Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 18:43:56 (1798)

2002-11-27 18:43:56# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[18:43]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Við erum nú hér í 2. umr. um fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2003. Hér hefur margt áhugavert komið fram og athyglisvert. Sem betur fer hefur þjóðarskútan náð að sigla nokkuð vel út úr þeim brimgörðum sem fram undan voru fyrir tveim, þrem árum og allt farið í raun og veru á betri veg. En ég er hrædd um að ef farið yrði í saumana á hverjum lið gæti hæstv. ríkisstjórn ekki eignað sér alla þá þætti sem vel hafa farið. Margir utanaðkomandi þættir hafa haft áhrif á að svo vel hefur farið og án afskipta hæstv. ríkisstjórnar.

[18:45]

Auðvitað ber okkur öllum að fagna því að staðan er þó svo góð sem hún er í dag. Hún er samt sem áður mjög óljós og ótrygg. Fjárlagafrv. tekur ekki mið af stóriðjuframkvæmdum sem væntingar ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans á Alþingi standa til að fari í gang hið fyrsta á nýju ári, þ.e. stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi og virkjanaframkvæmdir.

Í máli hv. þm., formanns fjárln., Ólafs Arnar Haraldssonar, kom fram að í raun væri sama hvort stóriðjuframkvæmdirnar færu í gang eða ekki, þær mundu alltaf hafa mikil áhrif á fjárlög og ríkisrekstur næsta árs. Ef ekkert yrði af þessum framkvæmdum þyrfti sannarlega eitthvað annað að koma til og það hefur hæstv. ríkisstjórn ekki undirbúið. Hún hefur ekkert annað uppi í erminni til að koma nýju lífi í atvinnulífið. Það er engin varaáætlun í gangi, verði ekki af þessum stórframkvæmdum. Svo miklar heitstrengingar hafa verið hafðar á lofti um að koma þessum framkvæmdum í gang að áætlun B hefur ekki verið sett upp. Verði ekki af þessum framkvæmdum þarf því sannarlega að glæða efnahagslífið, koma nýrri innspýtingu í atvinnulífið strax á næsta ári.

Verði hins vegar af þessum framkvæmdum þarf líka að bretta upp ermarnar. Þá þarf aftur að hækka vexti og enn að endurskoða allar framkvæmdaáætlanir og forsendur fjárlagafrv. sem við fjöllum um núna. Þá þarf að draga úr opinberum framkvæmdum. Það bara liggur þannig. Þess vegna er fjárlagafrv. sem við erum að fjalla um núna mjög valt. Eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir benti á er auk þess eftir að vinna heilmikla vinnu ef af þessum framkvæmdum verður. Það hefur t.d. ekki verið gert neitt áhættumat. Staðan er mjög óljós að því leyti.

En nú liggja fyrir breytingar á fjárlagafrv. eins og það var kynnt sem langflestar eru til hækkunar. Hækkunin er upp á rúma 6 milljarða með þeim aðgerðum sem kynntar hafa verið í sambandi við samkomulag ríkisstjórnarinnar og samtaka aldraðra. Þetta eru hækkanir sem meiri hluti fjárln. hefur lagt fram í verkefni sem öll eru meira og minna góð og gegn. En það verður að segjast um fjáraukalagafrv. sem við ræddum í gær og afgreiddum til 3. umr. í morgun, að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð og aðrir þingfulltrúar minni hlutans vöruðu við þessu við umræðu um fjárlagafrv. í fyrra. Þá var fjallað um nær alla þessa liði, að fjármagn til rekstrar margra stofnana væri vanáætlað á þessu ári. Þá var varað við að vænáætluð fjárlög væu mjög nálægt þeim upphæðum sem eru í fjáraukalagafrv. sem hér var verið að samþykkja. Varnaðarorð okkar voru orð í tíma töluð en því miður var ekki hlustað á þau.

Hið sama mun eiga við um þær tillögur sem við þingmenn VG leggjum hér fram. Þær eru margar hverjar komnar til vegna þess að við sjáum að rekstur þeirra stofnana sem við erum að leggja til að fái hærri framlög muni sigla í strand, sé þegar kominn í óefni og þær muni verða að draga úr starfsemi sinni. Það á við um heilbrigðisstofnanir líka, einkum úti á landi. Þetta mun verða ef framlög bæði á fjáraukalögunum og sérstaklega í þessu frv. til fjárlaga 2003 verða ekki hækkuð.

