Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 10:32:30 (1727)

2002-11-27 10:32:30# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., Frsm. meiri hluta ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[10:32]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Ólafur Örn Haraldsson):

Virðulegi forseti. Það sem einkum mótar þróun efnahagsmála á þessu ári er jöfn og ör þróun í átt til jafnvægis í hagkerfinu. Til marks um það er þróun verðlags og utanríkisviðskipta. Verðbólga er nú komin niður á viðunandi stig og horfur um verðlagsþróun á næstu missirum eru hagstæðar. Allar líkur eru á að verðbólgumarkmið Seðlabankans náist og verðbólga verði um eða við markmiðin. Síðustu tólf mánuði hækkaði vísitala neysluverðs um 2,4% og vísitala neysluverðs án húsnæðis um 1,7%. Til samanburðar er verðbólgumarkmið Seðlabankans 2,5% eins og kunnugt er. Viðskiptahallinn er einnig á hröðu undanhaldi og reyndar stefnir í að jafnvægi náist í viðskiptum við útlönd á þessu ári. Þróun útflutnings og innflutnings það sem af er árs bendir til að þetta verði raunin og þeir sem gefa sig út fyrir að spá um efnahagsmál eru á einu máli um hvernig horfir í þessu efni.

Þetta er auðvitað mikill árangur á skömmum tíma og lýsir í raun einu áberandi einkenni á íslenskum þjóðarbúskap. Hér er ég að vísa til þess að viðbragðssnerpa í hagkerfinu og hjá þjóðinni er gríðarlega mikil. Reynslan sýnir að Íslendingar eru fljótir að laga sig að nýjum aðstæðum, fljótir að koma sér út úr vandræðum þegar á reynir. Í þessu sambandi nægir að bera saman þann litla og þann stóra í samfélagi þjóða sem náð hafa langt á efnahagssviðinu. Þegar til að mynda er litið til meginþátta hefur hagsveiflan í Bandaríkjunum og á Íslandi verið svipuð. Bæði ríkin bjuggu við mikinn uppgang fram til ársins 2000 og í framhaldi fór hagvöxturinn niður undir núll í báðum ríkjunum, fyrst í Bandaríkjunum árið 2001 og síðan á Íslandi árið 2002. Reiknað er með að hagvöxturinn glæðist í Bandaríkjunum á þessu ári og á Íslandi á því næsta svona í nokkuð svipuðum takti.

En hver er munurinn? Í Bandaríkjunum er enn við mikil misvægisvandamál að etja sem birtast m.a. í halla á viðskiptum við önnur lönd og halla á ríkissjóði. Spáð er yfir 5% viðskiptahalla á árinu 2003 og hreinni lánsfjárþörf hins opinbera sem svarar til 3% af landsframleiðslu. Fyrir vikið ríkir óvissa í hagkerfinu sem heldur aftur af batanum m.a. vegna þess að gengi dollarans gæti fallið í ljósi viðskiptahallans. Til samanburðar er, eins og áður sagði, jafnvægi í utanríkisviðskiptum hér á landi og afkoma ríkissjóðs er einnig í jafnvægi. Þetta sýnir að við erum komin mun lengra, komin með fastara land undir fætur í þessari hagsveiflu en Bandaríkjamenn þótt lægðin hafi byrjað ári eða svo seinna hér á landi eins og ég gat um áðan. Flestir telja leiðina fram undan tiltölulega greiða á Íslandi en að brekka geti verið fram undan í Bandaríkjunum.

Af þessum ástæðum stöndum við betur um þessar mundir en flestar þjóðir sem við berum okkur saman við. Tiltrúin á efnahagslífið er meiri, einfaldlega vegna þess að erfiðasti hjallinn er talinn vera að baki og það stafar af því að misvægið í hagkerfinu er ekki lengur til staðar. Þessu til stuðnings má til að mynda benda á þróun hlutabréfaverðs. Hér á landi hefur hlutabréfaverð hækkað um 12% frá áramótum en hins vegar hefur það lækkað um 20--40% í flestum öðrum efnuðum ríkjum. Í þessari þróun birtist mat almennra fjárfesta á horfunum með skýrum og einföldum hætti. Þótt hér hafi verið litið til Bandaríkjanna um samanburð má segja svipaða sögu með því að horfa til Evrópu. Reyndar hefur sveiflan þar ekki verið jafnmikil. Ekki ganga hlutirnir hraðar fyrir sig þar á bæ.

