Atvinnuleysisbætur

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 11:07:19 (1820)

2002-11-28 11:07:19# 128. lþ. 38.6 fundur 231. mál: #A atvinnuleysisbætur# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[11:07]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Eitt af því sem verst hefur komið niður á kjörum lágtekjufólks í tíð þessarar ríkisstjórnar var þegar viðmið lífeyrisgreiðslna og atvinnuleysisbóta við launatengingar voru aftengd fyrir nokkrum árum, t.d. varðandi atvinnuleysisbætur frá 1997. Þá var lögunum breytt og hætt að miða atvinnuleysisbætur við taxta almenns fiskvinnslufólks. Þess í stað voru teknar upp nokkurs konar geðþóttaákvarðanir af hálfu ríkisstjórnarinnar og ákveðið að miða bæturnar við almenna launaþróun eða verðlag sem ákveðið er nú á hverju ári við fjárlagagerðina.

Ljóst er af þróun undanfarinna ára að ríkisstjórnin hefur ávallt miðað við það sem lægst hefur gefið þessum lágtekjuhópum. Þrátt fyrir ítrekaðar kröfur, t.d. samtaka öryrkja og aldraðra og verkalýðshreyfingar, hefur það ávallt verið hunsað að miða lífeyri og atvinnuleysisbætur við launavísitölu. Með því að hætta að miða lífeyrinn við launavísitölu hafa verið hafðar af þessum lágtekjuhópum um 7 þús. kr. á mánuði, þ.e. nálægt 90 þús. kr. á ári, sem aðeins hefur verið dregið í land með í nýju samkomulagi Landssambands aldraðra við stjórnvöld þó að ekki liggi enn fyrir hvort stjórnvöld ætli að láta þá hækkun ganga til atvinnulausra.

Ef miðað væri við að lágmarkslaunin --- lífeyrisgreiðslur og atvinnuleysisbætur --- héldu í við lágmarkslaun fram til 1995 þá munar um 20 þús. kr. á mánuði á lágmarkslaununum og lífeyrisgreiðslunum. Þessu til viðbótar hefur ríkisstjórnin svo ráðist í það að skattleggja sérstaklega kjör lágtekjuhópa og skert m.a. svo skattleysismörkin að stór hópur lágtekjufólks, lífeyrisþega og atvinnulausra greiðir skatt af þeim litla framfærslueyri sem ríkisvaldið skammtar honum en svo er komið að stór lágtekjuhópur greiðir sem samsvarar eins mánaðar lífeyrisgreiðslum í skatt á ári. Ég er sannfærð um að sú alvarlega þróun sem orðið hefur á kjörum þessa fólks, þar sem framfærslan er orðin miklu þyngri og erfiðari en fyrir nokkrum árum, er m.a. orsök þess að fjárhagsvandi sveitarfélaga hefur aukist verulega, að ekki sé talað um þá vaxandi fátækt sem við aftur og aftur verðum vör við í umfjöllun fjölmiðla þar sem biðraðir eftir aðstoð mæðrastyrksnefndar lengjast stöðugt sem og til annarra hjálparstofnana.

Af þessu tilefni hef ég lagt nokkrar fyrirspurnir um atvinnuleysisbætur fyrir ráðherra en þar erum við að fjalla um kjör þeirra sem hvað verst hafa það í þjóðfélaginu. Sérstaklega legg ég áherslu á að ráðherra svari því hvort hann sé reiðubúinn að hækka atvinnuleysisbæturnar og breyta viðmiði þeirra, t.d. að þær hækki í samræmi við launavísitölu og hætt verði að skattleggja þær. Ekki síður nefni ég það sem ekki er í þessari fyrirspurn en fram hefur komið eftir að hún var lögð fram, þ.e. lítils háttar hækkun á lífeyrisgreiðslum sem samið var um við samtök aldraðra, og hvort ekki sé hugmynd ríkisstjórnarinnar við þessa fjárlagaafgreiðslu að hækka atvinnuleysisbæturnar til samræmis við það samkomulag.