Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 11:11:01 (1733)

2002-11-27 11:11:01# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., Frsm. meiri hluta ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[11:11]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason gerir útgjöld til heilbrigðismála að umræðuefni. Ég tel að það hafi komið skýrt fram í framsögu og eins í þeim tillögum sem liggja hér fyrir frá meiri hluta nefndarinnar að hvergi er tekið jafnhraustlega á eins og hvað varðar tillögur til heilbrigðismála. Þess mátti einnig sjá stað í þeim tillögum sem lágu fyrir í gær varðandi fjáraukalagafrv.

Tillögur til aukinna útgjalda í heilbrigðis- og tryggingamálum eru að fjárhæð rúmlega 1,5 milljarðar sem gerðar eru tillögur um. Það er alveg rétt að það er Landspítali -- háskólasjúkrahús sem fær þar 700 millj., langmest. Það skal líka viðurkennt að betur má gera víða um land, bæði hvað varðar einstakar heilsugæslustofnanir og hvað varðar sjúkrahúsið á Akureyri. Það hefur hins vegar verið metið svo að brýnast sé að bregðast við þessum vanda sem er á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi en vissulega er verið að skoða til hvaða úrræða megi grípa hvað varðar sjúkrahúsið á Akureyri.