Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 21:26:07 (1807)

2002-11-27 21:26:07# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[21:26]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Það er orðið áliðið kvölds þannig að ég ætla ekki lengja umræðuna neitt sérstaklega mikið en vil samt nota tækifærið og lýsa ánægju minni með að hæstv. fjmrh. skuli vera viðstaddur umræðuna, ég tel það mjög mikilvægt.

Félagar mínir í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði hafa í ræðum í dag greint frá áhersluatriðum okkar og talað fyrir brtt. sem við höfum gert við fjárlagafrv. fyrir árið 2003. Ég vil nota tækifærið þar sem hæstv. fjmrh. er á staðnum og taka fyrir málefni sjúkrahúsanna, en ég og hv. þm. Þuríður Backman höfum flutt brtt. sem varðar málefni sjúkrastofnana á landsvæði okkar, þ.e. Norðurlandi eystra.

Það olli gríðarlegum vonbrigðum núna við samþykkt fjáraukalaga að Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri fékk aðeins 108 millj. kr. leiðréttingu, en hafði á sannfærandi hátt farið fram á og fært rök fyrir því að þörf sjúkrahússins var 175 millj. að auki við þær 108 millj. sem voru settar fram. Ég tel að hér sé um að ræða svo alvarleg skilaboð að ræða þurfi það á pólitískum nótum, sérstaklega vegna þess að á sama tíma er Landspítali -- háskólasjúkrahús réttur af um 2,3 milljarða í fjáraukalögum.

Við höfum þess vegna sett fram brtt. hvað varðar sjúkrahúsið á Akureyri og höfum tekið inn í þá fjárvöntun sem var upp á 175 millj. kr. og sett fram í tillögu á þskj. 483, til þess að rétta af Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri á svipuðum nótum og talað hefur verið um og gert hefur verið varðandi Landspítala -- háskólasjúkrahús, þannig að almennur rekstur fái 369,7 milljónir aukalega, tæki og búnaður 142,3 milljónir og nýbygging 90 milljónir. Á sama hátt höfum við tekið Heilbrigðisstofnun Þingeyinga og Heilbrigðisstofnun Austurlands inn í þetta dæmi.

Það eru mjög erfið skilaboð fyrir Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri að það skuli ekki fá sömu leiðréttingar og eiga sér stað við Landspítala -- háskólasjúkrahús. Ef Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri hefði verið sett undir sömu mælistiku hvað varðar leiðréttingar, þá má segja að hlutfallslega hefði leiðrétting Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri verið í kringum 230 milljónir í staðinn fyrir 108 milljónir.

Við verðum að horfast í augu við það og ég trúi ekki öðru en tekið verði á þessum málum, vegna þess að á höfuðborgarsvæðinu eru sannarlega þessi hátæknisjúkrahús okkar. Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri hefur sannarlega líka þá sérstöðu að vera hátæknisjúkrahús og vera varasjúkrahús fyrir allt landið ef einhverja vá ber að höndum í öðrum landshlutum og þá kannski sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að þetta verði ekki leiðrétt á milli umræðna. Ég vil því spyrja hæstv. fjmrh. hvert hugur hans stefni í þessum efnum. Vegna þess líka að þrátt fyrir að hafa lúslesið fjárlagafrv. sé ég engin skýr merki um það neins staðar, nema þá þvert á móti eins og í tilfelli Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, að menn ætli að fylgja eftir áformum ríkisstjórnarinnar í nýsamþykktri byggðaáætlun um styrkingu Eyjafjarðarsvæðis.

[21:30]

Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri hefur ævinlega staðið sig með prýði hvað varðar rekstur. En það hefur alltaf verið erfiðleikum bundið fyrir Fjórðungssjúkrahúsið að sækja peninga til leiðréttingar miðað við hvað tilsvarandi stofnanir hér á þessu svæði fá. Með þessum aðgerðum í fjáraukalagafrv. og fjárlagafrv. finnst mér fyrst kasta tólfunum hvað misræmi varðar. Auðvitað eru sömu vandamál í öllum heilbrigðisstofnunum meira og minna í kringum landið. En Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri verður að teljast hafa mjög mikla sérstöðu þar sem það er hátæknisjúkrahús og gegnir því lykilhlutverki í heilbrigðiskerfi landsins. Það á að mínu mati að standa fyllilega jafnfætis tilsvarandi stofnunum á höfuðborgarsvæðinu.

