Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 11:13:52 (1735)

2002-11-27 11:13:52# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[11:13]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins spyrja hv. formann fjárln., Ólaf Örn Haraldsson, út í ræðu hans þar sem hann fjallaði um stöðu efnahagsmála og tók samlíkingu af okkur Íslendingum sem værum á hraðbáti og Bandaríkjamönnum og Evrópubúum sem mundu silast um á stóru fragtskipi sem er bæði lengi verið að ná á skrið og lengi verið að ná niður.

Hv. þm. ræddi viðbrögð almennings, viðbrögð fyrirtækja og samdráttinn í þjóðfélaginu, að dregið hefði úr þenslu sem sannarlega er rétt. Það er auðvitað ein afleiðing af því vaxtaokri sem verið hefur hér á landi og þeirri efnahagsstefnu sem hefur verið um það að draga úr ímyndaðri þenslu landsbyggðarinnar með háum vöxtum sem landsbyggðarfólk hefur þurft að búa við.

Hann ræddi líka þann mikla samdrátt sem orðið hefur í innflutningi og neyslu, samdrátt sem sumir telja jafnvel of mikinn. Ég vil spyrja hv. þm. hvort hluti af þessum samdrætti sé ekki vegna skuldsettra fyrirtækja, vegna óðaverðbólgu undanfarinna ára og okurvaxta og hvort það sé ekki vegna þess að almenningur er svo skuldsettur sem raun ber vitni að rekstrarskilyrði bæði almennings og atvinnufyrirtækja eru nánast engin.

Ég spyr sem sagt hv. þm. um sýn hans til ársins 2003 sem rætt hefur verið um hér varðandi fjárlög næsta árs, hvort rekstrarerfiðleikar fyrirtækja muni minnka eða aukast að hans mati, hvort atvinnuleysi muni aukast eða minnka miðað við það sem við erum að tala um og hvort gjaldþrot einstaklinga og fyrirtækja haldi áfram að aukast eða hvort sýn hans sé til þess að þetta fari minnkandi.