Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 11:22:23 (1740)

2002-11-27 11:22:23# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., Frsm. meiri hluta ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[11:22]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ábendingar og svör hv. þingmanns og reyndar annarra sem hafa með mjög málefnalegum hætti gert einstök atriði að umræðuefni.

Hvað varðar stöðu einstakra ríkisstofnana vil ég benda sérstaklega á þá skýrslu sem hv. þm. hafði hér í höndum og þá miklu vinnu sem Ríkisendurskoðun hefur sinnt á síðustu missirum með ráðuneytunum. Ég er sannfærður um og veit af þeim skýrslum og umræðum sem hafa orðið í fjárln. að það er unnið mjög kappsamlega í ríkisstofnununum og einstökum ráðuneytum að bættum rekstri ríkisstofnana. Ég tel að þar séum við á réttri leið og að óhjákvæmilegt sé að sætta sig við að það taki nokkurn tíma að ná fullum tökum á þessu. Enn fremur veit hv. þm., eins og sá sem hér stendur, að oft þarf að bregðast við aðsteðjandi vanda og breyttum aðstæðum hjá einstökum ríkisstofnunum. Við ræddum um það í gær og höfum fjallað um það í dag.

Hvað varðar samskipti fjárln. við aðrar fagnefndir og ríkisstjórn er mér efst í huga að skoða hlutverk fagnefndanna og hvernig þær geti, með þeim hætti sem ég veit að þær geta, komið inn í fjárlagaferlið. Ég gerði hér ekki að umræðuefni þann ramma sem settur er um fjárlögin sem hv. þm. hafði óbeinar meiningar um að brysti þegar inn í þingið væri komið.