Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 18:40:17 (1796)

2002-11-27 18:40:17# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[18:40]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er þá komið á daginn að við hv. þm. Ásta Möller erum sammála um að lækkun vaxta sé einhver besta kjarabót sem hægt væri að fá á Íslandi. En því hefur svo sannarlega ekki verið til að dreifa. Það var búið að hækka vexti algjörlega út yfir öll skynsamleg mörk í fyrra. Þegar Seðlabankinn hefur svo lækkað sína vexti smám saman, um hálft prósent í hvert sinn, hafa bankarnir lækkað hjá sér um sömu upphæð. Það hefur ekki verið tekið á því sem þarna ber á milli. Fyrir þetta líða fjölskyldur í landinu. Fjöldamargir tóku jú ákvarðanir á röngum grunni. Það er alveg rétt.

Það hefur auðvitað haft áhrif að atvinnuleysi hefur tvöfaldast eða meir frá sl. ári, og þó sérstaklega hefur stórlega dregið úr yfirborgunum sem áður tíðkuðust hér fyrir tveim, þrem árum. Fjöldamargir gerðu framtíðaráætlanir út frá röngum grunni og eru nú að súpa seyðið af því. Það er gríðarleg hrota núna af nauðungarsölum og það er afleiðing af þessu. Það ber ekki merki um neitt sérstakt góðæri í þjóðfélaginu að mínum dómi þegar annar hver maður er með húsið sitt á uppboði.