Húsnæðismál

Þriðjudaginn 26. nóvember 2002, kl. 15:18:29 (1715)

2002-11-26 15:18:29# 128. lþ. 36.2 fundur 370. mál: #A húsnæðismál# (niðurfelling skulda) frv., GÖ
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 128. lþ.

[15:18]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Hæstv. félmrh. hefur mælt hér fyrir frv. um breytingu á lögum um húsnæðismál. Það gengur fyrst og fremst út á að opna fyrir að félag eða félagasamtök geti fengið niðurfellingu á hluta af skuldum við sjóðinn.

Þetta frv. er eitt af þeim málum sem hafa verið kynnt í hv. félmn. Hér er verið að stoppa í þau göt sem hafa komið í ljós á lögunum. Það beinir athyglinni að því að þegar um mjög stór lagafrumvörp er að ræða, eins og um Íbúðalánasjóð, og við getum líka tekið barnaverndarmál, barnalög o.s.frv., væri kannski æskilegt að gera ráð fyrir endurskoðun á lögunum eftir tvö til þrjú ár til að sjá úr hverju þarf að bæta þegar á lögin reynir.

Ég hef ekki miklar athugasemdir við frv. Aðalatriðið er að fyrirbyggja að upp komi miklir vankantar. Það er kannski enn brýnna núna þar sem ýmis fyrirtæki eru farin að byggja leiguíbúðir og því mikilvægt að tryggja að fjárhagsáætlanir og annað sem lán er tekið út á hjá sjóðnum standist, þannig að það þurfi ekki að koma til þessa.

Við þekkjum líka, eins og hæstv. félmrh. nefndi, vandræði vegna námsmannaíbúða. Það er hins vegar afar brýnt að bygging þeirra haldi áfram af enn meiri krafti en hingað til. Það þarf að huga að því hvernig hægt er að tryggja að slíkt geti haldið áfram.

Hér er ekki verið að opna fyrir neina krana. Það er talsvert mikið af fyrirvörum og nauðsynlegt fyrir stjórn Íbúðalánasjóðs að leita umsagna vegna þessara mála. Þetta er í raun algjörlega sambærilegt við sveitarfélögin þegar þau þurfa að leita eftir sínum niðurfellingum. Þannig verður svipað á komið með þessum tveimur aðilum. Þetta verður rætt í hv. félmn. og að sjálfsögðu verður leitað umsagna um málið. Við munum þá eflaust skoða hvernig málið hefur gengið fyrir sig frá upphafi.