Herra forseti. Fjárlagafrumvörp endurspegla áherslur og pólitíska stefnu hverrar ríkisstjórnar. Núverandi meiri hluti hefur haft góðan tíma til að festa í sessi ójöfnuð í kjörum fólks og milli landshluta, dreifbýlis og höfuðborgarsvæðis. Bilið milli ríkra og fátækra breikkar stöðugt. Þeir ríku verða ríkari og æ fleiri festast í fátæktargildru eða lifa við kröpp kjör. Skattstefna hæstv. ríkisstjórnar hefur undirstrikað vilja meiri hlutans og eins þær áherslur sem birtast í fjárlagafrv., þ.e. áherslur sem draga úr jöfnuði hér á landi.

Sem dæmi má nefna aldraða og öryrkja sem nýlega hafa fengið nokkra leiðréttingu á sínum kjörum. Því ber að fagna að hæstv. ríkisstjórn hefur viðurkennt að á þeirra rétt hafi verið gengið. En þrátt fyrir þessar leiðréttingar þá stendur eftir að ráðast að rót vandans, þ.e. hækka grunnlífeyri bæði öryrkja og eldri borgara. Grunnlífeyririnn hefur auk þess ekki hækkað í samræmi við launavísitölu.

Skattleysismörkin eru of lág. Það verður að hækka þau svo að þeir sem fá eingöngu lífeyri til framfærslu greiði ekki skatt af lífeyri, sem er í dag langt undir framfærslumörkum. Breytingar eins og hækkun á skattleysismörkum koma ekki fram í fjárlagafrv.

Annað dæmi má nefna. Hinar dreifðu byggðir eða landsbyggðin öll fer varhluta af metnaðarfullri byggðaáætlun. Það er langt í land með að jöfnuður ríki á milli landsbyggðar og þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Það kemur fram í frv. að atvinnuþróunarfélögin eru áfram svelt. Þeirra bíða mörg og mikilvæg verkefni. Það er staðreynd, herra forseti, og hefur sýnt sig í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við, að líklegast er að menn nái árangri við að styrkja byggðirnar með því að virkja félög eins og atvinnuþróunarfélögin, styrkja menntun á svæðinu og styðja íbúana til að nýta þekkingu sína og krafta til að vinna úr þeim gæðum sem verða til á viðkomandi svæðum.

Það vantar einnig stuðning við ný og smá fyrirtæki og skilning á því að til þess að efla og glæða atvinnulíf úti um allt land þá þurfa stór og smá fyrirtæki að komast í lánsfjármagn á viðhlítandi kjörum, með hagstæðum vöxtum og til langs tíma. Þetta á sérstaklega við um smá og meðalstór fyrirtæki og nýsprotafyrirtæki.

Því hefur verið lýst hér í ræðum hv. þingmanna að framhaldsskólarnir eru sveltir. Þeir eiga í miklum rekstrarvanda í dag. Það þýðir ekki að tala um að menntun sé undirstaða velferðar í landinu ef staðið er þannig að framhaldsskólunum að þeir eigi í erfiðleikum í rekstri og verði að kenna námsgreinar á ódýrum námsbrautum. Þannig verður menntun í landinu einhæf, þ.e. ef þeir velja sér þær greinar sem eru skólunum ódýrar og hlífa sér við því að taka inn listgreinar eða að efla iðnmenntun sem er á allan hátt dýrari.

Að lokum má nefna að heilbrigðisstofnanir um allt land eiga í miklum vanda. Þessar stofnanir reyna að halda í horfinu. Þær reyna að takmarka sumarlokanir og halda uppi þeirri þjónustu sem veitt er í dag. En því miður er ekki útlit fyrir að það muni ganga lengi enn. Gripið hefur verið til þess ráðs að loka deildum og takmarka þjónustuna yfir sumartímann. Fæðingarþjónustan er meira og minna að færast frá hinum dreifðu heilbrigðisstofnunum og inn á hinar stærri þjónustustofnanir, t.d. Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og flestar konur fara svo hingað suður. Þetta er þvert á eðlilega þjónustu og í raun heilbrigða skynsemi ef um eðlilegar fæðingar er að ræða.

