Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 15:29:22 (1778)

2002-11-27 15:29:22# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., EMS
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[15:29]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Það hefur á margan hátt verið fróðlegt að fylgjast með umræðunum, 2. umr. um fjárlög fyrir árið 2003. Menn hafa víða komið við og tekið almenna umræðu jafnt um efnahagsmál sem þær tillögur sem fyrir liggja. Einnig hefur nokkuð verið til umræðu sú vinna sem lögð er í fjárlagafrv. í fjárln. og fagnefndum Alþingis og ég held að það sé ómaksins vert að bæta nokkrum orðum í þá umræðu.

Á undanförnum árum hefur það verið markmið fjárln. að bæta vinnubrögðin. Það hefur einnig verið markmið að því er sagt hefur verið ríkisstjórnar og ekki síst fjmrh. að bæta öll vinnubrögð. Ég rifjaði það upp í stuttu andsvari í morgun við ræðu hv. formanns fjárln. að það hefði verið árið 1999 sem fjárln. lagði sérstaka áherslu á að það þyrfti að breyta öllum vinnubrögðum. Það ár var mikill vandi fyrir í heilbrigðiskerfi landsmanna. Yfir þau mál var farið nokkuð nákvæmlega og eins og kallað var, kerfið núllstillt. Menn töldu ástæðu til þess að bæta vinnubrögð m.a. til að koma í veg fyrir að það sem þá gerðist endurtæki sig. Það var ekki niðurstaða manna að það væri endilega vegna slælegrar fjármálastjórnunar einstakra stofnana að sá vandi væri upp kominn. Þess vegna vildu menn bæta mjög allt upplýsingastreymi og öll vinnubrögð og það var m.a. í nefndaráliti meiri hluta fjárln. með fjáraukalagafrv. ársins 1999 sem afskaplega skilmerkilega var komist að orði um það hvernig menn vildu standa að verki. Í því nefndaráliti sagði m.a., með leyfi forseta:

[15:30]

,,... að upplýsingar um rekstur stofnana miðað við fjárheimildir liggi fyrir mánaðarlega og að nauðsynlegt talnaefni úr launabókhaldi berist reglulega``.

Þetta var í áliti meiri hluta fjárln., ekki í áliti minni hluta nefndarinnar. Það var meiri hlutinn sem lagði þessa áherslu á málið. Því hefði mátt vænta að þessu hefði verið fylgt eftir og þannig hefði vinnubrögðum verið hagað frá og með framlagningu þessa nefndarálits. Að vísu var verið að undirbúa þetta og menn hafa lagt vinnu í að reyna að framkvæma þetta en því miður verður að segja alveg nákvæmlega eins og það er að þessu hefur ekki verið fylgt eftir og þetta hefur ekki átt sér stað síðan.

Nú eru liðin þrjú ár og hv. formaður fjárln. sagði það í svari fyrr í dag að langan tíma tæki að koma þessum málum í lag. Ég held, herra forseti, að óhjákvæmilegt sé að spyrja hv. þm. að því hvað hann telji langan tíma eða nauðsynlegan tíma til að kippa þessu í liðinn því að eins og ég sagði áðan eru liðin þrjú ár frá því að þessi orð voru lögð fram, þrjú ár og ég hefði talið að það hefði ekki einu sinni þurft þrjú ár, hvað þá heldur að eftir þrjú ár skuli ekkert hafa áunnist í þessum efnum. Hver er afleiðingin? Hún er ósköp einfaldlega sú að því miður er t.d. í heilbrigðiskerfinu staðan orðin sú að þessi mál eru komin á sama stað og þau voru fyrir þremur árum og það er þannig víðar í kerfinu. Við sjáum það t.d. þegar skoðuð er sú ágæta bók Endurskoðun ríkiseiknings fyrir árið 2001, sem nýlega er komin út hjá Ríkisendurskoðun, að það eru 20% fjárlagaliða sem eru umfram fjárheimildir, þ.e. sem eru yfir 4% markið sem sett var í reglugerð sem fjmrn. gaf út til viðmiðunar um það hvernig ætti að standa að málum og hvenær ætti sérstaklega að grípa til ákveðinna ráðstafana, afla sér upplýsinga og gera tillögur um úrbætur. Það er þessi fjöldi fjárlagaliða sem er umfram það viðmið. Það er einnig fjöldi stofnana sem er langt fram yfir það viðmið. Jafnvel eru dæmi um að liðir séu um 700, tæplega 800% fram úr. Það eru liðir sem eru um 200% fram úr og það er fjöldi liða sem fer á bilinu frá 20--100% fram úr. Manni er því spurn: Hvernig er hægt að ætlast til þess að þeir sem stýra og stjórna þessum liðum geti við brugðist þegar hvorki af hálfu ríkisstjórnar, fjmrn., einstakra ráðuneyta né meiri hluta fjárln. er við brugðist?