Þessum mismun milli eiginleika íslenska hagkerfisins og nálægra hagkerfa hefur stundum verið lýst með myndrænum hætti með því að bera saman hraðbát og stórt flutningaskip. Hraðbáturinn getur tekið snöggar beygjur og farið hratt og hægt og eftir aðstæðum hverju sinni. Flutningaskipið er eðli málsins samkvæmt miklu svifaseinna. Hraðbáturinn og flutningaskipið hafa vissulega hvort um sig sína styrkleika og veikleika. En það er sannleikskorn í þessum samanburði og við eigum auðvitað að nýta okkur sem best kosti snerpunnar. Þannig náum við mestum árangri í samkeppni við aðrar þjóðir.

Þegar á allt er litið hefur náðst nokkuð gott jafnvægi í efnahagslífinu. Enginn vafi er á því að aðhaldssöm stefna í ríkisfjármálum og peningamálum lék mikilvægt hlutverk á þessari leið efnahagslífsins til betra jafnvægis. Gengisfall krónunnar og tímabundin verðbólga léku hér jafnframt veigamikil hlutverk. Viðbrögð almennings og fyrirtækja hafa einnig verið undraskjót. Til marks um það er mikill samdráttur í einkaneyslu og fjárfestingu. Við bætist að ytri aðstæður hafa verið hagfelldar bæði að því er tekur til útflutnings og viðskiptakjara. Þetta hefur gert aðlögunina í þjóðarbúskapnum auðveldari en oft áður þegar niðursveifla hefur átt sér stað.

Samhliða þessari öflugu jafnvægisleitni í þjóðarbúskapnum á þessu ári hafa stýrivextir Seðlabankans farið lækkandi og jafnframt hefur bankinn nýlega greint frá því að hann telji forsendur til frekari lækkana þegar lengra kemur fram á þetta ár eða hið næsta. Á nokkrum mánuðum hafa stýrivextir lækkað um 2,2% og eru nú 6,3%. Aðrir vextir hafa einnig farið lækkandi, bæði verðtryggðir og óverðtryggðir vextir. Jafnframt hefur dregið úr vexti útlána lánakerfisins. Ekki kæmi mér á óvart að frekari skref yrðu fljótlega stigin til frekari vaxtalækkana í ljósi atvinnuþróunar að undanförnu og hagstæðrar verðlagsþróunar.

Hér ber því allt að sama brunni. Betra jafnvægi hefur verið að komast á í peningamálum. Að öllu athuguðu hefur því vel tekist til við stjórn peningamála á árinu. Taumhaldið hefur slaknað eftir því sem spennan í efnahagslífinu hefur minnkað. Þetta hefur gerst án þess að teflt væri á tvær hættur um verðbólgu og án þess að aukið væri á óhjákvæmilegan samdrátt í þjóðarútgjöldum.

Ríkisfjármálin hafa lagst á sömu sveif og þróun þeirra því stuðlað að mjúkri lendingu í efnahagslífinu. Í ljósi erfiðra aðstæðna hefur heldur slaknað á afkomu ríkissjóðs. En hún er þó vel viðunandi á árinu. Meiri hluti fjárlaganefndar gerir tillögur um 4,3 milljarða viðbótarútgjöld á þessu ári og rennur ríflega helmingur þessarar fjárhæðar til heilbrigðismála svo sem kunnugt er. Það er vissulega umhugsunarefni hvernig útgjöldin hafa ávallt tilhneigingu til að fara fram úr áætlunum. Einnig er umhugsunarefni hversu mikið af verðmætasköpun þjóðarinnar fer til opinberra útgjalda. Í þessum efnum þurfum við stöðugt að vera á varðbergi. Þegar framvinda ríkisfjármála á líðandi ári er hins vegar metin út frá hagstjórnarsjónarmiðum verður vart komist að annarri niðurstöðu en að hún hafi verið í eðlilegu samhengi við hagsveifluna. Af þessu má sjá að vel hefur tekist til við stjórn ríkisfjármála og peningamála að undanförnu.