Herra forseti. Auk þessa má nefna að vegna hins mikla álags sem er á heilbrigðisstarfsfólki, ekki síst á heilbrigðisstofnunum úti um land, einkum læknum sem verða að taka á sig mikla vaktaþjónustu og álög vegna hvíldarálaga, er það farið að lýjast undan álaginu. Það líður örugglega ekki á löngu þar til fara þarf í verulegt átak til að endurreisa heilsugæsluna um allt land, eins og hún var þó burðug á sínum tíma. Við gátum verið stolt af því áður hvernig staðið var að uppbyggingu hennar.

Herra forseti. Það er svo sem hægt að berja sér á brjóst og bera sig vel yfir fjárlögum sem byggja að hluta til á sölu ríkisstofnana. En hver stofnun verður ekki seld nema einu sinni. Ef hæstv. ríkisstjórn verður áfram við lýði má, með þeim hraða sem hefur verið á sölu og einkavæðingu ríkisstofnana, varla búast við að nokkur ríkisrekin stofnun verði óskert eftir, sama hversu mikilvæg hún kann að vera þeirri grunnþjónustu sem við treystum á í dag.

Stofnanir eins og Landspítalinn -- háskólasjúkrahús eru ekki einu sinni óhultar. Þar er horft til einstakra rekstrarliða og eininga sem hugsanlega væri hægt að koma yfir í einkarekstur eins og hv. þm. Ásta Möller nefndi fyrir skömmu í viðtali. Hún sagði að hún teldi rétt að koma glasafrjóvgunardeild Landspítalans yfir í einkarekstur. Ætli megi þá ekki tína fleiri deildir til?

[19:00]

Hvað varðar stöðu ríkissjóðs má minna á stöðu heimilanna. Þau eru skuldsett og eiga í erfiðleikum, mörg hver, og fjölskyldur reyna að láta enda ná saman um hver mánaðamót. Það gengur ekki hjá öllum. Þó að fólk og fjölskyldur leiti ekki eftir fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna bregða margar fjölskyldur á það ráð að mennta ekki börnin sín, senda þau ekki í framhaldsskóla, draga úr neyslu, fara ekki út að skemmta sér heldur herða bara sultarólina fastar. Það er margt sem kemur á undan sem hefur meiri forgang en að létta sér lund og fara út að skemmta sér. Það eru margar fjölskyldur sem verða hreinlega að neita sér um allt nema brýnustu nauðsynjar.

Herra forseti. Ég ætla að tala hér fyrir nokkrum brtt. sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs lögðu fram. Ég ætla þá fyrst að taka fyrir brtt. á þskj. 483 sem hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson leggur hér fram með mér. Á þeirri brtt. eru framlög til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga, Heilbrigðisstofnunar Austurlands og Byggðastofnunar. Áður en ég geri grein fyrir hvers vegna við tökum út þessar stofnanir mun ég byrja á því að vitna í álit hv. heilbr.- og trn., álit sem hún sendi fjárln. sem vísbendingu um álit sitt á vinnubrögðunum vegna komandi fjárlagagerðar.

Hér segir á einum stað, með leyfi forseta:

,,Nefndin vill leggja áherslu á að sýnt verði aðhald í rekstri heilbrigðiskerfisins og minnir á mikilvægi þess að heilsugæslan í landinu sé öflug og hæf til að sinna þörfum sjúklinga.``

Herra forseti. Því miður, eins og hér hefur verið margtekið fram, er þetta ekki þannig í dag og þetta á sérstaklega við um heilsugæsluna í Reykjavík. Rík áhersla er lögð á að staðið verði myndarlega að uppbyggingu heilsugæslunnar í Reykjavík, aukið þar við stöðugildum og framlagi til heilsugæslunnar og að unnið verði samkvæmt heilbrigðisáætlun sem gildir til ársins 2010.

Ég ætla að fá að grípa hér aftur niður í nál., með leyfi forseta:

,,Nefndin ræddi mál geðfatlaðra sem hafa gerst brotlegir við lög og skort á úrræðum í málefnum þeirra. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að tekið verði á þessum vanda þar sem ekki er gert ráð fyrir sérstökum fjárveitingum til málsins. Nefndin telur mikilvægt að raunveruleg úrræði finnist fyrir þessa einstaklinga og bendir á nauðsyn þess að efla starfsemi réttargeðdeildarinnar að Sogni þannig að henni sé gert kleift að taka á móti sakhæfum jafnt sem ósakhæfum einstaklingum.``

Við þessari beiðni eða ábendingu nefndarinnar hefur ekki verið orðið. Ég vísa því áfram þessum ábendingum nefndarinnar um að taka þetta til afgreiðslu við 3. umr. Það er mikil þörf á því að gera sakhæfum sakborningum kleift að fá viðhlítandi meðferð ekki síður en ósakhæfum á annan hátt en að sitja í fangelsi.