Nýjasta dæmið, herra forseti, sem komið er upp og hefur verið vakin athygli á nú að undanförnu er staða framhaldsskólanna í landinu. Ég minnist þess að minnst hefur verið á stöðu framhaldsskólanna a.m.k. þrjú sl. ár vegna þess að sá vandi sem er nú meira áberandi kominn upp á yfirborðið hefur í raun verið til staðar allan þann tíma og allan þennan tíma hefur hann vaxið. Hann hefur vaxið jafnt og þétt og staðan var síðan þannig um síðustu áramót að 22 menntastofnanir voru fram úr fjárheimildum í árslok 2001 og samtals voru það um 906 millj. kr. Það er gjarnan tekið dæmi af ákveðnum framhaldsskóla vegna þess að það er líklega hvað stærsta dæmið í þessu sambandi, þ.e. Menntaskólinn í Kópavogi sem var um síðustu áramót um 160 millj. kr. fram úr fjárheimildum, þ.e. um 50% af fjárheimild ársins voru þeir fram yfir þannig að það liggur alveg ljóst fyrir að viðkomandi stofnun hefur enga möguleika á því að vera innan fjárheimilda ársins, ekki nokkra. Það er skilgreint nákvæmlega í þeirri reglugerð sem fjmrn. gaf út um framkvæmd fjárlaga hvernig á að taka á svona hlutum. Því er það algerlega óskiljanlegt hvernig á því stendur að menntmrn. hafi ekki brugðist við og í raun og veru jafnóskiljanlegt að fjmrn. skuli þá ekki hafa brugðist við gagnvart menntmrn. um það hvernig eigi að bregðast við þessum hlutum.

Það er auðvitað hægt að fara ofan í það, og allt í lagi að nota Menntaskólann í Kópavogi sem dæmi, hvernig á því standi að ekki er hægt eins og m.a. var gert ráð fyrir að bregðast við með því jafnvel að vara forstöðumenn við eða segja þeim upp við svona aðstæður. Málið er ósköp einfalt, lögð hafa verið fram gögn í því að ekki er hægt að ásaka forstöðumann í þessu tilliti. Skólinn hefur gjörbreyst frá því að fjárheimildir voru í grunninn ákveðnar og síðan hafa þær verið framreiknaðar eftir ákveðnum reiknikúnstum sem ekki hafa tekið mið af því að skólinn er gjörbreyttur frá því sem áður var, frá því að hafa verið fyrst og fremst bóknámsskóli yfir í það að vera að stórum hluta til verknámsskóli. Þess vegna m.a. hefur sigið á ógæfuhliðina og það er ljóst að á ógæfuhlið fór ekki að síga fyrr en skólinn breyttist að þessu leytinu til.

Einnig hefur allan þennan tíma verið bent á að það reiknilíkan sem hefur verið notað til að reikna út fjárframlög til einstakra skóla hefur ekki þróast í takt við breytingar í skólunum. Það eru ýmsir þættir sem ekki voru til staðar í þeirri mynd sem þeir eru í dag þegar reiknilíkanið var ákveðið forðum daga.

Við þekkjum öll hinar gífurlegu breytingar í tölvumálum skólanna, í tölvumálum samfélagsins. Þessu hefur ekki verið mætt. Kostnaði við tæki og tól almennt hefur ekki verið mætt og þess vegna m.a. hafa verknámsskólar farið verr út úr þeirri þróun vegna þess að þeir þurfa miklu meira á slíkum tækjum og tólum að halda.

