Úrbætur í jafnréttismálum

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 10:51:13 (1814)

2002-11-28 10:51:13# 128. lþ. 38.4 fundur 129. mál: #A úrbætur í jafnréttismálum# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[10:51]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Eins og fram kom í máli hans er þessi skýrsla síðan í febrúar. En ég vil beina þessari spurningu aftur til hæstv. ráðherra: Er ráðherra tilbúinn til þess að beita sér fyrir því að niðurstöður kærunefndar jafnréttismála verði bindandi? Er það vilji hæstv. ráðherra að þannig verði gengið frá málum á þessu þingi? Ég minni á að fyrir þinginu liggur mál frá Samfylkingunni og er alveg ljóst hver vilji okkar er í þessum efnum. Mun ráðherra styðja það að niðurstöður kærunefndar jafnréttismálanna verði bindandi?

Eins varðandi kynbundinn launamun: Hvaða öðrum úrræðum en þeim sem ráðherrann taldi upp hér áðan er ráðuneytið að beita sér fyrir? Nýlegar skýrslur sýna að enn er verulegur kynbundinn launamunur og þarf að grípa þar til enn róttækari aðgerða en gert hefur verið.

Varðandi þá dóma sem nefndir eru í þessari skýrslu út af kynferðisafbrotamálum virðist lítið hafa þokast í þeim efnum. Refsiramminn er til staðar en ég minni á að 20. nóvember sl. var greint frá tveimur málum í sama fréttatíma, annars vegar manns sem hafði framið kynferðisafbrot gegn þremur ungum stúlkum og fékk þriggja mánaða fangelsi en 15 mánuði skilorðsbundna til viðbótar, hins vegar manns sem var dæmdur fyrir að stela kjöti og bíl. Hann fékk eins árs óskilorðsbundinn fangelsisdóm. Þarna vantar verulega á að gripið sé inn í og þetta er auðvitað hluti af þeirri skýrslu sem birt er frá eftirlitsnefndinni og heyrir undir hæstv. ráðherra.