Enn fremur segir hér:

,,Nefndin ítrekar nauðsyn þess að nægt rekstrarfé fáist til þess að Landspítali -- háskólasjúkrahús geti sinnt mikilvægu hlutverki sínu. Þá telur nefndin að endurskoða verði rekstrargrunn sjúkrahúsa og leiðrétta hann. Telur nefndin jafnframt að ekki sé í frumvarpinu tekið tillit til breyttra forsendna frá gerð fjárlagafrumvarpsins, t.d. nýrra kjarasamninga, stofnanasamninga og vinnutímatilskipunar. Að mati nefndarinnar verður að mæta aukinni fjárþörf sem þetta skapar. Einnig styður nefndin uppbyggingu göngudeilda á sjúkrahúsunum í takt við nýja starfsmannastefnu Landspítala -- háskólasjúkrahúss.``

Herra forseti. Vissulega hefur verið tekið tillit til þarfa Landspítala -- háskólasjúkrahúss í frv. og eins í fjáraukalagafrv. en það er ekki nóg. Landspítali -- háskólasjúkrahús er okkur öllum mjög mikilvæg stofnun, vissulega fjárfrek, sérstaklega undanfarið vegna þeirra miklu skipulagsbreytinga sem þar hafa gengið yfir og er ekki lokið. Það verður að taka á rekstrargrunni allra heilbrigðisstofnana, sama hvort um er að ræða heilsugæslu, rekna með eða án sjúkrahúss, dvalarheimili, hjúkrunarheimili eða hvaða rekstrarform sem er á rekstri heilbrigðisstofnana. Þetta stendur upp úr öllum þeim sem reka slíkar stofnanir og það fæst aldrei leiðrétting, það er ekki hægt að setja á neinn núllpunkt, eins og talið var að hefði verið gert fyrir fáum árum, nema með því að endurskoða forsendur grunnsins.

Einnig leggur heilbr.- og trn. til, herra forseti, að fjárveitingar til hjúkrunarrýma verði auknar og hafist verði handa um að leysa hjúkrunarvanda aldraðra á höfuðborgarsvæðinu. Þetta á við um hjúkrunarvanda aldraðra um allt land þó að höfuðborgarsvæðið sé það sem brennur heitast núna.

Að lokum, herra forseti, er það sem ekki hefur verið tekið tillit til. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Þá telur nefndin að leiðrétta verði greiðslur til lífeyrisþega þannig að þær fylgi launaþróun.``

Þetta kemur ekki fram. Ég vísa því þá einnig til vinnu fyrir 3. umr. og til meiri hluta hér á Alþingi, stjórnarliða, að taka upp breytt vinnubrögð og laga og leiðrétta grunnlífeyrisgreiðslurnar til lífeyrisþega, hvort heldur það eru öryrkjar eða ellilífeyrisþegar.

Þá ætla ég að gera grein fyrir brtt. á þskj. 483. Það er liður 08-358 Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Þar er áætlað í almennan rekstur í fjárlagafrv. núna 2.770 millj. en við leggjum til að sá liður verði hækkaður um 369,7 millj., liðurinn Tæki og búnaður hækki um 142,3 millj. og liðurinn Nýbygging um 90 millj. Ástæðan fyrir þessu, herra forseti, er einfaldlega sú að í fjáraukalögunum, eins og þau líta út núna, hefur ekki verið tekið tillit til vanda Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Þar stendur út af, þegar búið er að fara yfir launagjöld og launatengd gjöld, vaktaálag o.s.frv., S-merkt lyf, sem eru krabbameinslyf, og önnur þau lyf sem sjúkrahúsið eitt má afgreiða, ferliverk og sértekjur og myndgreiningar, að inn í rekstur þessa árs vantar 175 millj. Þegar farið er yfir fjárlögin og miðað við fjárlagafrv. vantar eftir sem áður 142,3 millj. Þetta eru þær tölur sem koma inn í reksturinn en auk þess þarf að halda áfram að standa að nýbyggingum við Fjórðungssjúkrahúsið til þess hreinlega að geta boðið upp á þá þjónustu sem þegar er til staðar og eins varðandi þá uppbyggingu sem til stendur að verði á sjúkrahúsinu. Í frv. er gert ráð fyrir 10 millj. kr. en innréttingu 3. hæðar í suðurálmu er enn ólokið og það samkomulag sem gert var við Íslenska erfðagreiningu um fjármögnun framkvæmda mun að öllum líkindum ekki ganga eftir. Það er til þess að klára 3. hæð og áætlaður kostnaður við það eru 115 millj.

