Fjáraukalög 2002

Þriðjudaginn 26. nóvember 2002, kl. 14:55:45 (1707)

2002-11-26 14:55:45# 128. lþ. 36.1 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., Frsm. meiri hluta ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 128. lþ.

[14:55]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Gísla Einarssyni fyrir þær spurningar sem hann lagði hér fram og ábendingar sem spurningunum fylgdu. Hér í andsvari gefst ekki tækifæri til að svara spurningum hans í smáatriðum en almennt get ég nefnt í svari mínu við spurningum hans að milli 2. og 3. umr. verður að sjálfsögðu metið hvaða nýjar tillögur koma til greina fyrir 3. umr. Þær tillögur eða hugmyndir liggja ekki fyrir enn þá.

Hins vegar get ég tekið undir það með hv. þingmanni að sá vandi sem hann getur um í fjórum liðum er vissulega fyrir hendi og ef hann verður ekki leystur að þessu sinni fyrir fjárauka- eða fjárlög bíður sú úrlausn betri tíma.

Varðandi fjárhagsvanda framhaldsskólanna vil ég láta sérstaklega koma fram að þær tillögur sem hér liggja fyrir eru fyrst og fremst vegna ófyrirséðrar fjölgunar nemenda en aðrar tillögur verða að bíða. Það er hins vegar á það að líta að í fjárlagafrv. eru tillögur um verulegar úrbætur fyrir framhaldsskólana. Tengist það m.a. hinu margnefnda líkani sem skólarnir starfa eftir.

Heilbrigðisstofnanir eiga margar við fjárhagsvanda að glíma. Það hefur verið komið til móts við margar þeirra í fjáraukalögunum og verður gert í fjárlögunum. Það tekst ekki að koma til móts við þær allar, og þar á meðal er Fransiskusspítali.

Varðandi Tryggingastofnunina get ég ekki svarað því hvort tillögur koma þar fram um að bregðast við fjárhagsvanda sem þar er milli 2. og 3. umr., en ábending hv. þm. verður tekin þar til umfjöllunar og skoðunar.