Útskriftir fatlaðra af Landspítala -- háskólasjúkrahúsi í Kópavogi

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 10:38:07 (1810)

2002-11-28 10:38:07# 128. lþ. 38.3 fundur 68. mál: #A útskriftir fatlaðra af Landspítala -- háskólasjúkrahúsi í Kópavogi# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[10:38]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir þessi svör. Þau staðfesta það sem ég hafði nokkurn veginn verið búin að átta mig á miðað við þær upplýsingar sem ég hef verið að kalla eftir hér og þar.

Ég tek undir hversu mikilvægt það er fyrir fatlaða einstaklinga, fjölskyldur þeirra og foreldra að vel takist til með flutning í tilfelli eins og þessu þegar verið er að útskrifa af gamla Kópavogshælinu. Það olli oft miklum erfiðleikum og áhyggjum þessara einstaklinga þegar einhverjar fréttir bárust af breytingum á Kópavogshæli og fólk vissi ekki hvað um það yrði. En við skulum gera okkur grein fyrir því að það voru um 100 íbúar á þessum stað þegar byrjað var að vinna þetta verkefni og á þessum áratug hefur liðlega helmingurinn verið fluttur. Þetta hefur tekið langan tíma. Mig langar að spyrja ráðherrann hvort þessi áform um vorið 2003 standist, að þá verði allir búnir að fá nýjan samastað sem nú búa í húsi 15, þ.e. blokkinni. Ráðherrann upplýsir að verið sé að reyna að gera samkomulag á milli heilbrrh. og félmrh. um þá sem eftir standa. Mér finnst mjög mikilvægt að við reynum að átta okkur á því hvert hlutverk heildarinnar verði, þ.e. þar sem þeir fötluðu sjúku dvelja nú og þurfa að vera í sérstöku umhverfi áfram, og hvað hæstv. ráðherra sjái fyrir sér með hina sem geta flust út og sem hann sagði að þyrfti að gera samkomulag um. Hvaða áform hefur ráðherrann um þá sem enn geta flust út, 12--15 manns, og hvað með þessa fötluðu sjúku sem eru á deildinni? Hver verður framtíð deildarinnar?