Fyrir liggur ósk um að kaupa segulómtæki fyrir næsta ár fyrir tæplega 126 millj. kr. Auðvitað er þetta há tala en staðreyndin er sú að ef stofnanir ætla hreinlega að teljast með og vera gjaldgengar sem heilbrigðisstofnanir, eins og Fjórðungssjúkrahúsið sem sérgreinasjúkrahús, þýðir ekkert annað en að það geti haft þann tækjakost sem til þarf til þess að standa undir nafni. Annars erum við í raun og veru að byggja upp hjúkrunarrými og takmarkaða þjónustu því að þeir sjúklingar sem þurfa á segulómun að halda eru í dag sendir suður með öllum þeim aukakostnaði sem það hefur í för með sér. Notkun segulómtækja hefur valdið byltingu í greiningum margra sjúkdóma. Má þar helst nefna krabbamein, brjósklos og sjúkdóma í stoðkerfi. Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri er sérgreinasjúkrahús sem meðhöndlar sjúklinga með þessa sjúkdóma og það er óþolandi að þurfa að senda þá í greiningu annað. Ef við ætlum að hugsa til þess að dreifa álaginu, minnka álagið á Landspítala -- háskólasjúkrahús og nýta þá krafta sem við höfum úti á landi eigum við auðvitað að byggja upp slíka þjónustu.

Unnið er að því að koma upp móttökudeild fyrir sykursjúka. Sykursýki af tegund 2 er sjúkdómur sem hefur nú náð athygli fólks, lætur lítið yfir sér en er alvarlegur sjúkdómur og kemur yfirleitt fram eftir því sem árin færast yfir okkur. Því er nauðsynlegt að styrkja þessar rannsóknir og móttöku. Fjárþörf vegna þessarar starfsemi er 9,2 millj. Sjúkraflutningamiðstöð í tengslum við Fjórðungssjúkrahúsið hefur verið byggð upp og það þarf að halda áfram að byggja upp þar. Neyðarmóttaka og áfallahjálp er hluti af því að bæta þessa þjónustu og þar eru 7,2 millj.

[19:15]

Ég tíndi hér upp nokkra liði og gerði grein fyrir hvers vegna þær tölur væru komnar upp í þessar upphæðir. Fyrir árið í ár eru þær til þess að halda í horfinu. Fyrir næsta ár er það til þess að halda áfram að byggja upp þá þjónustu svo að Fjórðungssjúkrahúsið í tengslum við háskólann geti verið sú stoð sem við væntum.

Það sama gildir um Heilbrigðisstofnun Þingeyinga og Heilbrigðisstofnun Austurlands sem eru liður 08-761 og 08-777, að þar vantar í reksturinn á þessu ári og sannarlega í reksturinn á næsta ári. Þær fjárhæðir sem þarna eru á blaði eru eingöngu til þess að halda í horfinu eins og þetta er í dag. Í dag er búið að skera niður og spara eins og hægt er. Það er ekki hægt að spara meira öðruvísi en að draga úr starfsemi. Þessar fjárhæðir miða eingöngu við lágmarksstarfsemi eins og er í dag. Það er engin uppbygging, engin ný starfsemi, ekkert miðað við þær hugmyndir sem þeir metnaðarfullu starfsmenn sem eru á þessum stofnunum hafa um t.d. endurhæfingu og ný svið þar sem væri hægt að efla starfsemina. Það er ekkert slíkt inni í þessu.