Virðulegi forseti. Þess vegna mæli ég fyrir þessari brtt. um aukin framlög til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri sem hv. þm. Þuríður Backman hefur að vísu farið mjög vel yfir. Inn í þetta tökum við Heilbrigðisstofnun Þingeyinga til leiðréttingar og Heilbrigðisstofnun Austurlands.

Á lið 11-411 í sama þskj. setjum við fram tillögu um aukaframlög til atvinnuráðgjafar á landsbyggðinni. Atvinnuþróunarfélögin hafa fært sannfærandi rök fyrir því að þau hafi á undanförnum árum dregist mjög aftur úr hvað framlög varðar. Í gögnum þeirra má sannarlega segja að miðað við verðbreytingar sé sú fjárhæð um 20 millj. kr. að lágmarki. Við teljum það lykilatriði að nota atvinnuráðgjafana á landsbyggðinni til þess að hefja framþróun í atvinnuuppbyggingu og teljum að þessari starfsemi hafi verið gert allt of lágt undir höfði og viljum stuðla að því að betur verði gert við þessa aðila.

Virðulegi forseti. Ég mæli einnig í þessu sambandi fyrir brtt. sem er á þskj. 485 sem varðar Sementsverksmiðjuna hf. á Akranesi. Við hv. þm. Jón Bjarnason leggjum til að við 7. gr. bætist nýr liður, liður 7.11 um að auka hlutafé í Sementsverksmiðjunni hf. á Akranesi um allt að 500 millj. kr.

Vegna samkeppni á sementsmarkaði, þar sem því hefur verið haldið fram að innflytjandi hafi beitt undirboðum sl. tvö ár, hefur Sementsverksmiðjan hf. átt í verulegum rekstrarerfiðleikum. Tap verksmiðjunnar árið 2001 var 228,4 millj. kr. og er talið að tap á þessu ári gæti orðið annað eins. Í þeim tilgangi að vinna tíma til þess að gera áætlun um framtíðarstöðu verksmiðjunnar leggja flutningsmenn til að hlutafé verði aukið í verksmiðjunni og fjármálaráðherra heimilað að nota allt að 500 millj. kr. í því skyni.

Málefni Sementsverksmiðjunnar hafa verið mjög til umræðu núna á opinberum vettvangi upp á síðkastið. Það er mat margra að hér sé beitt undirboðum í þeim tilgangi einum að knésetja framleiðsluna eða verksmiðjuna á Akranesi til þess að ná algjörum yfirráðum á markaðnum á Íslandi. Raunar hefur forstjóri þess fyrirtækis úti í Danmörku sem flytur inn á Íslandsmarkað, lýst því yfir að hann og fyrirtæki hans telji að Ísland sé heimamarkaður Danmerkur. Hann lýsir sem sagt áformum sínum um að auka hlutdeild sína á markaðnum og komast í raun og veru yfir hann.

Hlutverk Sementsverksmiðju ríkisins má auka gríðarlega eins og fram hefur komið í umræðu í fjölmiðlum. Lagðar hafa verið fram þáltill. af þeim sem hér stendur og hv. þm. Jóni Bjarnasyni um að athuga möguleika Sementsverksmiðjunnar í því framtíðarhlutverki að farga orkuríkum úrgangsefnum svo þúsundum tonna skiptir. Þær verksmiðjur sem starfræktar eru á meginlandi Evrópu hafa farið inn á þá braut. Verksmiðjan notar kol sem orkugjafa í augnablikinu en gæti notað til dæmis afgangs og ónýta hjólbarða eða plast af ýmsu tagi. Brennsla þeirra efna er minna mengandi og krefst minni hreinsunar en t.d. brennsla kolanna og er auk þess förgun á efnum sem við stöndum frammi fyrir að þurfa að farga á einn eða annan hátt með byggingu verksmiðja eða förgunarstaða með gríðarlegum tilkostnaði bara á allra næstu missirum.

