Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 11:02:36 (1728)

2002-11-27 11:02:36# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., Frsm. 1. minni hluta GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[11:02]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Gísli S. Einarsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér hefur hv. formaður fjárln. gert grein fyrir tillögum meiri hlutans sem nema á sjöunda milljarð kr., 4,3 milljörðum sem liggja fyrir núna á blöðum og síðan væntanlegum 1,8--2 milljörðum kr. Þá vil ég bara spyrja hv. formann: Telur hann að með þessu séu öll kurl komin til grafar eða hvað telur hv. formaður að við eigum von á mörgum hundruðum millj. eða mörgum milljörðum til viðbótar? Mér er kunnugt um að í pípunum liggi a.m.k. nokkur hundruð millj. Ég vildi gjarnan fá það fram þannig að það liggi ljóst fyrir hvað hv. formaður telji að eigi eftir að hækka fjárlagatillögur mikið milli 2. og 3. umr.

Síðan má ég til með að spyrja hv. formann hvort ég heyrði rétt. Telur hann að grípa þurfi til sérstakra aðgerða, jafnvel að hleypa þenslu af stað til þess að bregðast við atvinnuástandinu? Það horfir nú til þess að atvinnuleysi stefni í allt að 4% á einstökum stöðum, jafnvel hér í þéttbýlinu. Til hvers konar aðgerða telur hv. formaður fjárln. að grípa þurfi til þess að mæta þeirri vá sem virðist vera fyrir dyrum í öllu jafnvæginu og allri velmeguninni hjá hæstv. ríkisstjórn?