Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 21:07:37 (1802)

2002-11-27 21:07:37# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[21:07]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég kann þessar spurningar sem hv. þm. nefndi og hafði reyndar talið að þeim hefði verið svarað í fjárln. en fyrst svo er ekki er mér ljúft að reyna að bregða einhverri birtu á þetta mál. Samkvæmt þeirri áætlun sem fyrir liggur er ljóst að styrking krónunnar á þessu ári, 2002, gæti verið rúmlega 8%, 8,3% samkvæmt fyrirliggjandi áætlun. Miðað við skuldastöðu ríkissjóðs í lok árs 2001 yrði lækkun erlendra skulda af þessum sökum nálægt 16 milljörðum kr., sem er um 2% af vergri landsframleiðslu. Það er lægri tala en séð verður í þessari töflu þannig að mismunurinn er þá hrein afborgun, lækkun.

Hvað varðar þróun erlendra vaxta lækkuðu þeir, eins og allir vita, nokkuð á árinu 2001 en hafa haldist svipað á árinu 2002, miðað við árslok 2001. Á þessu ári hefur ríkissjóður að stærstum hluta tekið lán erlendis með föstum vöxtum og þar með nýtt sér það að vextir á alþjóðamarkaði hafa lækkað og fengið þá festa til lengri tíma. Eigi að síður er hlutfall erlendra lána með breytilegum vöxtum núna 62% en aðeins 38% með föstum vöxtum. Vegna þess hversu hátt hlutfall heildarskulda erlendis er með breytilegum vöxtum er ekki unnt að gefa upp fast meðaltal þeirra vaxta. Þeir eru breytilegir.

Miðað við hver staða lána er áætluð í árslok 2002, reiknað út frá árslokum 2001, má ætla að lækkun vaxta á erlendum lánum nemi u.þ.b. 1,5 milljörðum kr.