Hægt væri að hafa hér langar ræður og vitna í svar hæstv. heilbrrh. vegna fyrirspurnar sem ég lagði fram fyrr á þessu þingi um aukna heilsugæsluþjónustu, því að í svarinu er vísað til þess að áhugi sé fyrir því að bæta heilsugæsluna, auka starfsemina, fá fleiri lækna og hjúkrunarfræðinga. En þess gætir ekki í fjárlagafrv. nema þá á höfuðborgarsvæðinu þar sem á að efla starfsemi sem betur fer.

4. liður brtt. er 11-411 Byggðastofnun. Við leggjum til að atvinnuráðgjafar á landsbyggðinni sem er einn pottur í fjárlögum --- það eru átta atvinnuþróunarfélög eða miðstöðvar starfandi --- fái 100 milljónir til viðbótar þeirri 101 milljón sem er. Þetta er algjör lágmarksviðbót þó við séum þarna að tvöfalda framlagið því atvinnuþróunarfélögin hafa að raungildi fengið minni framlög núna frá ári til árs heldur en lagt var upp með því framlögin hafa ekki fylgt vísitöluhækkunum og hafa því að raungildi verið að dragast saman. Á undanförnum árum eru þetta samanlagt að raungildi um 50 milljónir sem dregist hefur saman.

Beiðnum til atvinnuþróunarfélaganna, beiðnum frá íbúum svæðanna og fyrirtækjum um aðstoð og stuðning til þess að koma á nýjum fyrirtækjum, nýrri atvinnustarfsemi eða vinna úr hugmyndum, fjölgar stöðugt og hlutfallslega færri beiðnum er hægt að sinna. Þetta er langöflugasta leiðin til þess að koma á öflugra atvinnulífi og glæða þrótt í byggðum landsins, enda fá atvinnuþróunarfélögin og atvinnuþróunarfulltrúar góðan stuðning frá sveitarfélögunum. Mig langar til að vitna, herra forseti, í svohljóðandi bréf frá Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, sem ritað er fjárln., með leyfi forseta:

,,Samband sveitarfélaga á Austurlandi vill koma á framfæri við fjárlaganefnd Alþingis mikilvægi atvinnuþróunarstarfsemi á landsbyggðinni. Samband sveitarfélaga á Austurlandi hefur ávallt lagt áherslu á þessi mál og komið á framfæri mikilvægi starfseminnar við Byggðastofnun og mikilvægi þess að framhald verði á stuðningi og samningar gerðir til lengri tíma.``

Svo fylgir ályktun sambandsins:

,,Aðalfundur SSA haldinn á Seyðisfirði 22. og 23. ágúst 2002 fagnar þeim árangri sem náðst hefur með samstarfi SSA og Þróunarstofu Austurlands. Það er skýr vilji aðalfundar að samstarfið haldi áfram og verði eflt.``

En til þess þarf fjármagn, herra forseti, og miðað við hvað félögin hafa að raungildi fengið minna fjármagn, því miður segi ég því að ósk mín hefði verið að við hefðum geta hækkað framlögin enn meira að sinni. En þetta er viðleitni.

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. á þskj. 482 og þskj. 484 sem eru af sama meiði, þ.e. styrking skógvistarverkefnis sem Skógrækt ríkisins og Náttúrufræðistofnun Íslands vinna að. Þetta er samstarfsverkefni og í tillögunum kemur fram að hvor stofnun fái 10 millj. kr. til að fara í þetta verkefni. Ástæðan fyrir því að þessi breyting er lögð fram er sú að við höfum gerst aðilar að hinni svokölluðu Kyoto-bókun við rammasamning Sameinuðu þjóðarinnar um loftslagsbreytingar. Í stefnumörkun ríkisstjórnar Íslands um ráðstafanir til að standa við skuldbindingar loftslagssamningsins og Kyoto-bókunarinnar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Þær skógræktar- og landgræðsluaðgerðir sem ráðist verður í á næstu árum verði skipulagðar og framkvæmdar með þeim hætti að nettóbinding kolefnis sem af þeim leiðir verði sem mest að teknu tilliti til annarra markmiða svo sem verndar líffræðilegs fjölbreytileika ...``

Við höfum sem sé undirgengist þetta og til að geta unnið það verk var á þessu ári hafið rannsóknarverkefnið Skógvist. Skógrækt ríkisins á Mógilsá vinnur það í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands. Niðurstöður þessa verkefnis á að nýta til þess að ákvarða hvernig best megi ná því tvíþætta markmiði sem fram kemur í ofangreindri tillögu.

