært yfir á byggðaáætlun. Ljóst er af þessum aðgerðum að stjórnvöld hafa gefist upp á að koma að stofnun eignarhaldsfélaga á landsbyggðinni. Þær reglur sem gilda um stofnun eignarhaldsfélaga hafa líka verið þannig að erfitt hefur verið fyrir heimamenn að uppfylla þær kröfur sem þar voru settar. Sérstaklega á það við um sveitarfélög og einstaklinga sem ekki standa vel fjárhagslega. Nær hefði verið að breyta reglunum og haga framkvæmdinni þannig að þetta framlag kæmi að raunverulegum notum milliliðalaust til atvinnusköpunar heldur en að gefast svona fullkomlega upp og fella fjárveitinguna niður og inn í almenna starfsemi Byggðastofnunar.

Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs fluttu breytingartillögur við bæði tekju- og gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2002 þegar það var til umræðu og meðferðar í þinginu fyrir tæpu ári síðan. Þær tillögur miðuðu að auknum jöfnuði í samfélaginu, eflingu atvinnulífs og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlindanna til lands og sjávar. Því miður náðu þessar tillögur ekki fram að ganga og því fer sem fer.

Á undanförnum árum hefur ríkisstjórnin blásið upp ,,góðæri`` með einkavæðingu þjónustustofnana, skertri almannaþjónustu, miklum viðskiptahalla og skuldasöfnun erlendis. Mikil byggðaröskun, stöðugir fólksflutningar á höfuðborgarsvæðið og sá mikli viðskiptahalli sem við höfum búið við síðustu ár hlaut að leiða til þess að viðskipta- og þjónustugeirinn, einkum á suðvesturhorninu, þendist út á mjög veikum grunni. Þjóðarframleiðslan hefur nánast staðið í stað þrátt fyrir svokallað góðæri. Í skjóli rangrar efnahagsstefnu stjórnvalda hefur á undanförnum árum þróast hagkerfi, efnahags- og atvinnulíf sem hefur nærst á viðskiptahallanum og orðið háð honum. Nú þegar jöfnuður kemst á erlend viðskipti án þess að útflutningur aukist sem því nemur hlýtur það að valda samdrætti í þeim atvinnugreinum sem nærðust á viðskiptahallanum. Í stað þess að styrkja innviði atvinnulífsins, byggð og búsetu í landinu öllu hefur ranglát fiskveiðistjórn, tillitslaus krafa um hagræðingu, háar arðsemiskröfur fjármagnseigenda og ofurtrú á hagkvæmni stærðarinnar villt stjórnvöldum sýn og leitt atvinnulífið inn á villigötur sem þjóðin öll sýpur nú seyðið af.

Hér verður að breyta um stefnu. Stöðva þarf einkavæðingu almannaþjónustunnar. Búa þarf atvinnulífinu þá umgjörð að fólk og fjármagn leiti aftur til þeirra atvinnugreina sem stuðla að raunverulegri verðmætaaukningu og þar með raunhagvexti. Beina þarf athyglinni að litlum og meðalstórum fyrirtækjum þar sem hugvit og framtak einstaklingsins fær notið sín í atvinnurekstri sem er í takt við íslenskar aðstæður og íslenskan veruleika og byggist á sjálfbærri nýtingu náttúrauðlindanna. Breyta þarf fiskveiðistjórnarstefnunni þannig að byggðarlögin með ströndum landsins hafi forgangsrétt á nýtingu veiðanna á grunnslóð. Það er jafnframt grunnur þess að auka verðmæti aflans. Verði farið að þessum ráðum mun byggjast upp blómlegt atvinnulíf á raunsönnum grunni um land allt.

Herra forseti. Annar minni hluti vísar allri ábyrgð á hendur stjórnarmeirihlutanum vegna óvandaðrar vinnu við fjárlagagerðina á síðasta ári og rangrar forgangsröðunar sem þetta frumvarp til fjáraukalaga endurspeglar. Einstakir ráðherrar beita sér fyrir gæluverkefnum sínum í sjálfri fjárlagagerðinni og síðan reynist nauðsynlegt að draga að landi í fjáraukalögum mikilvæga málaflokka eins og heilbrigðismálin og menntamálin.

Virðulegi forseti. Þegar hafa verið teknar skuldbindandi ákvarðanir um meginhluta þess sem lagt er til í þessu frumvarpi. Breyta þarf lögum um fjárreiður ríkisins þannig að þingið ákveði fjárveitingarnar fyrir fram en standi ekki frammi fyrir því æ ofan í æ að stimpla ákvarðanir framkvæmdarvaldsins eftir á.

Virðulegi forseti. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs munu á þessu stigi ekki bera fram neinar brtt. við fjáraukalagafrv. hér við 2. umr. Við lítum svo á að hér sé í höfuðdráttum verið að staðfesta gerða hluti. Ríkisstjórnin og meiri hluti þingsins bera ábyrgð á því. En að sjálfsögðu draga vinnubrögðin dám af stefnu stjórnvalda í peningamálum almennt. Það verður að segja, herra forseti, að þar mætti virkilega margt betur fara.

Ég mun í seinni ræðu minni koma nánar inn á einstök atriði í þessu fjárlagafrv., þessum brtt. meiri hlutans.