Enginn vafi leikur á því að umrædd viðbrögð í þjóðarbúskapnum hafa búið í haginn fyrir nýtt hagvaxtarskeið hér á landi. Nýleg spá OECD frá því í síðustu viku gerir ráð fyrir núllvexti hér á þessu ári og 1,7% hagvexti á komandi ári. Þessi spá er nánast samhljóða spám innlendra aðila, þeirra aðila sem spá út frá sínum eigin forsendum og hafa komið fram á mismunandi tímum frá því í september. Spár þeirra hafa verið mjög keimlíkar. Í framhaldi spáir OECD 3,7% hagvexti á árinu 2004 sem er einnig svipað og sjá má í spám annarra aðila ef gefin er sú forsenda að ráðist verði í nýjar álframkvæmdir eins og OECD gerir. Annars yrði hagvöxturinn sennilega á bilinu 2--3% á því ári. Hagvaxtarspámenn virðast vera sammála um þessa megindrætti. Miðað við þetta verður hægfara bati í efnahagslífinu á næsta ári þar til fullum bata verður náð undir lok árs eða í byrjun ársins 2004. Eðlilegt er að hagvöxtur sé að jafnaði ekki minni en 3% á ári því það er sá hagvöxtur sem tryggir stöðu Íslands í samanburði við önnur lönd að því er lífskjör varðar. Að þessu hagvaxtarmarkmiði verður því að stefna.

Erfitt er að henda reiður á horfum fyrir næsta ár. Auk hefðbundinna óvissuþátta svo sem varðandi fiskafla, viðskiptakjör og þróun efnahagsmála á alþjóðavettvangi, er sú óvenjulega staða að á næstu vikum verður að taka ákvarðanir um stórfelldar fjárfestingar í áliðnaði. Ef ráðist verður í umdeildar og umræddar fjárfestingar gjörbreytist útlitið í þjóðarbúskapnum. Án þessara fjárfestinga eru horfurnar fremur sviplitlar, hægfara bati með von um að á tveimur árum nái hagvöxturinn 3% og þeim markmiðum í hagvexti sem lýst var hér á undan. Þessi framtíðarmynd fæli í sér að ríkisfjármálin og peningamálin þyrftu að styðja við efnahagsstarfssemina til að koma í veg fyrir framleiðslusamdrátt og atvinnuleysi. Með álframkvæmdum yrði hagstjórnarviðfangsefnið hins vegar að koma í veg fyrir þenslu og verðbólgu. Fyrir vikið þyrfti að gæta mikils aðhalds í ríkisfjármálum og peningamálum.

Til þessa hafa stjórnvöld réttilega valið þá leið að byggja hagstjórnarstefnuna á horfum án þess að reikna með umræddum framkvæmdum enda liggja ekki fyrir endanlegar ákvarðanir í þeim efnum. Reynslan sýnir að ekki er skynsamlegt að taka slíkar framkvæmdir með í reikninginn fyrr en lokaákvörðun hefur verið tekin og nákvæmar tímasetningar liggja fyrir. Hér að baki liggur að hætt er við framleiðslutapi og atvinnuleysi ef fylgt er of aðhaldssamri stefnu og síðan yrði framkvæmdum slegið á frest eða jafnvel alveg hætt við þær. Fyrir vikið hefur peningastefnan og ríkisfjármálastefnan ekki enn tekið mið af þeim álframkvæmdum sem eru í deiglunni.