Hv. þm. Jón Bjarnason hefur mælt fyrir brtt. sem ég flyt ásamt honum og Guðjóni A. Kristjánssyni um Framhaldsskóla Snæfellinga. Snæfellingar leggja mikla áherslu á að framhaldsskóli verði starfræktur á þeirra landsvæði og það er í fullu samræmi við stefnu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs varðandi grunnnám í heimabyggð. Þetta mál viljum við styrkja alveg sérstaklega og lagt er til að undirbúningur að rekstri skóla kosti sem sagt 80 millj. kr. og það er fengið úr þeim gögnum sem menn hafa lagt fram í því efni.

Virðulegi forseti. Þá vil ég koma að einu máli sem ég undra mig mjög á að skuli ekki hafa komist inn í fjárlagavinnuna. Það var einhuga og einróma samþykkt í sjútvn. um að varið skyldi upphæð til þess að styrkja kræklingaeldi í landinu og koma því á laggirnar. Fyrir nokkrum missirum hóf töluverður fjöldi manna tilraunaeldi á kræklingi. En vegna fjárskorts má segja að aðeins þrír aðilar séu eftir. Það eru menn sem stunda þessa atvinnugrein í Arnarfirði. Þessi atvinnugrein er stunduð af Hríseyingum á Eyjafirði og þessi atvinnugrein er stunduð í Mjóafirði.

Allt sem sagt hefur verið og liggur á borðum um þessa atvinnugrein lofar mjög góðu. Þetta lítur út framar björtustu vonum manna. En jafnframt er ljóst að þeir sem hafa stundað þetta og enst í greininni hafa átt mjög erfitt uppdráttar hvað varðar að fá fé til þess að fjármagna þessa tilraunastarfsemi. Þeir segja sínar farir ekki sléttar.

Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að milli umræðna kristallist einróma einhugur nefndarmanna í sjútvn. um að þessi atvinnugrein skuli styrkt. Guðjón A. Kristjánsson talaði fyrir þessari breytingartillögu líka hér áðan. Við höfum lagt fram hreina og klára tillögu á þskj. 478, þar sem við leggjum til að 10 millj. kr. verði bætt við á liðinn 05-190 Ýmis verkefni, þ.e. Þróun kræklingaeldis. Ég ítreka, virðulegi forseti, að það er einróma samþykkt í hæstv. sjútvn. að fara þannig með þetta mál.

Virðulegi forseti. Að síðustu flyt ég brtt. á þskj. 477 sem varðar orkumál á orkuveitusvæðum Rariks og stofnframlög til hitaveitna í dreifbýli. Þetta er undir iðnrn. á þskj. 477 og þar legg ég til að breytingar á sundurliðun við lið 11-399 Ýmis orkumál. Þar legg ég sem sagt til 100 millj. kr. aukningu vegna styrkingar dreifikerfis í sveitum.

Á hinu háa Alþingi hefur verið haft langt mál um það að allur rekstur í dreifbýlinu eigi í mjög miklum erfiðleikum vegna þess að á mörgum svæðum er ekki þriggja fasa rafmagn. Það er alveg nauðsynlegt að kortleggja þessi svæði og gera Rarik kleift eins og hægt er að koma þriggja fasa rafmagni inn á þau svæði þar sem atvinnustarfsemi sem krefst mikils rafmagns er stunduð.

Þetta varðar gríðarlegar upphæðir sem eru settar á menn sem ekki hafa þriggja fasa rafmagn, t.d. bara í verslunarrekstri eða veitingahúsarekstri, en tæki sem ekki geta notað þriggja fasa rafmagn eru miklu dýrari en öll önnur tæki, öll kælitæki og öll rafmagnstæki hvað þetta varðar.

