Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 14:16:43 (1762)

2002-11-27 14:16:43# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[14:16]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki tekið undir að það hafi verið sérstök ástæða til að verðlauna þá ræðu sem hv. þm. flutti, enda held ég að hún hafi í heildina verið eitthvað það samhengislausasta sem hér hefur verið sett fram í nokkuð langan tíma.

Í fyrsta lagi talaði hv. þm. um að draga saman seglin eins og hægt væri. Síðan færðist áherslan til þess að dreifa peningum eins og hægt væri út um hvippinn og hvappinn. Ríkissjóður átti að taka stóran þátt í aukningu á hagvextinum en um leið átti að skera niður á öllum sviðum. Á heildina litið var ræðan því mestan part samhengislaus.

Það eru þó nokkur atriði, virðulegur forseti, sem mig langar að spyrja hv. þm. um. Í fyrsta lagi liggur fyrir að menn hafa gefist upp á að verja kvótakerfið og ætla að kenna Hafró um það sem miður hefur farið. Pilsfaldakapítalismi skal síðan verða lausnin á þeim vanda sem ríkir í heilbrigðiskerfinu. En það er samt sem áður ein spurning, virðulegur forseti, sem ég vil beina til hv. þm. Hún er þessi:

Hver er eðlilegur hlutur ríkissjóðs í vextinum í hagkerfinu? Hv. þm. sagði í ræðu sinni eitthvað á þá leið að það væri eðlilegt að ríkissjóður tæki tiltekinn hlut af hagvextinum og mundi þannig auka tekjur sínar eftir því sem hagvöxturinn ykist. Hver er eðlilegur hlutur, virðulegi forseti?