Útskriftir fatlaðra af Landspítala -- háskólasjúkrahúsi í Kópavogi

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 10:30:41 (1808)

2002-11-28 10:30:41# 128. lþ. 38.3 fundur 68. mál: #A útskriftir fatlaðra af Landspítala -- háskólasjúkrahúsi í Kópavogi# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[10:30]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. félmrh. er um hvað líði útskriftum fatlaðra af Landspítala -- háskólasjúkrahúsi í Kópavogi, áður Kópavogshæli, hvenær fyrirhugað sé að ljúka verkefninu og hvernig verði hagað búsetu þeirra sem ekki geta flutt af sambýli en eiga lögheimili á Landspítala. Þá má segja um þessa fyrirspurn að hún sé gamall kunningi, við höfum rætt þetta nokkrum sinnum á liðnum árum, ég og hæstv. félmrh.

Nú er meira en áratugur síðan ný lög um málefni fatlaðra voru samþykkt á Alþingi. Með þeim var gerð grundvallarbreyting á lögunum og sköpuð ný úrræði. Segja má að með þessum lögum hafi orðið bylting í öllu umhverfi málaflokksins. Það var þá þegar alveg ljóst að íbúar þáverandi Kópavogshælis --- íbúar en ekki þeir sem eru skilgreindir sjúklingar --- mundu að óbreyttu ekki njóta þeirrar þjónustu laganna sem nýbreytnin náði til. Í nál. þegar málið var afgreitt úr félmn. benti þáv. meiri hluti nefndarinnar sem í voru fulltrúar allra flokka á að það væri mikilvægt vegna óskýrðrar réttarstöðu íbúa Kópavogshælis að heilbr.- og trmrh. beitti sér fyrir skipan fimm manna nefndar sem gerði tillögur um framtíðarhlutverk og skipan Kópavogshælis. Það verður að segjast eins og er að það hefur tekið ákaflega langan tíma að skipa þessum málum enda um stórt verkefni að ræða.

Nú hefur það gerst að 20 íbúar sem búa í blokkinni svokölluðu hafa verið færðir undir svæðisskrifstofu og þar með félmrn. og heyra þá ekki undir sjúkrahúsið. Mér skilst að búið sé að kaupa tvö hús en fimm þurfi til að ljúka útskriftum úr blokkinni. Þegar ég spurðist fyrir um þetta mál síðast, haustið 2000, var verið að ganga frá samningum við hússjóð Öryrkjabandalags Íslands um að þeir byggðu eða keyptu en ráðuneytið leigði. Þá voru uppi áform um þrjú sambýli á Reykjanesi vorið 2001, og tvö á vorinu 2002. Þá voru alls 209 á biðlista á Reykjanesinu öllu. Enn þá skilst mér að 12--15 af þeim 27 sem dvelja á sjúkrahúsinu, ekki í blokkinni, ættu að flytjast þaðan samkvæmt skilgreiningu og að ekki sé ljóst hvað verði um þá. Því er þessi spurning borin fram um hvert hlutverk deildarinnar í Kópavogi verði þegar útskriftum lýkur varðandi þessa sem eru í starfsmannablokkinni.