Eins og gefur að skilja veldur þetta vanda við mótun efnahagsstefnunnar fyrir næsta ár. Ef af framkvæmdum verður geta allar forsendur breyst. Þessi vandi er að mörgu leyti flóknari fyrir ríkisfjármálin því peningayfirvöld hafa svigrúm til að bregðast skjótt við nýjum aðstæðum eins og Seðlabankinn bendir á í yfirliti sínu um peningamál frá því í byrjun nóvember. Ákvarðanir í ríkisfjármálum verða hins vegar ekki teknar með sama hætti. Þeim eru settar þrengri skorður í tíma og rúmi. Engu að síður er fjárlagafrumvarpið byggt á sömu forsendum um þjóðhagshorfur og af sömu ástæðum og peningastefnan. Of mikið aðhald gæti skaðað framleiðslustarfsemina og aukið atvinnuleysi umfram það sem annars yrði. Það væri alvarlegt mál að stefna stöðunni á vinnumarkaði í tvísýnu við núverandi aðstæður þegar atvinnuástand er brothættara en það hefur verið um langt bil.

[10:45]

Af þessum ástæðum tel ég nægjanlegt að það verði nokkurn veginn jafnvægi í ríkisfjármálum á komandi ári. Samkvæmt tillögum meiri hluta fjárlaganefndar aukast útgjöldin frá frumvarpi um 4,3 milljarða króna. Við bætast 1,8 milljarðar vegna nýlegs samkomulags um að bæta kjör aldraða. Ljóst er að þessar ráðstafanir taka dágóðan hluta af afganginum sem lagt var upp með í fjárlagafrumvarpinu, þótt reyndar sé ekki búið að endurskoða tekjuhlið frumvarpsins og því nákvæm afkomutala ekki ljós að svo stöddu. Að öllu samanlögðu stefnir þó í að afkoman verði í járnum ef ekki verður gripið til sérstakra ráðstafana til að auka tekjurnar.

Eins og horfurnar eru nú metnar bendir ekkert til annars en að jafnvægi verði í niðurstöðu í ríkisfjármálum og jafnvægi verði milli tekna og gjalda. Slík niðurstaða hefur heldur ekki áhrif til hins verra fyrir þróun peningamála. Þvert á móti má ætla að ef fyrirhugaðar álframkvæmdir frestast af einhverjum óvæntum ástæðum verði nauðsynlegt að grípa til frekari ráðstafana til að auka umsvif í þjóðarbúskapnum. Við slíkar aðstæður tel ég næsta víst að óhjákvæmilegt verði að lækka stýrivexti hér á landi verulega eins og reyndar má segja að felist í umfjöllun Seðlabankans í áðurnefndu peningayfirliti frá því í þessum mánuði og jafnvel grípa til örvandi aðgerða á sviði ríkisfjármála þótt slíkt geti valdið halla hjá ríkissjóði. Ef hvorki er hætta á verðbólgu né alvarlegum viðskiptahalla er sjálfgefið að beita þarf ríkisfjármálunum eftir því sem við verður komið til að tryggja viðunandi ástand á vinnumarkaði.

Þetta geri ég hér að umtalsefni vegna þess að atvinnuástand hefur versnað verulega að undanförnu og ástæða er til að fylgjast grannt með þróuninni á því sviði. Fátt er einstaklingum og fjölskyldum mikilvægara en að hafa atvinnu. Þegar atvinna minnkar getur myndast vítahringur vegna samspils skulda, neyslu og afkomu fyrirtækja. Atvinnuleysi er nú nær tvöfalt meira en á sama tíma í fyrra og að óbreyttu stefnir í vaxandi atvinnuleysi á næstu mánuðum. Áhersla hagstjórnar á því að mínu viti að liggja þeim megin, þ.e. að koma í veg fyrir atvinnuleysi fremur en að einblína einhliða á hættuna á verðbólgu. Líkur á því að verðbólgan færist í aukana eins og nú stendur eru ekki miklar. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir þessari grundvallarbreytingu sem hefur orðið á stöðu og horfum í efnahagslífinu.

