Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 15:27:52 (1777)

2002-11-27 15:27:52# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[15:27]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta hrósið. Ég heyrði ekki alveg þegar hann talaði um hvort viðkomandi þingmaður væri langminnugur hvort hann talaði í eintölu eða fleirtölu. (Gripið fram í.) Hann talaði í fleirtölu og þá þakka ég auðvitað fyrir hönd okkar allra.

Hv. þm. Gísli S. Einarsson minntist á samninga sem gerðir hafa verið á sama hátt og ég tók fram í ræðu minni áðan. En við megum heldur ekki gleyma því, herra forseti, að í mörgum tilfellum halda þessir samningar og þeir eiga að halda og það skiptir máli. Um leið og búið er að gera samningana þá eiga þeir að halda og í mörgum tilfellum gerist það. En, eins og hv. þingmanni, finnst mér alveg óþolandi þegar þeir samningar halda ekki, og þá kemur það einmitt mjög oft til kasta okkar í fjárln. Alþingis að grípa inn í þetta ferli. Það hefur gerst varðandi menningarmál, landbúnaðarmál, félagsmál o.s.frv. Þegar slíkir samningar eru gerðir þá eiga þeir að halda.