Fjáraukalög 2002

Þriðjudaginn 26. nóvember 2002, kl. 15:09:52 (1712)

2002-11-26 15:09:52# 128. lþ. 36.1 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., Frsm. meiri hluta ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 128. lþ.

[15:09]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir ábendingar hans og þær spurningar sem hér voru lagðar fram. Það skal tekið undir tvennt varðandi sjúkrahúsið á Akureyri. Það er afar mikilvægt hátæknisjúkrahús sem við verðum að byggja upp til þess að þjóna því svæði sem því er ætlað en ekki síður til þess að við höfum hér í landi annan valkost, annað hátæknisjúkrahús til viðbótar við Landspítala -- háskólasjúkrahús. Þetta var annað.

Hitt er það að sjúkrahúsið á Akureyri hefur einmitt staðið sig mjög vel hvað varðar rekstur og að halda sig innan fjárheimilda. Þetta skal viðurkennt og því fagnað við þessa umræðu.

Hins vegar er mér alveg ljóst að vandi þeirra er töluverður. Þrátt fyrir aðhald hefur ekki tekist að leysa þar margvísleg viðfangsefni. Þar er bæði um að ræða rekstrarleg viðfangsefni og sömuleiðis stofnkostnað, svo sem húsbyggingar og fleira. Enn fremur vil ég nefna að verulega hefur verið kallað eftir segulómtæki á sjúkrahúsið. Öll þessi viðfangsefni eru fjárln. vel kunnug og voru til umfjöllunar við afgreiðslu í nefndinni. Hins vegar verðum við að sætta okkur við það að þurfa að raða í forgang þeim takmörkuðu fjármunum sem við höfum. (Gripið fram í: ... nóg.) Það var talið eðlilegt og farsælast við þessa afgreiðslu að einbeita sér að því að koma rekstri Landspítala -- háskólasjúkrahúss á réttan kjöl. Annað verður síðan að bíða betri tíma, hvort heldur það tekst hér á næstu dögum eða við annað tækifæri.