Þetta verkefni er einnig brýnt vegna þeirrar umræðu sem verið hefur um áhrif skógræktar á lífríkið. Í skýrslu frá sendinefnd Bernarsamningsins sem heimsótti Ísland í sumar var hvatt til þess að stjórnvöld stuðli að rannsóknum í anda skógvistarverkefnisins.

Þetta er algjör forsenda þess að fara í þá vinnu sem Skógrækt ríkisins og stöðin í Mógilsá fyrir hennar hönd og Náttúrufræðistofnun Íslands vinnur að til að hægt sé að uppfylla þau skilyrði sem við höfum undirgengist varðandi Kyoto-bókunina um kolefnisbindinguna.

Sú tillaga sem ég mæli fyrir hér að lokum er átaksverkefni í grisjun á Héraði, sem er á þskj. 484 og liðurinn er 04-331 Héraðsskógar, 1.11 Átaksverkefni í grisjun á Héraði. Áætlaðar eru í það 15 millj. kr. Þetta er sérstakt átaksverkefni í grisjun. Það er ekki nóg, herra forseti, að planta skógi og gera það myndarlega og standa að skógræktarátaki út um allt land. Það verður einnig að grisja skóginn. Á Héraði hafa fjölmargir bændur farið í skógræktarverkefni. Það hefur skapað umtalsverða atvinnu. Grisjunin gerir það líka. Á Héraði háttar svo til að búskapur, eins og víða annars staðar, hefur frekar verið að veikjast, þ.e. hinn hefðbundni búskapur, sauðfjárbúskapur þó sérstaklega, þannig að þar sem landið fellur vel að skógrækt hefur öll vinna samfara skógræktinni, bæði plöntunin og umhirðan og síðan grisjunin, verið mikilvægur þáttur í að halda uppi atvinnu á Héraði. Þetta er mikilvæg tekjulind. Það er samdóma álit allra þeirra sem hafa skoðað atvinnuástand, búsetuþróun og kjör bænda, að skógræktarverkefnin og vinnan við skógræktina hafi leitt til þess að bændur hafa getað búið áfram á búum sínum og haft þetta sem tekjulind með hefðbundnum búskap.

Herra forseti. Ég hef nú gert grein fyrir þeim brtt. sem ég hef staðið að ásamt hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni. En mig langar til að varpa fram nokkrum spurningum og ábendingum til hv. fjárln. að hún skoði og vinni úr fyrir 3. umr. Þetta vegur nú misþungt í fjárlagagerðinni. En ég vil spyrjast fyrir um fjarvinnsluverkefni, þ.e. fjarvinnslu gagna sem er unnin á Stöðvarfirði hjá SMS efh. vegna skráningar fornrita sem þessu fyrirtæki, SMS ehf., hefur verið lofað. Hvernig standa þau mál? Það skiptir máli í hinum fámennu byggðarlögum að halda þeim fjarvinnslustöðvum sem komið var á laggirnar og efla þær frekar heldur en hitt. Þetta fyrirtæki fór af stað eins og mörg önnur með loforð upp á vasann. Minna hefur síðan orðið um efndir því svo virðist að sérstaklega ríkisfyrirtækin haldi fast í sitt.

[19:30]

Hvað varðar landbúnaðinn og landbrn. vil ég spyrjast fyrir um þær 45 milljónir sem fengust fyrir sölu jarðarinnar Straums sem Skógrækt ríkisins hafði verið gefin. Þetta var gjafabréf á sínum tíma og jörðin var seld fyrir 45 milljónir. Tíu milljónir fóru á síðasta ári til Garðyrkjuskólans. Ég tel að það hafi verið sérstakt framlag því að Skógrækt ríkisins rekur ekki Garðyrkjuskólann og því spyr ég um þær 45 milljónir sem Skógræktin fékk fyrir sölu Straums.

