Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 18:15:46 (1788)

2002-11-27 18:15:46# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[18:15]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. rangtúlkar orð mín vísvitandi. Ég hóf mál mitt á því að segja að ekkert væri athugavert við það setja mikla fjármuni til safnastarfsemi á Íslandi og ég tók mjög vel utan um það. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að standa myndarlega við bakið á söfnunum okkar úti um allt land. Ég geri mér fulla grein fyrir að Þjóðminjasafnið á í mjög góðu samstarfi við söfn víða um landið og ég ber hag allra þessara safna mjög fyrir brjósti, þannig að hv. þm. má ekki gera mér upp skoðanir í þessum efnum.

Ég krefst þess hins vegar að úthlutunin til safna sé á faglegum grunni. Og meðan safnamenn óska eftir auknum fjármunum í safnasjóðinn, sem er hinn löglegi farvegur fyrir fjárveitingar til safnamála, og þær fjárveitingar sem safnamenn eru að biðja um í safnasjóðinn fást ekki, eru fjárlaganefndarmenn á sama tíma að úthluta tugum og jafnvel hundruðum milljóna til safnamála fram hjá hinni faglegu úthlutun sem við þó höfum í nýjum safnalögum sameinast um að eigi að vera í gildi í landinu. Hv. þm. er því að fara með rangt mál og gera mér upp skoðanir í andsvari sínu og ég mótmæli því. Við deilum áhuga varðandi söfnin en ég vil að staðið sé faglega að málum og að tilviljanakennd úthlutunarstefna fjárln. verði þess vegna aflögð. (Gripið fram í: Hvað um 3,3 milljarðana?)