Síðan gerist það í fyrrahaust að boðaðar eru breytingar á reiknilíkani. Þá var nýbúið að setja niður starfshóp nr. 2 í endurskoðun reiknilíkans. Sá fyrri hafði verið leystur upp án tilkynningar um að hann væri ekki lengur starfandi. Þessi seinni hópur vann býsna lengi, komst að niðurstöðu og skilaði skýrslu, og í fjárlögum fyrir árið í ár var stigið fyrsta litla skrefið í því að koma til móts við tillögur þeirra. Nú í haust þegar fjárlagafrv. var lagt fram fyrir árið 2003 var boðuð meiri breyting í samræmi við niðurstöður þessa starfshóps.

Síðan gerist það þegar fulltrúar frá Félagi framhaldsskóla koma á fund fjárln. að einn þeirra sem sat í þessum starfshópi kannast ekkert við að verið sé að fara eftir tillögum starfshópsins nema að örlitlu leyti. Og ekki nóg með það heldur kemur fram að þessi seinni starfshópur hefur gufað upp á svipaðan hátt og sá fyrri, þ.e. honum hefur aldrei verið tilkynnt að hann hafi látið af störfum og það hefur aldrei verið formlega gengið frá endanlegum tillögum hópsins. Þær tillögur sem verið var að framkvæma kannaðist þessi fulltrúi úr starfshópnum ekki við að væru sameiginlegar tillögur starfshópsins þannig að það samráð sem haft var við stjórnendur framhaldsskólanna hafði gufað upp í annað sinn. Ráðuneytið hafði tekið endanlegar ákvarðanir sem út af fyrir sig er að sjálfsögðu ekki óeðlilegt en það var fyllilega gefið í skyn við okkur þegar fulltrúar menntmrn. komu á fund nefndarinnar að þetta væru tillögur sem væru í samræmi við sameiginlegar niðurstöður starfshópsins. Því miður reyndist svo ekki vera. Það rifjar auðvitað upp þá stöðu sem er nú um áramótin, hver áramótin á eftir öðrum gagnvart framhaldsskólunum, að þeir eru að stórum hluta til í mínus á fjárlögum gagnvart fjárheimildum, en á meðan er stór safnliður í ráðuneytinu sem stöðugt vex og enn eru gerðar tillögur um að láta hann vaxa, bæði í tillögum um breytingar á fjáraukalögum og enn á ný nú í tillögum meiri hlutans um breytingar á fjárlögum. Þessi liður sem var upp á 550 millj. kr. um síðustu áramót þegar halli framhaldsskólanna var eins og ég nefndi hér áður, er auðvitað að hluta til upp í þennan halla en ráðuneytið virðist nýta þennan safnlið til þess eins og sumir hafa nefnt að halda skólunum í gíslingu, þ.e. ráðuneytið virðist ekki deila út úr þessum safnlið eins og eðlilegt getur talist og á meðan er nær ógerlegt fyrir skólana að standa undir því nafni að þeir séu fjárhagslega sjálfstæðir. Í rauninni hefur þessi þróun því miður verið þannig að frá því að boðað var fjárhagslegt sjálfstæði þessara skóla að miðstýringin hefur aukist ef eitthvað er og þessi safnliður er m.a. notaður til að auka þá miðstýringu.

Það kom m.a. fram sem er býsna alvarlegur hlutur frá Félagi íslenskra framhaldsskóla þegar þeir komu á fund til fjárln. að því miður væri staðan þannig vegna viðvarandi og uppsafnaðs rekstrarhalla að skólarnir gætu ekki framkvæmt kjarasamning. Þetta er auðvitað þeim mun alvarlegra þegar haft er í huga að þessi kjarasamningur er ekki gerður af þeim aðilum sem þurfa að huga að þessu dagsdaglega. Þessi kjarasamningur er gerður miðstýrt, hann er gerður af fulltrúum fjmrn. þannig að fjmrn. ber að sjálfsögðu fulla ábyrgð á gerð þessara kjarasamninga og síðan er vísað út í stofnanirnar svokölluðum stofnanasamningum en þegar þangað er komið þá er ekkert fjármagn til til að verða við því sem þó er ákveðið í kjarasamningi að gera skuli. Þetta minnir okkur á það að stór hluti af þeim vanda sem í raun og veru er við að etja í stofnunum er kominn til vegna kjarasamninga sem flestir eru gerðir miðlægt, þ.e. yfirráðuneytið, fjmrn. í þessu tilfelli, gerir þessa samninga, ber ábyrgð á þeim en það skilar sér síðan ekki út í fjármagni til viðkomandi stofnana. Þess vegna tel ég, herra forseti, m.a. að menn hafi ekki framfylgt þeirri reglugerð sem sett var sem m.a. gerði ráð fyrir að forstöðumennirnir bæru ábyrgð á fjárhagsstöðu sinna stofnana. Þannig þarf það auðvitað að vera. Það er í raun og veru enginn annar sem getur borið ábyrgð á fjármálum stofnunarinnar en forstöðumaðurinn. En umhverfið verður þá að gera forstöðumanninum kleift að bera þá ábyrgð og það er ekki gert með þeim hætti sem við höfum horft upp á nú um býsna langt skeið m.a. í framhaldsskólum landsins en það á líka við í mun fleiri stofnunum.

