Einelti á vinnustað

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 11:05:23 (1819)

2002-11-28 11:05:23# 128. lþ. 38.5 fundur 139. mál: #A einelti á vinnustað# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[11:05]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég tel að rannsóknir Vinnueftirlitsins sýni að einelti er með svipuðum hætti hér og annars staðar á Norðurlöndum. Vandamálið er sem sagt til staðar. Ég held að út af fyrir sig sé meira virði að reyna að koma í veg fyrir einelti heldur en að mæla hvort það sé prósentinu meira eða minna. Ég held að við þurfum að reyna að efla forvarnir og fræðslu í þessu efni til að reyna að koma í veg fyrir að eineltið líðist.

Varðandi umbunargreiðslur og vinnustaðasamninga hef ég ekki hugleitt hvort það væri rót eineltis. Mér þykir það frekar langsótt. Umbunargreiðslur eða akkorðsgreiðslur hafa tíðkast lengi, t.d. bónusgreiðslur í frystihúsum. Ég hef ekki trú á því að á þeim vinnustöðum sé einelti algengara en annars staðar. En auðvitað getur mikil samkeppni út af fyrir sig e.t.v. aukið hættuna á einelti.