Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 14:13:34 (1759)

2002-11-27 14:13:34# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[14:13]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki alveg viss um í hverju þetta andsvar var fólgið. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hæla mér og segja að þetta hafi verið flott ræða, það er alltaf gaman þegar manni er klappað aðeins á kollinn, það verður að viðurkennast og ég þakka henni fyrir það.

Ég reyndi samt í þessari ræðu, herra forseti, að fara yfir ríkisfjármál Íslands. Ég reyndi að tala um skattamálin og ég reyndi að segja frá því á hverju þau byggðust, hvers vegna við innheimtum tekjur til ríkisins. Við gerum það til að búa okkur undir það að geta látið ríkissjóð fórna sér fyrir kaupmátt almennings, fyrir rekstrarhæfni fyrirtækja, þegar illa gengur. Það er meginstefnan og að þessu erum við að vinna. Þetta er sú pólitík sem við rekum. Ég reyndi að leggja mig allan fram við að skýra það og sýna.