Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 11:52:58 (1744)

2002-11-27 11:52:58# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[11:52]

Ásta Möller (andsvar):

Herra forseti. Í framsögu hv. þm. Gísla S. Einarssonar, sem er framsögumaður 1. minni hluta fjárln., hefur honum verið tíðrætt um frammistöðu forstöðumanna ríkisstofnana. Af þeim orðum má ráða að hv. þingmenn Samfylkingar telji að reka eigi forstöðumenn ríkisstofnana í stórum stíl, eins og t.d. tilvísunin í greinargerðinni bendir til þar sem þeir segja að ætla mætti: ,,að á starfatorgi.is væri fullt af auglýsingum um lausar stöður forstöðumanna ríkisstofnana.`` Það kemur einnig fram í nál. að í 105 af 511 fjárlagaliðum fara ríkisstofnanir fram úr 4%-mörkum.

Því spyr ég: Hvaða forstöðumenn ríkisstofnana vilja hv. þingmenn Samfylkingar reka? Er það sú aðferð sem samfylkingarmenn vilja beita til þess að halda fjárlögum í skefjum?