Herra forseti. Ég minntist áðan á að hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson hefði í ræðu sinni komið örlítið inn á þá vinnu sem unnin er í fjárln. og í öðrum nefndum þingsins. Það var rétt hjá hv. þm. að sá tími sem gafst til í örstuttu andsvari sem við áttum í morgun gaf ekki tilefni til þess að svara því ítarlega en hv. þm. gaf ýmislegt í skyn sem mátti skilja á ýmsan hátt og ég held að óhjákvæmilegt sé að óska eftir því við hv. þm. að hann komi aftur upp í ræðustól og fari nánar yfir þá þætti. Ég ýjaði að því og hafði tvær óskir í raun og veru frammi, að skilningur minn á þeim orðum sem hv. þm. lét falla væri sá að hv. þm. væri að taka undir með mér og fleiri þingmönnum og Ríkisendurskoðun um það að því miður virtist rammafjárlagakerfið ekki duga lengur en fram að því að fjárlög eru lögð fram fyrir hvert ár. Þegar þau eru lögð fram í þinginu hefur manni sýnst að rammarnir væru úr sögunni. Nú geta auðvitað ýmsar skýringar verið á því af hverju rammarnir hverfa þegar fjárlagafrv. hefur verið lagt fram. Skýringin getur m.a. verið sú að stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um rammana sé í raun allt of þröng, þ.e. að ekki sé möguleiki að halda sig innan þeirra. Þá þarf það auðvitað að upplýsast. Þá er það auðvitað ógerningur fyrir fjárln. og þær nefndir þingsins sem koma að málinu að halda sig innan rammanna. Þá er líka alveg ljóst hvar sökin liggur og ég freistast til þess að áætla að a.m.k. hluti málsins liggi þar. Ég hef í annarri ræðu reynt að færa rök fyrir því að í raun og veru sé það ríkisstjórnin sjálf sem brjóti þessa ramma niður með vinnubrögðum sínum og það er auðvitað ekki hægt að ætlast til þess ef ríkisstjórnin sjálf fer ekki eftir stefnumótun sinni í fjárlagagerðinni að fjárln. eða ýmsir aðrir geri það því að ábyrgðin er hjá ríkisstjórninni. Hún leggur og ákveður þessa ramma og það er auðvitað hennar að halda þá út alla leið.

[15:45]

Þetta hefur óhjákvæmilega þær afleiðingar í för með sér að það skortir um leið allan aga í þetta kerfi. Og meðan slíkt agaleysi er munum við sitja uppi með svipaðan vanda og við sjáum í endurskoðuðum ríkisreikningi fyrir árið 2001, þ.e. uppsafnaðan vanda á víð og dreif í kerfinu, uppsafnaðan vanda sem því miður virðist ekki vera tekið á. Af hvaða ástæðu þori ég ekki að fullyrða en því miður held ég að það hljóti að vera merki um ákveðið getuleysi að ár eftir ár skuli ekki vera tekið á þessum vanda. Ár eftir ár, þrátt fyrir að hingað í ræðustól komi ýmsir þingmenn úr meiri hluta fjárln. og jafnvel ýmsir hæstv. ráðherrar og telji að nú þurfi að gera bragarbót á.

