Þjóðminjalög

Þriðjudaginn 26. nóvember 2002, kl. 15:21:39 (1716)

2002-11-26 15:21:39# 128. lþ. 36.3 fundur 382. mál: #A þjóðminjalög# (verkaskipting, minjaverðir o.fl.) frv., menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 128. lþ.

[15:21]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á þjóðminjalögum, nr. 107/2001.

Eftir að þjóðminjalög tóku gildi á síðasta ári hefur í framkvæmd komið í ljós þörf á því að gera nokkrar breytingar á lögunum.

Í fyrsta lagi er mikilvægt að skerpa betur á verkaskiptingu milli Þjóðminjasafns Íslands og Fornleifaverndar ríkisins en gert er í gildandi lögum. Fornleifavernd ríkisins er fyrst og fremst stjórnsýslustofnun sem veitir leyfi og hefur eftirlit með fornleifarannsóknum, en Þjóðminjasafn Íslands er höfuðsafn á sviði minjavörslu í landinu. Mikilvægt er að skilin milli þessara stofnana séu skýr og er breytingum þeim sem lagðar eru til í 3. og 10.--14. gr. frv. ætlað að tryggja það betur en nú er.

Í öðru lagi hefur komið fram óánægja á landsbyggðinni með stöðu minjavarða samkvæmt gildandi lögum. Bent hefur verið á að hlutverk þeirra sé óljóst og að starfssvið þeirra hafi þrengst til muna frá því sem áður var. Áður höfðu minjaverðir eftirlit með gömlum húsum fyrir Þjóðminjasafnið og húsafriðunarnefnd og ráðgjöf fyrir byggðasöfnin, m.a. um varðveislu nýfundinna forngripa o.fl., auk þess að hafa eftirlit með fornminjum. Til að auka hlutverk og breikka starfssvið minjavarða á landsbyggðinni er lagt til í 4. gr. frv. þessa að þeir heyri undir Þjóðminjasafn Íslands þar sem starfsemi safnsins er mun víðtækari en annarra stofnana þjóðminjavörslunnar, sem eru Fornleifavernd ríkisins og húsafriðunarnefnd ríkisins. Lagt er til að sérstaklega verði kveðið á um að minjaverðir skuli sinna verkefnum er varða þjóðminjavörsluna í heild, þar með talið fornminjum og húsafriðun. Um störf þeirra verði fjallað nánar í reglugerð sem ætlað er að taka mið af fjölþættu hlutverki þeirra.

Í þriðja lagi er lagt til að ákvæði um neyðarrannsóknir verði gert skýrara en er samkvæmt gildandi lögum, en þar er ekki að finna skilgreiningu á neyðarrannsóknum. Í 7. gr. frv., sem breytir 13. gr. gildandi laga, er sérstaklega tekið fram að rannsóknir samkvæmt ákvæðinu séu neyðarrannsóknir. Með breytingunni er gerður skýr greinarmunur á slíkum rannsóknum sem varða óskráðar og óþekktar fornminjar og þeim fornleifarannsóknum sem fjallað er um í 14. gr. laganna og varða skráðar og þekktar fornminjar. Þegar óskráðar og óþekktar fornminjar finnast, hvort heldur er vegna framkvæmda eða af öðrum ástæðum, er samkvæmt 7. gr. frv. lagt til að Fornleifavernd rannsaki fundinn og að kostnaður af því verði borinn af stofnuninni. Annað gildir þegar framkvæmdir eru fyrirhugaðar og vitað er um fornminjar á viðkomandi stað í fornleifaskrám eða öðru rituðu efni. Þá ber framkvæmdaraðili kostnað af þeim eins og kveðið er á um í 14. gr. laganna.

Eins og fram kemur í athugasemdum frv. við 7. gr. er mikilvægt að í reglugerð verði sett nánari ákvæði um samráð við menntmrn. um umfang neyðarrannsókna, einkum þegar fornminjar finnast á stöðum þar sem engar framkvæmdir eru fyrirhugaðar.

Í fjórða lagi er lögð til breyting á 12. gr. gildandi laga, í 6. gr. frv., þannig að samráð verði haft við Umhverfisstofnun, sem áður var Náttúruvernd ríkisins, þegar fornleifar liggja undir skemmdum en þó einungis í þeim tilvikum þegar um er að ræða bæði fornminjar og náttúruminjar.

Að lokum eru lagðar til orðalagsbreytingar á gildandi lögum í 1., 2., 5., 8. og 9. gr. frv. sem ég tel að skýri sig sjálfar og um er fjallað í athugasemdum við viðkomandi greinar. Tel ég ekki ástæðu til að fjalla um þær sérstaklega en vísa til athugasemdanna í frv. sjálfu.

Herra forseti. Ég legg til að frv. þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. menntmn. og 2. umr.