Útskriftir fatlaðra af Landspítala -- háskólasjúkrahúsi í Kópavogi

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 10:40:21 (1811)

2002-11-28 10:40:21# 128. lþ. 38.3 fundur 68. mál: #A útskriftir fatlaðra af Landspítala -- háskólasjúkrahúsi í Kópavogi# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[10:40]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan verða 20 væntanlega komnir í sambýlið næsta vor. Það verður metið hvernig þeim vegnar. Ákvarðanir hafa ekki verið teknar um hvernig staðið verður að flutningi þessara 12--15 sem eftir verða þá. En ég vil gjarnan nota þetta tækifæri til þess að telja upp þá áfanga sem við höfum náð í búsetumálum fatlaðra á þessu ári, og bind mig bara við árið 2002.

Hafin er bygging sambýlis við Jöklasel og áformað að það verði tilbúið næsta sumar. Þroskahjálp er að undirbúa byggingu sambýlis við Þverholt í Mosfellsbæ og við höfum tekið í notkun sambýli við Blikaás í Hafnarfirði, Barðastaði, Hólmasund og Sólheima í Reykjavík. Síðan eru sambýlin vegna útskrifta af Kópavogshæli, Svöluhraun og Skagasel, og búið er að kaupa hús við Erluás og Miðskóga eins og ég sagði áðan, og eitt verður keypt til viðbótar í Reykjavík. Þá verður Sæbrautin gerð að sambýli og tekið hefur verið í notkun endurbyggt sambýli á Hvammstanga.

Við Holtaveg er komin skammtímavistun sem er með sex eða sjö pláss sem gætu nýst 10--15 hluta úr degi, og hæfingin í Kópavogi er með 20 heilsdags- eða 40 hálfsdagspláss. Á þessari upptalningu má sjá að aldrei hafa á einu ári verið tekin stærri skref í búsetumálum fatlaðra eða vistunarúrræðum. Ég hef hér talið upp 15 staði sem allir bæta stórlega lífsaðstöðu þeirra sem þangað koma. (Gripið fram í.) Það á eftir að taka ákvörðun um hvernig þeirra málum verður háttað.