Þjóðminjalög

Þriðjudaginn 26. nóvember 2002, kl. 15:30:17 (1718)

2002-11-26 15:30:17# 128. lþ. 36.3 fundur 382. mál: #A þjóðminjalög# (verkaskipting, minjaverðir o.fl.) frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 128. lþ.

[15:30]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sagði í ræðu sinni að lítils háttar mistök urðu á við vinnslu þessa máls sem að öðru leyti tók mikinn tíma og kostaði mikla yfirlegu í menntmn. á sínum tíma. Þar var unnið í málinu af mikilli eljusemi en um er að ræða flókið og yfirgripsmikið mál. Í því tilefni sem hér um ræðir, þ.e. frv. sem liggur fyrir, er verið að sníða af nokkra vankanta sem komið hafa í ljós á málinu og það er gott að vita til þess að hér í sölum Alþingis ríkir skilningur á því að það hafi verið nauðsynlegt.

Ég vil einnig taka fram að hlutverk fornleifanefndar ríkisins breytist með þessu og þar af leiðandi mun sú fjárþörf sem stofnunin fann fyrir breytast að sama skapi.

Ég vil að lokum taka fram að verið er að vinna að miklu endurnýjunarstarfi fyrir Þjóðminjasafnið. Það var orðið löngu tímabært. Það er hins vegar mjög kostnaðarsöm og viðamikil aðgerð. Við sjáum nú fyrir endann á þeirri aðgerð til allrar lukku og full ástæða er til að hlakka til þess þegar Þjóðminjasafnið verður opnað á ný.