Atvinnu- og dvalarleyfi útlendinga

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 11:23:09 (1827)

2002-11-28 11:23:09# 128. lþ. 38.7 fundur 262. mál: #A atvinnu- og dvalarleyfi útlendinga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[11:23]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ný lög um atvinnuréttindi útlendinga og ný útlendingalöggjöf taka gildi um næstu áramót. Við samningu frumvarpa til þessara nýju laga var um það rætt að veiting atvinnu- og dvalarleyfa yrði á einni hendi. Af hálfu félmrn. var lögð rík áhersla á að varðveita tengslin milli veitingar atvinnuleyfa og stöðu og þróunar á vinnumarkaðnum, þ.e. að tryggt yrði að útlendingur sem fengi atvinnuleyfi hefði atvinnu. Fyrri löggjöf um atvinnuréttindi útlendinga hefur byggst á þessu grundvallarsjónarmiði. Það má segja að þetta fyrirkomulag hafi verið gæfa okkar og án efa stuðlað að því að vandamál sem önnur ríki hafa þurft að glíma við á þessu sviði hafa reynst minni í sniðum hér á landi en ella hefði getað orðið. Það var því sjónarmið félmrn. að færa ætti veitingu atvinnu- og dvalarleyfa á einn stað og ef það ætti að gerast yrði sá staður að vera í félmrn. Þetta er leið sem ýmis önnur ríki hafa valið, t.d. Norðmenn. Þar hafa þessi málefni verið sameinuð undir einni stjórn innanríkisráðuneytisins og félmrn. kemst næst því að gegna hliðstæðu hlutverki hér á landi. Það má því segja að sú skipan væri mjög hentug hér á landi þar sem félmrn. er enn fremur vinnumarkaðsráðuneyti.

Það má geta þess að ráðuneytið hefur við ýmis tækifæri, m.a. í nefndum um málefni útlendinga, vakið athygli á að nauðsynlegt sé að samræma löggjöf um útlendinga. Um þetta náðist hins vegar ekki samstaða á sínum tíma og fram komu tvö frumvörp, annað samið í félmrn. um atvinnuleyfin og hitt í dómsmrn. um útlendinga. Af því leiddi að allshn. fjallaði um frv. um útlendinga en félmn. um frv. um atvinnuréttindi útlendinga. Þannig má e.t.v. segja að næstbesti kosturinn hafi verið valinn.

Í framhaldi af gildistöku laganna um atvinnuleyfi útlendinga í árslok 1994 tók félmrn. frumkvæði að því að stofna til reglulegs samráðs við útlendingaeftirlitið um veitingu atvinnu- og dvalarleyfa. Þetta reglubundna samráð er nú lögfest með ákvæðum í V. kafla nýju laganna um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002. Þar er kveðið á um að Vinnumálastofnun sem fer með framkvæmd laganna í umboði félmrh. og Útlendingastofnun skuli koma á fót sérstakri samráðsnefnd. Ég vil geta þess að nefnd félmrn. sem samdi frv. til laga um atvinnuréttindi útlendinga og nefnd dómsmrn. sem samdi frv. til útlendingalaga áttu með sér náið samráð í því skyni að tryggja sem best samræmi á milli þessara lagabálka. Ég mun leggja fyrir starfsmenn félmrn. að hafa samvinnu við starfsmenn dómsmrn. og Útlendingastofnunar þegar kemur að því að semja reglugerð með lögunum um atvinnuréttindi útlendinga.

Málefni útlendinga hafa orðið sífellt veigameiri þáttur í starfi félmrn. Á vegum ráðuneytisins er starfandi flóttamannaráð sem hefur það hlutverk að gera tillögur til ríkisstjórnarinnar um móttöku flóttamanna. Ráðið hefur einnig skipulagt móttöku flóttamanna. Ráðuneytið hefur haft umsjón með framkvæmd þál. um fjölmenningarsetur á Vestfjörðum. Þar er gert ráð fyrir því að þetta setur verði rekið sem tilraunaverkefni til ársins 2003. Ég á von á því að fá innan tíðar í hendur skýrslu frá ráðgjafarhópi sem er framkvæmdastjóra til stuðnings í starfi og stefnumótun setursins. Og mér finnst tímabært að hyggja að næstu skrefum varðandi fjölmenningarsetrið þegar sú skýrsla liggur fyrir. En í stuttu máli sagt hefur sú tilraun sem gerð er á Ísafirði tekist mjög vel.