Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 16:11:05 (1782)

2002-11-27 16:11:05# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[16:11]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað rétt hjá hv. þm. að í ræðu minni kom ég víða við og erfitt að fjalla um allt það svið í stuttu andsvari.

Varðandi rammana og ábyrgð ríkisstjórnarinnar vil ég segja að það er hárrétt hjá hv. þm., að sú ábyrgð verður aldrei af ríkisstjórninni tekin. Ríkisstjórnin ber ábyrgð á fjárlagafrv. og síðan er frv. sem slíku komið í hendur þingsins og eftir það er það þingsins að fjalla um það. Hins vegar skildi ég þetta svo að hv. þm. væri að benda á að ekki væri óeðlilegt að bæta upplýsingastreymi á milli aðila við gerð fjárlagafrv. Þar eru auðvitað ýmsar upplýsingar nýttar um stöðu stofnana og horfur sem gæti verið gott að fjárln. kæmi að.

Nú er eðlilega meira samstarf fulltrúa meiri hlutans við ráðuneytið í fjárlagagerðinni en nokkurn tíma við minni hlutann. Það er auðvitað spurning hvort breyta ætti þeim vinnubrögðum þannig að hugsanlega kæmi einhver undirnefnd nefndarinnar að þessu og ekki eingöngu fulltrúar frá meiri hlutanum sem þar sætu. Það er vissulega mikill aðstöðumunur milli fjárlaganefndarmanna eftir því hvort þeir eru í meiri hluta eða minni hluta. Upplýsingastreymið gæti þróast út í að við gætum fylgst betur með eins og meiri hluti fjárln. lagði til árið 1999. Ég held að það væri býsna mikilvægt að farið yrði í þá vinnu að velta fyrir sér hvort fjárln. og fjmrn. gætu ekki komi sér saman um vinnulag í þessu sambandi. Þessar upplýsingar gengju þannig mun betur á milli.

Hv. þm. kom reyndar örlítið inn á það sem hann hafði ekki tíma til þess að fjalla um, þ.e. samstarf við aðrar nefndir. Hann sagði hins vegar að það hefði mistekist. Í því sambandi vil ég aðeins segja að það getur ekki annað en mistekist þegar ekki er betur staðið að þeim hugmyndum sem við vinnum eftir, þá á ég við rammafjárlögin sem slík.