Eins vil ég spyrja um verkefni Héraðsskóga. Á árinu 1999 var samþykkt á Alþingi stækkun Héraðsskógasvæðisins til norðurs. Ég vil spyrjast fyrir um hvernig eigi að standa að fjármögnun tíu skógarjarða á Norður-Héraði en áætlaður kostnaður við þær er 5,5 milljónir á ári. En auk þessa vantar, til að koma þessu verkefni á, um 3 milljónir til rannsóknarvinnu svo hægt sé að koma verkefninu á. Því vantar samtals á næsta ári 8,5 millj. kr. Þetta er loforð, þetta er samþykkt héðan frá Alþingi. Sú samþykkt vakti upp væntingar. Farið er að undirbúa þessa stækkun en fjármagn vantar til að koma þessu í framkvæmd og því spyr ég: Hvað verður um efndir?

Hvað varðar ábendingar heilbr.- og trn. þingsins og eins háværa kröfu allra öryrkja og sem við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum tekið undir spyr ég: Hvernig á að vinna að hækkun grunnlífeyris ellilífeyrisþega og öryrkja til að ná raunhækkun og fylgja hækkun launavísitölu eins og samið hefur verið um varðandi tekjutrygginguna?

Eins vil ég spyrja um fjárframlög til heilbrrn., um hvernig því verkefni miði að koma á menntun heimilislækna á Vestfjörðum, Austurlandi og Norðurlandi. Þetta er verkefni sem þegar er farið í gang og einn læknir er þegar í námi. Uppi eru miklar væntingar um að þetta verði raunhæf leið og muni skila sér til að fjölga heimilislæknum sem sárvantar, þ.e. að koma á menntun heimilislækna hér á landi. Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, Heilbrigðisstofnun Austurlands, Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, Heilbrigðisstofnunin á Ísafirði, Heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki og Heilsugæslustöðin á Akureyri eru ásamt Háskólanum á Akureyri tilbúin til að standa að slíku námi og því spyr ég: Hvað með undirbúning þessa náms og fjármagn til þess? Áætlunin hefur þegar verið lögð fram og fjárhagsáætlun vegna námsins líka. Áætlaður heildarkostnaður miðað við þrjá nemendur er fyrsta árið rúmar 25 millj. kr. og miðað við fimm nemendur 34 millj. kr.

Þetta mundi örugglega verða ein hagstæðasta leiðin til að leysa hinn mikla vanda við að fá heimilislækna til starfa núna eða til að ráða heimilislækna, fyrir utan auðvitað það að leysa þarf þá kjaradeilu sem er uppi milli sumra heimilislækna og ráðuneytisins.

Herra forseti. Það eru hér tvö mál í viðbót. Mig langar til að spyrjast fyrir um Tryggingastofnun ríkisins, hvort ekki eigi að bæta úr rekstrarumhverfi stofnunarinnar. Það er viðurkennt að bæta verður tölvukerfið til að ráða við þær breytingar og umfang sem Tryggingastofnun er ætlað að sinna. Eins þarf stofnunin að geta ráðið sérfræðinga, lækna, til eftirlitsstarfa. Það eitt og sér, að fá fjármagn til að ráða sérfræðinga til að sinna eftirliti varðandi greiðslur fyrir unnin verk, því að það geta engir nema læknar tekið að sér, mundi örugglega skila ríkissjóði til baka margfalt launum þeirra sérfræðinga sem ynnu hjá Tryggingastofnun. Við erum því í úlfakreppu. Tryggingastofnun hefur ekki svigrúm til þess eða bolmagn að ráða þá sérfræðinga sem Ríkisendurskoðun hefur gert ábendingu um að þurfi að vinna við stofnunina.

Eins finnst mér það skipta máli að í því samkomulagi sem gert var við eldri borgara er heitið umtalsvert meiri þjónustu í heimahúsum. Það á bæði við hjúkrun og félagsþjónustu en þess gætir ekki í fjárlagafrv. að sveitarfélögin eigi að fá viðbótarfjármagn til að taka á sig aukna félagsþjónustu vegna þessa samkomulags. Ég vænti þess að það komi fram fyrir 3. umr., allt sem laut að samkomulagi eldri borgara við ráðuneytin.

Ekki þarf að minna á að Landhelgisgæslan, útvörður okkar, á í miklum rekstrarvanda, ekki síst vegna rekstrar þyrlunnar. Það er mál sem þarf að skoða mjög gaumgæfilega, að Landhelgisgæslan sé ekki fjársvelt svo að hún geti ekki með góðu móti sinnt störfum sínum og verið okkur öllum til sóma.

Herra forseti. Ég hef þá að hluta gert grein fyrir brtt. frá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði.