Fjáraukalög 2002

Þriðjudaginn 26. nóvember 2002, kl. 14:49:03 (1706)

2002-11-26 14:49:03# 128. lþ. 36.1 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 128. lþ.

[14:49]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að taka undir síðustu orð hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar um að vonandi verði þetta síðustu fjárlögin sem þessi hæstv. ríkisstjórn flytur á Alþingi.

Virðulegur forseti. Þessi fjáraukalög sem nú eru til 2. umr. má kalla staðfestingu á því sem aflaga hefur farið við framkvæmd fjárlaga. Á það var bent við afgreiðslu fjárlaga fyrir núverandi fjárlagaár að líklega væri um vanáætlanir að ræða sem næmu allt að 2,5 milljörðum og að mestu sneri vandinn að stóru sjúkrahúsunum, Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, Landspítala -- háskólasjúkrahúsi og öldrunarstofnunum. Þetta margsögðum við samfylkingarmenn og aðrir stjórnarandstæðingar.

Niðurstaðan sem liggur fyrir nú við 2. umr. er að gerð er tillaga um 3.269 millj. kr. útgjaldaaukningu með þeim tillögum sem fram eru lagðar af hv. meiri hluta fjárln. En, herra forseti, ekki eru öll kurl komin til grafar og er nú ástæða til þess að óska eftir því að hv. formaður fjárln. sé til staðar því að ég mun beina til hans í minni stuttu ræðu örfáum spurningum sem lúta að framhaldsvinnunni við fjáraukalög. Ég bið virðulegan forseta um að gera ráðstafanir til að svo verði.

Þau atriði sem ég ræði um og tel rétt að beina spurningum um til formanns fjárln. lúta að framhaldsskólum, Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, St. Fransiskusspítala í Stykkishólmi og síðan að Tryggingastofnun ríkisins.

Ég þakka fyrir að hv. formaður fjárln. er mættur í salinn. Ég ítreka að ég ætla ekki að vera með langa ræðu að þessu sinni en hef fjórar spurningar til að leggja fyrir hann.

Í fyrsta lagi vegna vanda framhaldsskólanna spyr ég: Er væntanleg tillaga varðandi það efni milli 2. og 3. umr.?

Ástæðan fyrir því að ég spyr er sú að eftir að ríkisreikningur fyrir árið 2001 hefur verið endurskoðaður kemur í ljós 670 millj. kr. skuld framhaldsskólanna en á sama tíma er til staðar 550 millj. kr. inneign á safnlið menntmrn. Því spyr ég hv. formann hvort hann sé sammála mér í því að raunverulega sé verið að framkvæma lagabrot með áframhaldandi rekstri skólanna með slíkum halla sem hér hefur verið nefndur upp á allt að 130 millj. hjá einstaka skóla? Því spyr ég um brtt. varðandi þetta efni. Það er alveg ótvírætt í mínum huga að verið er að brjóta fjárreiðulög.

Í öðru lagi spyr ég um Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Fyrir liggur beiðni frá því sem nemur, ef allt er til talið, 1,3 milljörðum en þá er ég að tala um fjárlög og fjáraukalög. Á fjáraukalögum vantar a.m.k. 175 millj. bara vegna rekstursins. Því spyr ég: Er að vænta tillagna vegna reksturs þessa húss?

Ef ég tek til Fransiskusspítalann í Stykkishólmi, heilsugæslu og sjúkrahús, er þar beðið um aðeins 4,7 millj. vegna vanda sem ekki er um deilt að er til staðar vegna samningsbundinna launabreytinga. Því spyr ég: Er að vænta tillagna til að mæta þessum halla sem raunverulega er til staðar?

Í fjórða lagi spyr ég vegna Tryggingastofnunar ríkisins þar sem fyrir liggur að uppsafnaður halli frá fyrri árum er 117,8 millj. kr.: Er að vænta tillagna til að mæta þessum halla milli 2. og 3. umr. um fjáraukalög?

Virðulegur forseti. Það er ekki ástæða til að orðlengja þetta mál en grundvallaratriðin eru það sem út af stendur. Ætlum við að lagfæra eða ætlum við að halda áfram og þar með í rauninni að brjóta fjárreiðulögin?