Úrbætur í jafnréttismálum

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 10:45:58 (1813)

2002-11-28 10:45:58# 128. lþ. 38.4 fundur 129. mál: #A úrbætur í jafnréttismálum# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[10:45]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Niðurstöður nefndarinnar sem starfar á vegum samningsins um afnám allrar mismununar gegn konum vegna þriðju og fjórðu skýrslu íslenskra stjórnvalda um framkvæmd samningsins lágu fyrir í febrúar sl. Ég kynnti meginefni þeirra í ræðu á Alþingi þann 8. mars á alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Í niðurstöðu nefndarinnar var íslenskum stjórnvöldum hrósað fyrir hvað margt hefði áunnist í jafnréttisátt frá árinu 1996 þegar fulltrúar íslenskra stjórnvalda kynntu fyrstu og aðra skýrslu Íslands. Nýjum jafnréttislögum var fagnað sérstaklega auk þeirra verkefna og rannsókna sem hafa verið gerðar hér á landi á sviði jafnréttismála sl. ár.

Enn fremur vakti athygli nefndarinnar sú áhersla sem lögð hefur verið á að karlar taki þátt í aðgerðum sem eru til þess fallnar að auka jafnrétti kynjanna. Sérstaklega er vísað til jafnra réttinda til fæðingarorlofs sem er til þess fallið að hvetja til jafnari foreldraábyrgðar.

Nefndin gagnrýndi að álit kærunefndar jafnréttismála væri ekki bindandi fyrir aðila máls. Í þessu sambandi ber að minnast þess að ég lagði fram frv. til nýrra jafnréttislaga á 123. löggjafarþingi þar sem gert var ráð fyrir úrskurðarnefnd jafnréttismála sem kveða átti upp bindandi úrskurði. Frv. hlaut ekki afgreiðslu á þinginu. Að teknu tilliti til þeirra umræðna sem þá áttu sér stað í þinginu þótti ástæða til þess að hverfa aftur til fyrra horfs á skipulagi kærunefndarinnar við endurskoðun frv. Niðurstaða þingsins varð sú að í nýjum jafnréttislögum er áfram álitsgefandi kærunefnd.

Nefndin vakti athygli á kynbundnum launamun sem reynst hefur mjög erfiður viðureignar þrátt fyrir áralanga baráttu stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins auk annarra aðila. Á því er engin launung að það er markmið stjórnvalda að koma í veg fyrir kynbundinn launamun. Eins og fram kom í ræðu minni í mars sl. er það ósk mín að Jafnréttisráð leggi í starfi sínu megináherslu á að finna leiðir til að hraða megi þróun í átt að launajafnrétti. Það er stefna ráðsins að fylgjast mjög vel með þróun mála á vinnumarkaði á næstu árum. Ráðið var þátttakandi í Evrópuverkefni sem nefnist Towards a Closing of the Gender Pay Gap en því lýkur núna í nóvember.

Það má heldur ekki gleyma því að við bindum miklar vonir við að fæðingar- og foreldraorlofslög dragi úr kynbundnum launamun. Væntanlega þarf fólk að sýna þolinmæði enn um sinn eftir að merkja megi áhrif þeirra enda eru þau að komast til fullra framkvæmda um næstu áramót.

Hið háa hlutfall kvenna í hlutastörfum hér á landi vakti athygli nefndarinnar. Hún telur margt benda til að konur axli meiri ábyrgð á fjölskyldunni en karlmenn. Það má vel vera að í þessari staðhæfingu megi finna einhver sannleikskorn en það má ekki líta fram hjá þeirri staðreynd að hugsanlegt er að þar sé einnig um að ræða val kvennanna á íslenskum vinnumarkaði þegar litið er til þess að næg störf hafa verið í boði á undanförnum árum og sveitarfélögin hafa staðið sig ágætlega í dagvistarmálum. Þá hafa tilskipanir um hlutastörf og tímabundna ráðningarsamninga verið teknar upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og það er markmið þeirra að koma í veg fyrir mismunun gagnvart fólki í þessum störfum.

Eins og við vitum öll er ofbeldi gegn konum því miður staðreynd í öllum samfélögum. Þar er um að ræða margþætt vandamál sem á sér djúpar rætur í samsetningu þeirra. Nefndin hvatti íslensk stjórnvöld til að halda áfram baráttunni gegn þessu vandamáli, m.a. með því að styrkja innlenda löggjöf til að tryggja réttarúrræði og vernd fyrir konur sem hafa verið beittar ofbeldi. Hún vildi enn fremur vekja athygli stjórnvalda á vægum refsingum hér á landi fyrir glæpi er fela í sér kynferðislegt ofbeldi, þá sér í lagi í nauðgunarmálum. Þegar refsirammar ákvæða almennra hegningarlaga vegna kynferðislegs ofbeldis eru skoðaðir kemur í ljós að refsingar í dómum slíkra mála eru vel innan efri marka þeirra. Það þarf því fleira að koma til en breytingar á refsirammanum til að það sé mat sérfræðinga að refsingar í þessum málum séu of vægar. Að öðru leyti vísa ég um þennan þátt til hæstv. dómsmrh.

Afleiðingar ofbeldis gegn konum eru mjög kostnaðarsamar fyrir samfélagið og værum við betur sett með að verja þeim fjármunum í forvarnir og annað uppbyggingarstarf konum til handa.