Ég heyrði að hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson boðaði enn á ný, og gaf um það loforð að því er mátti skilja, að nú yrði heldur betur tekið til hendinni eftir áramót. Nú skyldi lagður grunnur að því að það yrðu gjörbreytt vinnubrögð. En, herra forseti, ef minni mitt er ekki þeim mun verra þá man ég ekki betur en hv. þm. hafi látið nokkur orð í svipaða átt falla fyrir um ári, þ.e. að eftir áramótin 2001--2002 ætti að gera slíkt hið sama. Nú er liðið ár frá því að þau orð féllu og enn falla orð í svipaða átt og vonum við að nú verði við þau staðið. Ég efa það ekki að ekki skortir áhuga hv. þm. til að breyta þessum vinnubrögðum en því miður held ég að þann áhuga skorti þá einhvers staðar annars staðar því að ekkert hefur orðið úr efndunum. Ég vil skora á hv. þm. að útskýra það fyrir þingheimi hvernig á því standi að ekkert hafi orðið úr hinum fögru fyrirheitum sem gefin voru fyrir ári.

Herra forseti. Það er fleira sem komið hefur fram hér í dag og kom fram hjá hv. formanni fjárln. Það er þó aðeins eitt atriði til viðbótar úr ræðu hans sem ég vildi nefna. Hv. þm. talaði um að jafnvægi yrði í ríkisrekstrinum á næsta ári miðað við þær tillögur sem fyrir lægju. Fyrir liggur að þær brtt. sem nú hafa komið fram munu orsaka það að halli upp á u.þ.b. 2 milljarða verður af reglulegum rekstri ríkissjóðs, þegar við tökum út fyrir sviga sölu ríkiseigna. Þess vegna hlýtur það að felast í orðum hv. þm. að von sé á einhverjum tillögum um auknar tekjur ríkissjóðs eða sparnaðartillögur við 3. umr.

Nú er staðan hins vegar þannig í samfélaginu að því miður er samdráttur, það er slaki í efnahagslífinu eftir hina miklu ofþenslu sem skapaðist hér af ástæðum sem menn hafa nokkuð rætt á undanförnum árum og ætti að vera óþarfi að rifja upp. En afleiðingarnar eru að koma fram, m.a. í þessum slaka, og þess vegna er ekkert sem bendir til þess að tekjur ættu að fara að aukast nú á síðustu mánuðunum. Ég velti því þess vegna fyrir mér, og fróðlegt væri ef hv. þm. gæti útskýrt það fyrir okkur, hvað það er sem bendir til þess að nást eigi jafnvægi í þessum hlutum þegar málið kemur til 3. umr.

Þetta kallar auðvitað á það, þegar maður ræðir um samdráttinn, að rifja upp þá skelfilegustu hlið sem við virðumst því miður vera að sigla æ hraðar inn í, þ.e. aukið atvinnuleysi, sem er auðvitað afleiðing af þessum samdrætti. Og það er eitt af því sem við tökum eftir þegar við skoðum þær áætlanir sem liggja fyrir um þróun næsta árs, að þar er helst munur á áætlunum. Það munar, ef ég man rétt, um 1% á spá fjmrn. og Seðlabankans, þ.e. Seðlabankinn óttast að atvinnuleysi verði um 1% meira heldur en fjmrn. gerir ráð fyrir. Við skulum vona að báðum stofnunum skjátlist í þeim efnum og atvinnuleysi verði enn minna en spáð er. En því miður eru þetta horfurnar ef ekkert verður að gert og ég endurtek því spurningu mína til hv. þm.: Hvað er það í huga hans sem bendir til þess að tekjur ríkissjóðs eigi að aukast fram að áramótum frá því sem áður var gert ráð fyrir?

Herra forseti. Ég mun í lok ræðu minnar að þessu sinni fara yfir þær brtt. sem við í 1. minni hluta fjárln. leggjum fram við 2. umr. Áður en ég fer í að útskýra einstakar tillögur er hins vegar rétt að láta það koma fram að við munum að sjálfsögðu við 3. umr. koma með tekju- og sparnaðartillögur á móti öllum þeim útgjöldum sem við gerum hér tillögur um. Þetta höfum við gert sl. þrjú ár og munum halda því áfram. Það er ekki síst það að þetta eru táknrænar tillögur um hvað við viljum leggja sérstaka áherslu á en gerum okkur fyllilega grein fyrir að það er auðvitað ekki hægt í einu vetfangi að bæta allan þann vanda sem bæta þyrfti í hinu opinbera kerfi.

