Fjáraukalög 2002

Þriðjudaginn 26. nóvember 2002, kl. 14:59:46 (1709)

2002-11-26 14:59:46# 128. lþ. 36.1 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., Frsm. meiri hluta ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 128. lþ.

[14:59]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég mun að sjálfsögðu taka þátt í þeirri umræðu sem hér verður á morgun um fjárlögin. Eins mun ég boða fjárln. til fundar milli 2. og 3. umr. og þá gefst tækifæri til að ræða þessi mál.

Það er rétt sem hv. þm. segir að þær ábendingar hafa komið til fjárln. sem hníga í þá átt að framhaldsskólarnir séu komnir, margir hverjir, í slíkan vanda að þeir þurfi að athuga heimildir sem þeir hafa til rekstursins. Ég hef tekið fullt mark á þeim ábendingum sem nefndinni hafa borist og tel að nefndin eigi að ræða þau atriði.

Hvað varðar heilbrigðismálin vil ég vekja athygli hv. þingmanns á því að enginn málaflokkur fær jafnmikla úrlausn og heilbrigðismálin í þessu frv. til fjáraukalaga. Þar hefði verið æskilegt að ganga lengra og tek ég undir að margar heilbrigðisstofnanir víða um land þurfa á auknu fjármagni að halda eða þá breytingum á rekstrarfyrirkomulagi. Ég tel m.a. að sameina megi á nokkrum stöðum, a.m.k. einum eða tveimur, heilsugæslustöðvar en hér urðum við að gæta þess að ganga ekki lengra en við þó höfum gert í fjáraukalagafrv. og þeirri umfjöllun sem var í nefndinni. Ég vek athygli á því að það var einmitt í heilbrigðismálunum sem mest úrlausnin var og við gengum þar til verks sem brýnast var, þ.e. á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi.