Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 11:16:01 (1736)

2002-11-27 11:16:01# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., Frsm. meiri hluta ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[11:16]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir vænt um að hv. þm. skyldi nema samlíkingu mína um hraðbátinn og hið stóra flutningaskip. En mér þykir leitt að hann skyldi snúa út úr orðum mínum. Ég var ekki að tala um einstaklinga. Ég var að tala um tvö hagkerfi, annars vegar hið bandaríska og hins vegar hið íslenska. Ég tel að bæði hagkerfin hafi styrkleika og veikleika og við eigum svo sannarlega að nýta okkur þá styrkleika sem við höfum, sem lýsa sér í snörpum viðbrögðum eins og farsæl efnahagsstjórn hefur einmitt sýnt hér á undanförnum missirum.

Varðandi þær spurningar sem hv. þm. lagði fram vil ég segja að við megum ekki búast við auknum rekstrarerfiðleikum fyrirtækja. Ríkisstjórnin hefur með margvíslegum hætti greitt fyrir bættum rekstri hjá fyrirtækjum landsins. Ég tel hins vegar, eins og kom fram í máli mínu og lagði í því sambandi fram tölur og hugleiðingar, að atvinnuleysi muni eitthvað vaxa en á engan hátt þannig að hér sé vá fyrir dyrum. Þetta kom fram í máli mínu þegar ég svaraði hv. þm. Gísla S. Einarssyni. Ég tel, eftir því lauslega mati sem ég hef í mínum kolli, að gjaldþrotum muni linna á næstunni. Ég skal þó viðurkenna að þar hef ég ekki tiltæk efnahagsleg rök eða tölur heldur eingöngu almennt viðhorf sem ég hef heyrt á atvinnumarkaði.