Við teljum líka að það sé skylda okkar að skila slíkum tillögum í jafnvægi vegna þess að við teljum að ekki eigi að auka halla ríkissjóðs þó svo að vissulega geti það árferði orðið á næsta ári að það gæti verið réttlætanlegt vegna þess að við viljum auðvitað gera allt til þess að vinna gegn þeim samdrætti sem því miður blasir við. En eins og kom fram í ræðu hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar þá er sem betur fer gert ráð fyrir að ýmsar framkvæmdir muni fara í gang á næsta ári sem væntanlega mun keyra okkur algjörlega út úr því ástandi sem við því miður stefnum hraðbyr í ef ekki verður af. Vonandi tekst það sem allra best og við náum þannig að snúa við því ástandi sem við okkur blasir og síðan verði sá tími sem þær aðgerðir skapa okkur nýttur til þess að við lendum ekki í svipuðum aðstæðum og við gætum lent í ef þær framkvæmdir fara ekki í gang.

Þetta var, herra forseti, nauðsynlegur inngangur að þeim brtt. sem ég ætla nú að fara yfir. Þetta eru eingöngu breytingar á sundurliðun 2.

Fyrsta brtt. gengur út á það að hér við þessa ágætu stofnun okkar verði komið upp deild sem við höfum leyft okkur í tillögu okkar að kalla hagdeild, þ.e. komið verði á fót hagdeild Alþingis. Ástæðan fyrir því að við teljum nauðsynlegt að koma þessari deild á er sú, eins og oft hefur komið fram í umræðum, að Þjóðhagsstofnun var lögð niður á þessu ári og síðan hefur verið miklum mun erfiðara fyrir einstaka nefndarmenn, t.d. í fjárln. og efh.- og viðskn., að sækja eftir hlutlausum úttektum á ýmsum hlutum, og þetta teljum við að mundi bæta mjög slíka upplýsingaleit.

Í þessu samhengi má auðvitað minna á að þegar umræðan átti sér stað um að leggja niður Þjóðhagsstofnun var það rætt nokkuð að hugsanlegt væri að tryggja á annan hátt aðgang t.d. þingmanna að slíkri vinnu og gefið undir fótinn með að hugsanlegt væri að gera það á þann hátt að Alþingi fengi til þess einhverja fjármuni.

Það verður eiginlega að líta á þessa tillögu okkar, sem gerir ráð fyrir að settar verði í þetta 10 milljónir, í samhengi við tillögu sem er á þskj. merkt tölulið 2, sem er þá liðurinn 01-190, Ýmis verkefni, undir forsrn. þar sem einn liðurinn, 1.19., heitir Efnahagsrannsóknir. Við gerum sem sagt tillögu um að sá liður, sem er samkvæmt fjárlögunum upp á 40 millj. kr., verði skorinn niður um 10 milljónir og verði 30 milljónir. Þetta er raunverulega tilfærsla þar sem við gerum ráð fyrir að þær 10 milljónir sem forsrn. hefur ætlað sér til efnahagsrannsókna verði færðar til Alþingis.

Þetta kom örlítið til umræðu við 1. umr. um fjárlög og hæstv. fjmrh. orðaði það einhvern veginn á þá leið að það væri vissulega til skoðunar hvernig þessum fjármunum eða slíkri þjónustu yrði fyrir komið. Og hér er bent á leið til þess að koma þessu þannig fyrir að þingmenn hafi að þessu eðlilegan aðgang.

Þær 30 milljónir sem eru þarna eftir eru hins vegar skilgreindar sem framlag frá forsrn. til Alþýðusambands Íslands til þessara þátta og það látum við ósnert en gerum tillögu um að 10 milljónir verði þarna færðar á milli.

Þriðja tillaga okkar fjallar um framhaldsskóla. Ég gerði það nokkuð að umræðuefni í ræðu minni fyrr að staða þeirra væri orðin vægast sagt mjög ískyggileg og nauðsynlegt væri að grípa þar til aðgerða. Því miður er það þannig, m.a. vegna þess að við sem sitjum í minni hluta fjárln. höfum ekki sama aðgang að upplýsingum og ýmsir aðrir, ég veit ekki hvort meiri hluti fjárln. hefur þær upplýsingar heldur, en við höfum auðvitað upplýsingarnar sem koma fram um stöðu þessara mála í lok árs 2001, og síðan með því að glugga í tölur og þær upplýsingar sem við höfum haft aðgang að, þá sýnist okkur að þær 800 milljónir sem við gerum ráð fyrir að verði bætt inn á framhaldsskólana eigi að duga til þess að rétta við þann halla sem þar er til staðar. Þess vegna hljóðar tillaga okkar varðandi framhaldsskóla óskipt upp á það að þar verði bætt inn 800 milljónum og það verði sérstaklega eyrnamerkt til að yfir þessi mál verði farið og framhaldsskólunum verði komið á réttan kjöl.

