Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 11:20:17 (1739)

2002-11-27 11:20:17# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[11:20]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það er eðlilegt að spyrja hv. þm. Ólaf Örn Haraldsson, formann fjárln., út í nokkur atriði í ræðu hans. Í fyrsta lagi vaknar spurningin um það hvað réð vali meiri hluta fjárln. þegar ákveðið var að bæta stöðu einstakra stofnana. Nú er nýútkomin endurskoðuð skýrsla frá Ríkisendurskoðun um ríkisreikning 2001. Þar kemur m.a. í ljós að um 20% stofnana ríkisins hafi farið út fyrir fjárheimildir á árinu 2001. Það er augljóst að það er ekki tekið á vanda allra þessara stofnana. Ég er þá ekki að segja að eingöngu eigi að taka á vanda stofnana með því að láta fjármuni renna sjálfvirkt til þeirra heldur eigi að fara yfir stöðuna og meta hvort grípa þurfi til einhverra aðgerða.

Ég minni á þetta af þeirri einföldu ástæðu að það eru ekki mörg ár síðan lagður var grunnur að því í nál. meiri hluta fjárln. árið 1999 að koma á ákveðnum vinnubrögðum við það að fylgjast með stöðu stofnana og taka á vanda þeirra. Það eru liðin þrjú ár frá því að þetta nál. var lagt fram og ekki höfum við sem störfum í fjárln., en höfum því miður of lítil áhrif þar sem við sitjum í minni hluta, orðið vör við að vinnubrögð hafi á nokkurn skapaðan hátt breyst.

Það er líka eðlilegt að spyrja hv. þm. út í ummæli hans varðandi það hvað hafi brugðist í fjárlagaferlinu, þ.e. samskipti fjárln. og annarra nefnda þingsins. Hv. þm. kom örlítið inn á það í ræðu sinni. Ég held að það sé eðlilegt að hann útskýri betur fyrir þingheimi hvað hann á við með þeim orðum. Er hann er að taka undir þá gagnrýni sem við í minni hlutanum höfum margoft lagt fram og lagt áherslu á, að því miður, um leið og fjárlög eru lögð fram hér á þingi, séu allir rammar horfnir samstundis.