Eins og þessar vangaveltur bera með sér ríkir allnokkur óvissa um margar veigamiklar forsendur fjárlagafrumvarpsins, þótt að öllu samanlögðu megi telja að horfurnar séu hagfelldar og mörg tækifæri til að sækja fram. Á þeim grundvelli byggir fjárlagafrumvarpið. Engu að síður er ljóst að fram undan er varnarbarátta ef virkjunar- og álframkvæmdir hefjast ekki í samræmi við áform á næsta ári. Við slíkar aðstæður má vera að huga þurfi að frekari slaka í ríkisfjármálum en frumvarpið gerir nú ráð fyrir, einkum ef atvinnuástand heldur áfram að versna. Eins getur verið nauðsynlegt að herða aðhald ef stórframkvæmdir fara af stað af miklum krafti til að koma í veg fyrir að vextir hækki óhóflega mikið.

Virðulegi forseti. Erindi sem berast til fjárlaganefndar eru gríðarlega mörg og ástæða væri til að fara nokkrum orðum um þau en slíkt er að sjálfsögðu ómögulegt í þingræðu. Þó vil ég gera nokkur atriði að umræðuefni hér við þetta tækifæri og enn fremur fara nokkrum orðum um vinnubrögð nefndarinnar.

Stærsti hluti í afgreiðslum nefndarinnar eru erindi frá einstökum ráðuneytum og eru þau unnin í nánu samstarfi við þau og þá ekki síst fjármálaráðuneytið. Minni hluti afgreiðslna hvað varðar fjárhæðir en ekki endilega fjölda varðar umsóknir og erindi frá félagasamtökum, félögum, sveitarstjórnum og fleirum. Þar er um að ræða mörg góð framfaramál sem vitna um þann mikla áhuga sem er meðal landsmanna á margvíslegum framfaramálum. Um þau má segja almennt að verst er að geta ekki orðið við flestum þessara beiðna um stuðning og er nefndinni þar sannarlega nokkur vandi á höndum.

Meðal málaflokka sem nefndin hefur reynt að leggja áherslu á eru menningartengd ferðaþjónusta, sögu- og minjasöfn, skógræktarverkefni, fjarvinnsla og fjarnám, menningarverkefni, líknarstarf og barátta við fíkniefnavandann.

Sem dæmi um það síðastnefnda vil ég nefna að fjárlaganefnd vill bregðast við þeirri staðreynd að nú er alllangur biðlisti á meðferðarheimilum fyrir fíkniefnaneytendur. Allnokkur hópur fólks 18 ára og eldri, svo sérstaklega sé horft til þeirra, er á vergangi og dregur fram lífið á götum og í skúmaskotum og fjármagnar neyslu sína með innbrotum, vændi og öðrum slíkum aðferðum. Undir umsjá félagsmálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis er unnið umfangsmikið starf til þess að bregðast við þeim vanda. Fjárlaganefndin vill þar að auki styðja þetta starf sérstaklega og hefur því lagt til að stutt verði við bakið á nokkrum meðferðarheimilum. Væri vert að telja þau upp en ég vil sérstaklega nefna sem dæmi að Krýsuvíkursamtökin fá nú 15 millj. kr. til þess að taka til sín 8--10 manns eldri en 18 ára. Fjárveitingarnar eru tvískiptar, annars vegar 7,5 milljónir á fjáraukalögum og hins vegar 7,5 milljónir á fjárlögum til næsta árs. Fleiri slík dæmi mætti nefna.

En um leið og við verðum að reyna að koma þeim til hjálpar sem hrasað hafa þurfum við að leggja enn meiri áherslu á að efla fjölþætt æskulýðsstarf og sér þess vel merki í fjárlagatillögum varðandi íþróttahreyfingu, æskulýðssamtök og félagsstarf fyrir ungt fólk. Reynsla og rannsóknir sína að heilbrigð og fjölþætt tækifæri sem bjóðast börnum og unglingum er ein besta forvörnin gegn vágesti vímuefna að ógleymdum traustum heimilum landsins.

Almenningur á Íslandi leggur fram óhemjumikið sjálfboðastarf og sjálfsaflafé til þjóðþrifamála svo sem líknarmála, menningarmála og annarrar uppbyggingar sem leiðir til góðs samfélags. Ég er sannfærður um að hver króna sem ríkissjóður leggur til slíkra áhugamannasamtaka margfaldast í höndum félagasamtakanna því að þau leggja þar margar krónur og góð handtök á móti hverri krónu ríkisvaldsins.

Á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu og safnamála er nefndinni nokkur vandi á höndum og tel ég bráðnauðsynlegt að fjárlaganefnd endurskoði vinnuaðferðir við mat og afgreiðslu á því sviði. Í þeirri endurskoðun þarf að eiga náið samráð við fagfólk, ráðuneyti, félagasamtök, heimamenn í byggðum landsins og fleiri. Þar þurfa að koma til fagsjónarmið varðandi fornminjar, gildi sögu og menningar, byggðasjónarmið og verkaskipting milli embættismanna, sjóðstjórna og alþingismanna.

Virðulegi forseti. Miklar umbætur hafa orðið í vinnubrögðum fjárlaganefndar bæði á sviði mats á umsóknum og eftirliti með því hvernig fjárveitingum er varið og er þar ómetanlegt framlag einstakra ráðuneyta ríkisvaldsins. En á ýmsum sviðum tel ég að Alþingi geti bætt fjárlagagerð sína og vil ég hvetja til þess að ákveðnir þættir í vinnuferlinu verði endurskoðaðir á næstunni. Ég nefni aðeins verkaskiptingu fjárlaganefndar og einstakra fagnefnda sem taka að sér afgreiðslu svokallaðra safnliða en það er tilraun sem gerð hefur verið til þess að auka þátttöku fagnefndanna og nýta þá sérþekkingu sem þar er á hverju málasviði. Ég tel að sú tilraun hafi að mestu leyti misheppnast og tel að reyna verði nýjar aðferðir í þessari tilraun áður en horfið verði til fyrra vinnulags þ.e. að allar afgreiðslur og fjárveitingar fari fram í fjárlaganefndinni sjálfri.

Vil ég, hæstv. forseti, láta þess getið að umræður um þessi efni hafa farið fram innan fjárlaganefndar og munu gera það nú í upphafi nýs árs og nefndin vill þar með sýna forgöngu á þessu sviði. Óskar nefndin eftir góðu samstarfi við alþingismenn hvað þetta varðar.

Þá vil ég enn fremur leggja áherslu á eftirlitshlutverk Alþingis með embættisfærslu af ýmsum toga og tel að styrkja þurfi betur vinnuaðferðir og verkfæri þingsins til slíks eftirlits. Ríkisendurskoðun gegnir lykilhlutverki hvað þetta varðar og hefur hún unnið ómetanlegt starf að undanförnu í samvinnu við ráðuneyti og ríkisstofnanir. Er sérstök ástæða til að þakka það. En fjárlaganefnd og Alþingi þarf líka að hafa svigrúm og ég vil segja kjark til þess að fylgja málum eftir og rækja þannig að fullu eftirlitshlutverk sitt.

Störf nefndarinnar við afgreiðslu frumvarpsins hafa verið nokkuð hefðbundin eins og undanfarin ár. Nefndin hóf störf 23. september sl. og átti viðtöl við fulltrúa sveitarfélaga sem gerðu henni grein fyrir erindum sínum. Þá hefur nefndin kallað fyrir fulltrúa ráðuneyta og einstakra stofnana.

Þá vil ég einnig geta þess að nefndin fer árlega ferð í hvert kjördæmi, svo talað sé um kjördæmaskipanina eins og hún er nú fyrir breytingar, og átti hún ánægjulega og árangursríka för í Norðurland eystra. Ég vil þakka sérstaklega heimamönnum þar þær góðu móttökur sem nefndin naut í þeirri heimsókn. Slíkt samráð og slíkar heimsóknir eru nefndinni ómetanlegur styrkur við afgreiðslu mála.

Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. þingskapa getur fjárlaganefnd vísað til annarra fastanefnda þeim þáttum fjárlagafrumvarpsins sem fjalla um málefnasvið þeirra. Gat ég nokkuð um þau vinnubrögð hér áðan. Með bréfi, dagsettu 8. október sl., óskaði nefndin eftir álitum fastanefnda þingsins um frumvarp til fjárlaga, þ.e. þá þætti er varða málefnasvið einstakra nefnda. Nefndirnar hafa skilað álitum og eru þau birt sem fylgiskjöl með nefndarálitinu eins og fyrir er mælt í þingsköpum. Frá því að nefndin hóf störf við afgreiðslu frumvarpsins hefur hún haldið 30 fundi og átt viðtöl við fjölmarga aðila.

Nefndin hefur lokið afgreiðslu flestra þeirra erinda sem henni bárust, svo sem skiptingu fjárfestingarliða. Breytingartillögur þær sem eru til umfjöllunar við 2. umr. nema samtals 4.341 millj. kr. til hækkunar á sundurliðun 2. Tillögur um aukin útgjöld til heilbrigðis- og tryggingamála eru að fjárhæð 1.572 millj. kr. rúmar en þar vega þyngst tillögur um hækkun vegna Landspítala -- háskólasjúkrahúss að fjárhæð 700 millj. kr. til að styrkja rekstrargrunn sjúkrahússins og til sjúkratrygginga vegna aukins lyfjakostnaðar, 570 millj. kr., sem er í samræmi við endurskoðaða áætlun um útgjöld næsta árs. Tillögur um aukin útgjöld til menntamála eru 1.177 millj. kr. og er um helmingur upphæðarinnar ætlaður til framhaldsskóla. Gerð er tillaga um hækkun á liðnum Launa- og verðlagsmál að fjárhæð 563 millj. kr. Annars vegar er lögð til 300 millj. kr. hækkun til að mæta áhrifum af úrskurði kjaranefndar um kjör heilsugæslulækna á útgjöld heilbrigðisstofnana og hins vegar 263 millj. kr. hækkun vegna úthlutunar á framlögum til stofnana í samræmi við bókun með kjarasamningi við Starfsmannafélag ríkisstofnana sem er ætluð til að bæta kjör þeirra sem eru á lægstu töxtunum og til að draga úr hárri starfsmannaveltu.

Virðulegi forseti. Ég vek athygli þingmanna á því að ég les ekki hárnákvæmar tölur enda liggja þær fyrir í skjölum hér í þinginu.

[11:00]

Lagt er til að fjárheimild félmrn. verði aukin um 428,2 millj. kr. og er gert ráð fyrir 300 millj. kr. hækkun á framlagi til Atvinnuleysistryggingasjóðs frá því sem gert er ráð fyrir í frv. í samræmi við spár um atvinnuleysi á árinu 2003 en gert er ráð fyrir rúmlega 2,5% atvinnuleysi samkvæmt spá fjmrn. en í frv. var reiknað með 2,2% atvinnuleysi.

Gerð er tillaga um 182,8 millj. kr. hækkun til landbúnaðarmála. Þar vegur mest hækkun til landshlutabundinnar skógræktar að fjárhæð 83,9 millj. kr. og greiðslna vegna mjólkurframleiðslu að fjárhæð 63,4 millj. kr.

Aðrir málaflokkar sem ekki hafa verið nefndir hér að framan, samanber liðir er heyra undir æðstu stjórn ríkisins, forsrn., utanrrn., sjútvrn., dóms- og kirkjumrn., samgrn., viðsk.- og iðnrn., umhvrn. og Hagstofu Íslands, innihalda tillögur að fjárhæð 845,6 millj. kr. til hækkunar útgjalda. Skýringar við einstakar brtt. er að finna í nál. meiri hluta fjárln.

Meiri hluti fjárln., virðulegi forseti, þakkar fulltrúum stjórnarandstöðunnar í nefndinni fyrir mjög gott samstarf. Þá hefur nefndin notið aðstoðar Ríkisendurskoðunar og fjmrn. Einnig hafa einstök ráðuneyti veitt nefndinni upplýsingar og aðstoð.

Eins og venja er bíða 3. umr. afgreiðsla á tekjuhlið frv., B-hluti og heimildir skv. 7. gr. Auk þess bíða 3. umr. ýmis viðfangsefni sem nefndin hefur enn til umfjöllunar.