Herra forseti. Það er síðan önnur tillaga undir 3. tölulið sem fjallar um sérstakan framhaldsskóla á Snæfellsnesi. Þar gerum við tillögu um 8 millj. kr. til undirbúnings þess verkefnis. Ljóst er að sá undirbúningur er kominn nokkuð á veg og einnig er ljóst að þetta er væntanlega næsti framhaldsskóli á landinu. Það hefði verið hægt að gera tillögu þarna um mun hærri upphæð og gera ráð fyrir því að sá skóli hefji störf strax næsta haust. Að okkar mati er það því miður óraunhæft á þessu stigi málsins af þeirri einföldu ástæðu að ráðuneytið virðist ekki vera í stakk búið til þess að stíga það skref sem nauðsynlegt er til að slíkt geti orðið. Þess vegna þurfum við að undirbúa málið betur því að það er augljóst mál að undirbúningurinn m.a. í ráðuneytinu er ekki til staðar. Og þess vegna er tillaga okkar sú að veittar verði 8 millj. kr. til að tryggja það að þessi undirbúningur eigi sér stað.

Næst er þá 4. tölul. sem er Ýmis verkefni undir liðnum 06-190, og hann höfum við nefnt Efling almennrar löggæslu, en gífurlegur fjöldi erinda hefur komið fram varðandi það að efla almenna löggæslu mjög víða um land, jafnt á höfuðborgarsvæðinu sem úti um land. Þetta er sú leið sem við höfum valið til þess að vekja athygli á því að þarna er nauðsynlegt að gert verði ákveðið átak. Þar gerum við tillögu um 150 millj. kr.

Síðan erum við þá í 5. tölulið komin að liðnum 07-205 Leiguíbúðir, en þar er tillaga okkar um sérstakt átak í uppbyggingu leiguíbúða og þar gerum við ráð fyrir að 150 milljónir þurfi til að mæta þeirri þörf sem sannarlega er fyrir hendi því að nú liggur fyrir biðlisti upp á um tvö þúsund íbúðir. Það er að vísu í gangi ákveðið átak á vegum ráðuneytisins í þeim efnum en þar er því miður lítil hreyfing. Þetta er áætlun um 400 íbúðir á ári og lánin verða á 3,5% vöxtum. En svo virðist sem það henti ekki þeim hópum sem þetta er hugsað fyrir og því viljum við ganga örlítið lengra og breyta þessum 400 íbúðum í 600 og lækka vextina úr 3,5% í 1% þannig að við gerum þá ráð fyrir að á fjórum árum, sem þýddu þá 2.400 íbúðir, væri hægt að mæta þessari þörf að fullu og þar með leysa þann mikla vanda sem ýmsir hópar sem þarna eiga í hlut eiga við að etja. Um leið mundi að sjálfsögðu komast jafnvægi á leigumarkaðinn og leiga yrði um leið mun viðráðanlegri fyrir alla þá sem þurfa að nýta sér þann kostinn.

Þá erum við komin að 6. tölulið í brtt. okkar og er það 07-984 Atvinnuleysistryggingasjóður. Þar gerum við tillögu um hækkun atvinnuleysisbóta til samræmis við launavísitölu og samkomulag Landssambands eldri borgara og ríkisstjórnar, þ.e. að atvinnuleysisbætur verði hækkaðar til samræmis við launavísitölu og samkomulag Landssambands eldri borgara og ríkisstjórnarinnar. Þetta hefur verið reiknað að kosti um 190 millj. kr.