Á brtt. á þskj. 477 legg ég síðan til eins og á undanförnum árum að bætt verði við lið 11-399 Ýmis orkumál, þ.e. staflið b, liðnum 1.20 Framlag til Rariks vegna dreifbýlisveitna. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. af því hann er staddur í salnum: Hinn félagslegi þáttur í dreifikerfi Rariks er talinn þurfa framlag með einum eða öðrum hætti upp á 500 millj. kr. á ári. Það er hræðilegt misrétti að þéttbýlissveitarfélögin á orkuveitusvæði Rariks skuli þurfa að greiða miklu hærri orkugjöld og standa í raun að verulegum hluta undir kostnaðinum við þetta félagslega dreifikerfi. En þetta dreifikerfi er náttúrlega í mesta strjálbýlinu.

Rafmagnsveitur ríkisins hafa reiknað út að þessi liður sé um 500 millj. kr. á ári. Nú hafa menn í umfölluninni um ný orkulög komist að því að til þess að fjármagna þann hluta dreifikerfisins sem er ekki óarðbær sé hægt að gera --- það hefur ekki verið ákveðið endanlega --- það sem nágrannalöndin hafa gert, þ.e. annaðhvort að fikta í skattlagningu, virðisaukaskatti eða gera annað í þeim dúr til þess að framkalla þessa jöfnun eða veita bein framlög úr ríkissjóði eins og sumir gera, t.d. Skotar. Einnig má skattleggja framleidda orkueiningu í landinu öllu til þess að afla tekna fyrir þessari jöfnun. En jöfnunin samkvæmt útreikningum er sannarlega 500 milljónir og eins og ég segi og hef margoft sagt á hinu háa Alþingi þá er hróplega ósanngjarnt að bestu dreifisvæði Rafmagnsveitna ríkisins á landsbyggðinni skuli skattlögð til þess að standa straum af þessum hluta dreifikerfisins en ekki önnur sveitarfélög í landinu.

Þetta kom berlega í ljós t.d. þegar Rafmagnsveitur ríkisins, Rarik, yfirtóku Rafveitu Sauðárkróks. Þar í bænum voru iðnfyrirtæki sem nota mikla orku. Þau stóðu frammi fyrir 16--52% hækkun á orkuverði með tilkomu Rafmagnsveitna ríkisins sem afhendingaraðila inn á það svæði. Ég tel þetta svo stórt mál að það verði að fjalla um það á hinu háa Alþingi og hef reyndar á hverju ári lagt fram tillögu um að þannig yrði staðið að málum.

Ég hef líka lagt til á brtt. á þskj. 477 að við bætist nýr liður, þ.e. stafliður c. Það er liður 6.10 Stofnframlög til hitaveitna í dreifbýli. Þetta er mál sem mikið hefur verið rætt um en engir peningar hafa verið settir í. Svona liður eða svona möguleiki er sérstaklega ætlaður til þess að vera eins konar þróunarframlag þar sem menn geta hugsað sér framtíðaratvinnuuppbyggingu, t.d. sumarbústaðahverfi eða þjónustu fyrir ferðamenn. Miðað við núverandi aðstæður mun stofnlögn hitaveitu ekki borga sig og þarf því að líta á þetta sem sérstaka aðgerð til þess að styrkja byggð.

Mörg sveitarfélög gætu notfært sér þetta. Vil ég bara nefna sem dæmi að frá hitaveitu Öxarfjarðarhrepps væri hægt að leggja hitaveitu með svona framlagi inn í þjóðgarðinn í Ásbyrgi og styrkja þar verulega alla starfsemi fyrir 30 millj. kr. Síðan gæti reksturinn borgað sig á grunni þeirrar hitaveitu sem er. Ég gæti farið yfir landið og sýnt fram á að þetta væri hægt að gera á mörgum stöðum.

Virðulegi forseti. Ég hef nú farið yfir þær breytingartillögur sem voru sérstaklega á mínum vegum, en eins og ég segi þá hafa félagar mínir í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði talað fyrir þeim breytingartillögum sem við höfum lagt fram. Ég þarf ekki í sjálfu sér að lengja mál mitt frekar hvað þetta varðar enda er orðið áliðið kvölds. Ég læt máli mínu því lokið.