Undir 7. tölulið er brtt. við liðinn 08-204 Lífeyristryggingar, og það er að hluta til til samræmis við það sem ég ræddi um varðandi atvinnuleysisbæturnar, þ.e. hækkun lífeyrisgreiðslna og félagslegra bóta í samræmi við launavísitölu þannig að tryggt sé að þeir sem njóta þessara bóta fái sömu hækkun og almennt hefur orðið á launum. Þá er ekki verið að tala um sérstakt launaskrið eða hækkun ákveðinna hópa umfram aðra heldur eingöngu hina almennu launavísitölu. Reiknað hefur verið út að þetta muni kosta um 300 millj. kr. og tillaga okkar hljóðar upp á þá upphæð.

[16:00]

8. tölul. er breyting við 08-358 Fjórðungssjúkrahúsið Akureyri. Þar gerum við tillögu um 360 millj. kr. hækkun til sjúkrahússins. Þessi liður er táknrænn fyrir það að við teljum ótækt að gert sé upp á milli hinna svokölluðu stóru sjúkrahúsa. Þarna hefði að vísu verið hægt að fara í mun fleiri stofnanir en við teljum nauðsynlegt að vekja athygli á því á táknrænan hátt að það hefur verið komið til móts við Landspítala -- háskólasjúkrahús en Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, sem á margan hátt er hliðstæð stofnun þó ekki sé að öllu leyti, hefur verið skilið eftir. Við teljum að koma eigi til móts við þá stöðu sem þar er.

Þá er ég kominn að 9. tölulið, breytingu við liðinn 08-501 Sjúkraflutningar. Þar gerum við tillögu um 15 millj. kr. framlag. Það skýrist af því að á um sex stöðum á landinu, miðað við okkar upplýsingar, er sú staða uppi að í sjúkraflutningum er aðeins einn maður tiltækur, þ.e. sá sem bílnum ekur sem verður að sjá um alla þætti sjúkraflutninganna. Þetta er að sjálfsögðu algerlega óviðunandi. Í sumum tilfellum þarf viðkomandi að sækja aðstoð til þeirra manna sem til næst á staðnum eða taka með sér lækni, t.d. á heilsugæslustöð, til að sækja sjúklinginn og það þýðir þá að stöðin er læknislaus á meðan. Þetta eru eins og ég sagði áðan algerlega óviðunandi aðstæður. Við gerum hér tillögu um að úr þessu verði bætt.

Í 10. tölul. er síðan breyting við liðinn 09-250 Innheimtukostnaður, 1.21 Hert skatteftirlit. Þarna leggjum við til að 100 millj. kr. verði lagðar í hert skatteftirlit. Við gerum auðvitað ráð fyrir því að það muni koma fram, og við komum með tillögur um það við 3. umr., hversu miklum tekjum það muni skila til baka. Það hefur margoft verið reiknað út að það að efla skatteftirlit á ýmsum sviðum skili sér margfalt í auknum tekjum með betri skilum þeirra skatta sem eftirlitið er haft með.

Þá er komið að 11. tölul., breytingu við liðinn 09-811 Barnabætur. Við gerum tillögu um að sá liður, 1.11 Barnabætur, verði hækkaður um 1 milljarð og 386 millj. kr., þ.e. að þarna verði sú breyting gerð að barnabætur verði ótekjutengdar frá 7--16 ára einnig, ekki bara upp að 7 ára aldri. Þannig yrði ekki gerður greinarmunur á aldri barna í þessu tilliti.

Herra forseti. Ég er kominn að síðasta töluliðnum, 12. tölul., breytingum við liðinn 10-211 Vegagerðin, 5.12 Öryggisaðgerðir. Þar leggjum við til að 100 millj. kr. verði settar í sérstakar aðgerðir. Nú er að vísu ákveðin upphæð í þessa veru hjá Vegagerðinni, þ.e. til að bæta öryggi á vegum. Þessu er ætlað að flýta framkvæmd þeirrar áætlunar sem til er hjá Vegagerðinni um að gera úrbætur á svokölluðum svörtum blettum, þ.e. þeim stöðum á þjóðvegum okkar þar sem slys eru tíðust. Þessi áætlun er til í Vegagerðinni og það hefur margoft verið sýnt fram á að þeir peningar sem fara til þessara þátta skila sér margfalt í auknum sparnaði og minni slysatíðni.

Herra forseti. Ég hef þá lokið að gera grein fyrir brtt. 1. minni hluta fjárln. sem í eru auk mín hv. þm. Margrét Frímannsdóttir og Gísli S. Einarsson.